Þetta er eiginlega spurning um skilgreiningu á frelsi. Við erum mjög frjáls að því leyti að okkur standa margir möguleikar opnir, og enginn veit með vissu hverja þeirra við munum velja. Við erum ófrjáls að því leyti að með mikilli þekkingu á heiminum mætti sennilega spá með nákvæmni um það. Til dæmis getum við nú þegar, með okkar takmörkuðu þekkingu á vinum okkar, giskað á hvað þeir munu gera í gefnum kringumstæðum. Maður segir jú oft "hann myndi aldrei gera þetta" eða þvíumlíkt.
Ef frelsi er mælikvarði á hve margir möguleikar standa okkur opnir, vegið eftir hve mikið okkur langar til að nýta þá, eru mörg okkar frjálsari en fólk hefur nokkurn tímann verið, ekki síst vegna síðari tíma tækniþróunar. En einmitt hennar vegna, og út af því að auði heimsins er misskipt, sjáum við marga hluti sem er hægt að gera, eins og geimferðir og að byggja skemmtigarða í bakgarðinum hjá sér, en við höfum ekki efni á. Okkur langar þannig til að gera hluti sem fólk áður fyrr leiddi hugann ekki að. Þetta kann að vera ástæða fyrir því að misskipting veldur talsverðri óhamingju innan samfélags, á meðan annað og á heildina litið fátækara samfélag er svipað hamingjusamt. Svo hugsanlega dæmum við frelsi okkar eftir því hvað er til boða en við fáum ekki.
Þess vegna er mögulegt að fávísi leiði til gleði. Til að koma í veg fyrir að við séum fávís eru okkur auðvitað birtar auglýsingar (hver kannast ekki við frasa á borð við "varan sem þú vissir ekki að þú þurftir"?) og hagur okkar borinn saman við hag nágranna okkar statt og stöðugt.
Þar sem er erfitt að vera fávís er þess vegna ágætt að hófstilla eigin löngunum. Það er hægt með upphafningu hófsemdar og aðhalds ("mér finnst gott að lifa smátt: minna gólf til að skúra"), með niðrun lystisemda ("lúxus er bara yfirborðskenndur") og með sjálfsblekkingu ("mig langaði hvort sem er ekkert í ROBOVAC 3000").
Mér hefur reynst ágætlega að blanda þessu þrennu saman, þótt auðvitað sé sjálfsblekkingin veikust fyrir árás. Með blöndu af anarkó-kommúnískri gagnrýni á eignarrétt og áherslu á félagsleg tengsl og vináttu (sjá til dæmis frásagnir af lífi Bienaventura Durruti, eins og í Der kurze Sommer der Anarchie) er það vel geranlegt. Ég er nefnilega ekki frá því að það sé manneskjunni nokkuð eiginlegra að elska vini sína en að elska hluti.