Undirstaða tilgangs.

Er ég horfi á rölvuskjáinn núna og orðin koma fram eitt af öðru, staf fyrir staf. Þá get ég ekki annað en velt því fyrir mér hvort þetta sé allt saman draumsýn.

Hugur minn hamast eins og andskotinn við harðlæstar dyr. Alheimurinn virðist vera óendanlegur, en hvað er óendanleiki. Er örðugra að skilja óendanleika en endanleika?

Þar taka nú oft draumar eða draumsýn við. Hversu auðvelt er fyrir mig að dreyma dagdraum um endanlegann alheim þegar ég aðeins fyrir 10 mínútum var búinn að sannfæra mig um að alheimurinn væri óendanlegur… svo hvar eru takmörkin á draumum?

Á einhvern hátt virðast draumsýnir hafa sína sjálfstæðu tilveru. Allir eiginleikar alheims birtist manni á augnabliki og áður en maður veit af eru íbúar ímyndaða heimsins byrjaðir að valhoppa stjarnanna á milli… Þeir hoppa og skoppa um og stjórnast af stórfurðulegum lögmálum. Vegalengdir eru afstæðar stundum en þó stundum furðu stæðar. Tíminn virðist stundum ganga afturábak en þó oftast á hlið. Nú er manni engin takmörk sett!!

Þá spyr maður. Eru íbúarnir til? Voru íbúarnir til? Verða íbúarnir til? Drap ég þá með því að hætta að hugsa um þá? Þorir maður að segja frá… loka þeir mig inni? Við notum orku til að mynda draumsýnir.. Á sama hátt er raunveruleiki okkar byggður á engu öðru en orku í rúmi. Hvað væri raunveruleikinn ef ekkert rými væri eða engin orka?

Er þá alheimurinn raunhæfur á sama hátt og draumsýnir eru raunhæfar?
Þjónar það tilgangi að velta þessu fyrir sér?

Er hægt að ímynda sér fimmvídd með því að bæta bara tveimur veggjum í þrívítt herbergi? Þyrftum við ekki að varpa algjörlega fyrir borð öllum okkar hugmyndum um þrívídd og byggja svo upp alveg nýja hugmynd um eithvað sem við mundum kalla fimmvídd. (skiptir þetta einhverju máli í þessari grein??)

Dreymir mann í einvídd eða tvívídd… kannski þrívídd eða jafnvel fjórvídd. Því þá ekki fimmvídd. Allt virðist mögulegt.

Eru draumar hinn æðsti veruleiki… eða eru draumar tálsýni? Hver veit? Ekki ég!!!

En þar sem ég horfi á stafina vella fram á skjánum í belg og biðu, myndandi þessi orð fæ ég varla ráðið við að bros færist í allavega annað munnvikið. Hver stjórnar þessu? (er ég andsetinn??)

Hvort hefur meiri áhrif á það sem ég er að skrifa, það sem ég er búinn að skrifa eða það sem ég á eftir að skrifa?

Finnur þú von og traust í þessum skrifum mínum…. (ég efast um það)


Kveðja Gabbler.

Ps. Ef þér líður illa eftir að hafa lesið þessa einkennilegu grein þá þykir mér það leitt. Skammaðu admininn… hann samþykti hana. Ég er bara aumur rithöfundur.
“Það sem aldrei hefur gerst getur alltaf gerst aftur”