Þetta er athyglisverð könnun og það verður gaman að sjá hvernig þorri notenda svarar. Spurningin er þessi:
(a) “Er hlutur gegnsær af því að við sjáum í gegnum hann eða sjáum við í gegnum hann af því að hann er gegnsær”.

Mér er reyndar skapi næst að segja að það sé raunverulega eitt rétt svar. Og það er “Þetta meikar ekki sens”. Ástæðan fyrir því að ég segi það er sú að í spurningunni leynist hálfgerð hugsunarvilla sem gaman verður að sjá hvort fólk taki eftir. Ég skal reyna að útskýra hvað ég á við.

Orðið ‘gegnsær’ er nefnilega lýsingarorð sem notað er um hluti sem hægt er að sjá í gegnum. Þar af leiðandi merkir ‘gegnsær hlutur’ það sama og ‘hlutur sem hægt er að sjá í gegnum’. En ef það er rétt, þá er hægt að setja ‘gegnsær hlutur’ inn í staðinn fyrir ‘hlutur sem hægt er að sjá í gegnum’ og öfugt. En þar með jafngildir (a) - sem var upphaflega spurningin - spurningunum:

(b) “Er hlutur gegnsær af því að hann er gegnsær eða er hann gegnsær af því að hann er gegnsær?”

og

© “Sjáum við í gegnum hlut af því að við sjáum í gegnum hann eða sjáum við í gegnum hann af því að við sjáum í gegnum hann?”.

Þessar spurningar - þ.e. (b) og © - “meika ekki sens” eins og sagt er, alveg bersýnilega ekki, a.m.k. ekki sem spurningar þar sem búist er við einhverju vitrænu og upplýsandi svari. Og þar með er ekki heldur neitt vit í upphaflegu spurningunni þar sem hún er jafngild þessum spurningum.
___________________________________