Ég veit nú ekki hvort það sé <i>eina</i> leiðin til að vita hvað heimspeki er að ná sambandi við upphaf hennar. Ég veit ekki einu sinni hvort það sé nóg, því það þarf einnig að átta sig á þróun hennar frá upphafi og fram á okkar tíma. Hins vegar er að mínu mati mjög æskilegt að vita hvaðan maður kemur, hvernig samtíminn hefur orðið til, og það á við jafnt um sögu almennt og um heimspekisögu.
Auðvitað er ógerlegt að vita hver stundaði fyrstur manna heimspeki. En alla vega er víst að höfum við ekki heimildir um neinn hér í vesturheimi á undan Þalesi frá Míletos (f. um 625 f.Kr.). Við höfum hins vegar vitnisburð fornmanna sjálfra um að þeir hafi séð ástæðu til að telja hann fyrstan, en síðan hefur vestræn heimspeki verið stunduð mjög samfellt allt til þessa dags. Og tiltölulega snemma á eftir Þalesi er á ferðinni Pýþagóras (6. öld f.Kr.) sem að því er við best vitum fann upp orðið “filosofia” fyrir þá andlegu íþrótt sem hann stundaði, þannig að ef spurningin er um upphaf þess sem kallast <i>filosofia</i>, þá verður að rekja það til Pýþagórasar.
En aftur á móti er vafasamt að heimspekin eigi sér bara eitt upphaf í heiminum. Meira að segja í sögu forngrískrar heimspeki er talað um tvöfalt upphaf hennar (Í Jóníu annars vegar og í nýlendunum á S-Ítalíu hins vegar). Og ég held að það sé ljóst að upphaf kínverskrar og indverskrar heimspeki á 6. og 7. öld f.Kr. sé líka óháð bæði hvort öðru og upphafi grískrar heimspeki. En það ætti ekki að breyta neinu þótt heimspekin eigi sér ekkert eitt upphaf á einum tíma í heiminum sem alla heimspeki síðan mætti rekja til. Það er samt, held ég, hollt og gott að gefa gaum að sögu heimspekinnar og þróun hennar frá upphafi (hvaða upphaf sem það er) til okkar dags :)<br><br>____________________________________
<b>Aut tace aut loquere meliora silentio.</
___________________________________