Ég fæ ekki séð hvers vegna í ósköpunum menn þurfa að vera látnir áður en hægt er að meta þá að verðleikum sem heimspekinga. Einn mesti heimspekingur 20. aldar var án efa Willard Van Orman Quine. Ég leyfi mér að halda því fram þó maðurinn hafi dáið um jólin. Ég hélt því fram áður en hann dó. Ég held að það sé ekki gott að líta aðeins á þá sem heimspekinga sem verða stærstu nöfnin í heimspekisögunni. Maður þarf ekki að verða Hume eða Kant til að vera heimspekingur. Vissulega eru sumir dýpri hugsuðir en aðrir og sumir mikilvægari í hugmyndasögunni. En Það má samt ekki útiloka alla aðra. (Maður þarf ekki að vera Jordan eða Jabbar til að vera körfuknattleiksmaður).
Ég held að þeir séu heimspekingar sem taka þátt í heimspekilegri umræðu. Svo fer það eftir umræðunni hversu miklir heimspekingar þeir eru. Ef umræðan er á svipuðum nótum og þegar Kant gerir uppreisn gegn heimspeki Leibniz og Wolffs eftir að hafa lesið Hume, djúptæk og frumleg, þá endurspeglar það heimspekilega stöðu allra þeirra sem tóku þátt í henni. Ef hún er á lægra plani (þ.e. ristir ekki eins djúpt, þetta átti alls ekki að vera gildishlaðið) endurspeglar hún þátttakendur sína á þann veg.
Svo má ekki gleyma því að það er ekkert sem mælir á móti því að menn séu hvort tveggja heimspekingar og fræðimenn. Ekki frekar en eitthvað mælir á móti því að menn séu hvort tveggja rithöfundar og stjórnmálamenn eða bifvélvirkjar og rafvirkjar. Ætli flestir heimspekingar í dag (þ.e.a.s. þekktir heimspekingar, og þó ef til vill bara flestir yfirhöfuð) séu ekki líka fræðimenn, þótt auðvitað séu ekki flestir fræðimenn líka heimspekingar. Það er allt annað mál. Ég held að það sé mjög erfitt að vera heimspekingur í dag án þess að vera líka fræðimaður og rannsaka svolítið hvað aðrir hafa þegar uppgötvað. Annars mun maður reyna að finna hjólið upp sjálfur, á meðan það er þegar búið að finna upp bílinn!
___________________________________