Í fyrsta lagi verð ég að taka það fram að ég held að þú standir sennilega í þessum sporum, en ég geri það líka og get ekki annað :)
Samt sem áður má geta sér til um þróun mála og reyna að leggja mat á það hvað muni reynast áhrifaríkt þegar fram líða stundir o.s.frv.
Ég held að það sé óhjákvæmilegt að kenningar sem eru að verða til í dag verði mikið ræddar innan heimspekinnar eftir nokkur hundruð ár, alveg eins og við getum ekki annað en rætt það sem á undan er gengið. Heimspekileg orðræða framtíðarinnar sprettur að öllum líkindum ekki upp úr engu, rétt eins og okkar orðræða er ekki sprottin upp úr engu heldur á hún sér undanfara.
En hvort leikmenn komi í framtíðinni til meða að þekkja vel kenningar þeirra heimspekinga sem uppi eru í dag er erfitt að segja. Einn vandinn er sá að heimspekin hefur orðið svolítið tæknileg á 20. öld og maður þarf stundum að vera skólaður í umsagnar-, samsemdar- eða háttarökfræði til að geta lagt mat á hana. Sumar ritgerðir eru svo fullar af formlegri rökfræði að við fyrstu sýn líkjast þær frekar ritgerðum um stærðfræði en nokkru öðru. Þannig að það er kannski erfitt fyrir leikmenn að lesa þau rit eins og þeir lesa e.t.v. Descartes í dag, ef þeir vilja kynna sér hann. En eigi að síður verða sennilega til heimspekisögurit þá eins og núna, þar sem helstu kenningar eru útskýrðar á einföldum nótum fyrir þá sem eru að byrja að kynna sér þessi efni og þar mun fólk að öllum líkindum geta kynnst helstu fígúrum og kenningum okkar tíma.
Margir heimspekingar á okkar dögum hafa komist vel og eftirminnilega að orði og hver veit nema vitnað verði í þá síðar meir eins og vitnað er í Descartes, Locke, Berkeley o.fl. í dag. En það er ómögulegt að segja til um hvaða frasa menn kunni að vitna í. Ef til vill ræðast það af þeim sem munu skrá heimspekisöguna í sögubækur. En tíminn einn getur leitt það í ljós.
Þannig að í stuttu máli held ég að svarið sé já, menn munu í framtíðinni kannast við helstu fígúrur í heimspeki okkar tíma og innan heimspekinnar munu þær sennilega verða ræddar af kappi.<br><br>____________________________________
<b>Aut tace aut loquere meliora silentio.</
___________________________________