Nú þekki ég þessar kenningar ekki sérlega vel, en ég vil endilega tjá mig aðeins um þetta, og vona að þögn mín hafi ekki verið betri en rof hennar.
Mér hefur stundum þótt heimspekingar í þessum fræðum notað ótrúlega þröng sjónarhorn. Mér þykir þeir nota svo sterk stækkunargler að þá hýtur að verkja í augun. Það sem meira er, mér virðist sem þeir missi sjónar af stærra samhengi. Samhengi er einmitt lykilorð í því sem ég ætla að segja.
Til að stytta mál mitt og koma mér að efninu, og kannski líka af því að ég meina það; þá segi ég að merking snúist um samhengi. Þó grunar mig að eitt pússl vanti í myndina. (Ég hef ekki hugsað mikið um þetta, en etv sný ég mig út úr þessu í þessum töluðum orðum.)
Ég er á því að orð eigi við hlut, þegar orðið geti ekki átt við neinn annan hlut. (Hlutur er hvað það sem hægt er að tala um.)
Til þess að skera úr um við hvað orð á við, skoðum við samhengið sem orðið er notað í.
Förum snöggvast til Grikklands nútímans, þar sem Aristóteles er enn bara nafn. Þar gætum við heyrt hrópað Aristóteles! og litið við. Þar er kannski snáði að leik og mamma hans er að kalla í hann, kannski tveir snáðar að nafni Aristóteles. Þeir snúa sér í átt að hljóðinu og annar þekkir móður sína og kemur til hennar. Af samhenginu réðu þeir báðir að móðir ætti við son sinn.
Þegar við sjáum orð eins og Aistóteles í bók. Þá þurfum við að syrja okkur, í hvaða setningu kemur orðið fyrir, í hvaða efnisgrein, í hvaða kafla, í hvaða bók, eftir hvaða höfund, frá hvaða landi, á hvaða tungumáli, á hvaða ári, í hvaða mánuði, hvað hvenær hvernig hvar?; þurfum við að spyrja. Svörin við þessum spurningunum ráða samhenginu og þal merkingu orðsins sem við erum upphaflega að lesa í bókinni.
Það er engin tilviljun að heimspekingar vilji lesa ævisögur heimspekinga. Nú, hversvegna? Þeir vilja öðlast dýpri skilning á manninum sem skrifaði bókina eða bækurnar, sem skýra heimspeki hans. Þeir eru í raun að dýpka merkingu þeirra orða sem þeir lásu og svo hnoðuðu saman í skilning sinn á heimspeki höfundar. Eða ættum við kannski að segja að þeir séu að dýpka skilning sinn á þeirri byggingu sem skilningur þeirra á heimspeki höfundarins er. Líkast til er það nær sanni.
En stóra málið er að þeir eru að reyna að bæta við þekkingu sína á samhengi kenninganna, og þal skilning sinn á merkingu þess sem heimspekingurinn var að miðla.
Í þeim tilvikum þegar við getum ekki ráðið af samhenginu, að orð geti aðeins átt við eitthvað eitt, þá getum við á sama hátt ekki ráðið í merkingu orðsins.
Í framhaldi af þessu vil ég koma aftur að stækkunargleri heimspekinganna. Þegar þeir eru að deila um þessa kenningu, þykir mér oft sem þeir séu að tala um setningar eins og aðskilda heima út af fyrir sig. En svo er ekki. Slíkar setningar sem standa einar og sér án frekara samhengis, eru takmarkaðar í merkingu sinni, til að byrja með. Þannig að nota slík dæmi í umræðu og deilum sínum, er dæmt til að fara út í vitleysu.
Engin setning er án ytra samhengis. Það er alltaf einhver sem sagði hana, og sá lifir ekki í tómarúmi, sá sem sagði setninguna er líka í samhengi við allt annað. Á meðan allt er ekki eitt, er samhengi til staðar. En það er eina leiðin til að greina eitt frá öðru, og þal ráða í umhverfið. Þetta á einmitt við merkinguna, hún ræðst af samhengi allra hluta. Hvert orð er tengt heiminum. Ekkert er úr tengslum, jafnvel þó það sé ljósár í burtu. Ef “það” er ekki forskilvitlegt (Kant) þá er þetta “það” í órjúfanlegu samhengi við allt annað. Af þessu samhengi ræðst merking þessa “þaðs”.
Það er líkast til af þessum sökum, þeas vegna þessa mikla og stóra samhengis, sem málfræðingum og tölvufræðingum, hefur ekki tekist að fá tölvu til að “skilja” mælt mál. (En það ríkti einmitt mikil bjartsýni um þetta, sem nú er ekki til staðar lengur, fyrir miðja síðustu öld (ef ég man rétt)).
Kv.
VeryMuch
Ps. Eins og ég sagði upphaflega þá þekki ég þessar kenningar ekki vel, þannig að mér gæti hafa sést yfir mikilvægt atriði sem gæti gert mál mitt dautt og ómerkt.