Theism (af gríska orðinu ‘þeos’ en ekki ‘þeus’) er yfirleitt þýtt ‘eingyðistrú’. Deism er hins vegar þýtt ‘frumgyðistrú’.
Latneska orðið ‘deus’ þýðir vissulega það sama og gríska orðið ‘þeos’, þ.e. guð. Þau eru enn fremur bæði komin af sama indó-evrópska orðinu, ‘diowos’ en af því eru einnig komin latnesku orðin ‘divus’ (guðlegur) og ‘dies’ (dagur) og einnig nöfn guðanna Júpíters og Seifs (sem virðast upphaflega hafa verið himinninn persónugerður).
Þeismi er trú á einn guð, skapara manns og heims, sem skiptir sér enn þá af og stjórnar heiminum (eins og t.d. í kristni) og sú skoðun að trúin byggi á opinberun guðs. Guð opinberar okkur sem sagt einhvern “sannleika” (tilvist sína, boðorðin o.s.frv.) fremur en að trú okkar á þann “sannleika” byggi á rökum. Enn fremur hafa fylgt þeismanum alls kyns kreddur eins og t.d. að guð sé alvitur, almáttugur, eilífur o.s.frv.
Deismi átti mestu fylgi að fagna í Bretlandi, Frakklandi og Norður-Ameríku á 17. og 18. öld. Yfirleitt virðist deismi fela í sér að guð hafi skapað heiminn, komið honum af stað ef þannig má að orði komast, en hafi svo ekkert meira með hann að gera. Deistar hafna líka opinberunum og byggja, eins og þú sagðir, trú sína á rökum. Þeir geta átt það til að aka undir kreddurnar um eilífð, almætti og alvisku guðs en færðu þá einhvers konar rök fyrir þeim.
Mörg af rökunum sem deistar nota eru eldri en kristnin (enda á deismi sér rætur í grískri heimspeki eins og kristnin sjálf). Frægustu rökin fyrir tilvist guðs eru sennilega heimsfræðilegu rökin (cosmological argument), verufræðilegu rökin (ontological argument) og hönnunarrökin (argument from design). Það eru til fjölmörg afbrigði af öllum þessum rökum.
Í grundvallaratriðum fela heimsfræðilegu rökin í sér að allt sem er til eigi sér orsök og ekkert er orsök sjálfs sín. Þar sem heimurinn er til á hann sér þess vegna orsök. Þessi orsök er guð (sbr. frumhreyfilinn hjá Aristótelesi). Vísi að svona rökum má finna í Lögunum eftir Platon og nánari útfærslu hjá Aristótelesi í 12. bók Frumspekinnar, hjá stóumönnum, hjá Tómasi frá Aquino, Gottfried Wilhelm Leibniz og mörgum öðrum. Helstu gagnrýnendur rakanna voru David Hume og Immanuel Kant.
Verufræðilegu rökin eru í mjög grófum dráttum þau að við höfum hugmynd um algerlega fullkominn guð en það er fullkomnara að vera til en að vera ekki til og þar af leiðandi hlýtur algerlega fullkominn guð að vera til (því annars gætum við ekki haft hugmynd um algerlega fullkominn guð þar sem slíkur guð væri ekki algerlega fullkominn ef hann væri einungis til í hugum okkar). Rök af þessu tagi má finna hjá heilögum Anselm og Descartes svo dæmi séu nefnd. Helsta gagnrýnin kom frá þýska heimspekingnum Immanuel Kant sem benti á að tilvist er ekki eiginleiki og þar af leiðandi breytir tilvist engu um fullkomleika fullkominnar veru. En þessi rök hafa verið gífurlega umdeild og eru enn. Þýski heimspekingurinn Schopenhauer taldi þau vera brandara, aðrir taka þau enn alvarlega.
Hönnunarrökin eru í grófum dráttum þau að heimurinn beri þess merki að hafa verið hannaður og einungis guð gæti hafa verið hönnuðurinn. Eitt merki þess er sú staðreynd að við höfum hugmyndina um guð. Margir halda að rök af þessu tagi haldi ekki vatni lengur eftir að þróunarkenning Darwins var sett fram (og varð best rökstudda vísindakenning llra tíma!)
Ég mæli með að þú flettir í alfræðiorðabók til að fræðast meira.
___________________________________