Siðfræði Aristótelesar er dygðasiðfræði sem felur eiginlega ekki í sér forskrift að lögmálum sem hægt er að beita á einstök tilfelli eins og þetta. Mér þykir satt að segja mun meira vit í að láta nemendur gera verkefni um hvað Immanuel Kant eða John Stuart Mill myndu segja, enda hafa nytjastefna og skyldusiðfræði meira um svona dæmi að segja. En hvað um það.
Í siðfræði almennt er oft greint á milli tegunda skyldna. Annars vegar, segja menn, eru til verknaðarskyldur, en hins vegar aðhaldsskylur. Verknaðarskylda er skylda til að gera eitthvað, t.d. koma drukknandi manni til hjálpar. Aðhaldsskylda er skylda til þess að láta eitthvað ógert, t.d. ganga ekki í skrokk á einhverjum. Þessum skyldum samsvara svo réttindi sem kallast gæðaréttur og griðarréttur. Gæðaréttur er réttur manns á einhverjum gæðum, t.d. læknishjálp; þessi réttur samsvarar verknaðarskyldu. Ef þú átt rétt á einhverjum gæðum, hefur einhver annar (oftast) skyldu til að útvega þau (til eru undantekningar). Griðarréttur er hins vegar réttur manns til að vera látinn í friði; þessi réttur samsvarar aðhaldsskyldu. Ef þú hefur griðarrétt hefur annað fólk aðhaldsskyldu gagnvart þér.
Aristóteles fjallar ekki um skyldur og réttindi með þessum hætti, heldur fjallar hann fyrst og fremst um dygðir og lesti. En þessi greining á réttindum og skyldum er, sýnist mér, það sem þarf í þessu dæmi. Skoðum dæmið betur:
Bróðir læknisins hefur gæðarétt, þ.e.a.s. hann á rétt á læknisþjónustu. Og læknirinn hefur verknaðarskyldu, þ.e.a.s. honum ber að koma sjúklingnum til hjálpar. Gamli maðurinn hefur aftur á móti griðarrétt og læknirinn hefur aðhaldsskyldu gagnvart honum, þ.e.a.s. honum er skylt að láta gamla manninn vera nema til þess að hjálpa honum á einhvern hátt. Þegar verknaðarskylda og aðhaldsskylda rekast á heitir það réttlæti að aðhaldsskyldan vegi þyngra. Með öðrum orðum, læknirinn má <b>ekki</b> taka líffæri úr saklausum manni til að bjarga öðrum; það myndi teljast ranglátt. Og það skiptir engu máli þótt það sé bróðir hans sem þarf á líffærinu að halda. Þar að auki er það sennilega ekki löglegt en þótt það get verið tilfelli þar sem það teldist siðferðilega rétt að brjóta lögin, þá eru lög engu að síður “factor” sem taka þarf tillit til.
Gott og vel, Aristóteles fjallar ekki um siðfræði á þennan hátt, en hvað myndi hann segja? Sennilegast þykir mér að hann myndi segja akkúrat þetta en þó með öðru orðalagi. Það má koma öðrum til hjálpar - og það <i>á</i> að gera það; það er það sem vel upp alið fólk myndi gera (á endanum snýst siðfræði Aristótelesar að verulegu leyti um gott uppeldi) - en það má <b>ekki</b> gera það með því að <i>skaða saklaust fólk</i>. Hvers vegna ekki? Jú, það er einfaldlega ranglátt og ósanngjarnt gagnvart gamla manninum sem hefur ekkert af sér gert, ber ekki ábyrgð á ástandi hins sjúklingsins o.s.frv. Það verður líka að taka tillit til þess að það er ólöglegt á Íslandi árið 2003 að ræna menn líffærum sínum og lögbrot eru vissulega ranglát.
Í stuttu máli myndi Aristóteles, hygg ég, fallast á að það væri rangt að ræna gamla manninn líffærum sínum og hann væri sammála þeim sem segja það vera rangt <i>vegna þess að það er ranglátt</i>. En Aristóteles hafði ekki greinarmun á ólíkum skyldum til að útskýra hvers vegna það er ranglátt. Þess í stað segði hann eflaust að það væri fólskuverk að ræna menn líffærum sínum og aukinheldur ólöglegt.
Um réttlæti hjá Aristótelesi má lesa í <i>Siðfræði Níkomakkosar</i>, 5tu bók. Íslensk þýðing Svavars Hrafns Svavarssonar hefur komið út hjá <a href="
http://www.hib.is/laerdomsrit/aristoteles_sidfraedi.html“>Hinu íslenzka bókmenntafélagi</a>
Um greinarmuninn á verknaðarskyldum og aðhaldsskyldum má lesa hjá Þorsteini Gylfasyni í ritgerðinni ”Líknardráp" sem má finna í bók hans <i>Réttlæti og ranglæti</i> (Reykjavík: Heimskringla, 1998).<br><br>____________________________________
<b>Aut tace aut loquere meliora silentio.</