Ég bið alla sem hafa móðgast vegna orða minna innilega afsökunar. Ég ætlaði ekki að virðast hrokafullur, en mér fannst þetta bara algjörlega utan við efnið hjá honum Popcorn, og satt að segja fannst mér pínulítið yfirlætislegur tónn í þessu hjá honum (afsakið ef ég misskildi og pls ekki gera fleiri pósta úr þessu máli). Ég var ekki í keppni um það hver veit meira um flókna stærðfræði (sem ég er ekkert sérstaklega vel að mér í) heldur var ég einfaldlega að kasta því fram að hugsanlega væru reglur fyrir öllum náttúrufyribærum, hvort sem þær eru til núna eða ekki. Ég er ekki saklaus af því að tala út fyrir efnið en mér fannst nóg komið með þessu. Sorrí, Popcorn.
Gabbler: Ég veit ekki hvort þú heldur að þú sért að ögra mér eða rífast við mig. Ég er alveg sammála því sem þú segir þarna. Takk fyrir skemmtilegar tilvitnanir.
Kenningin um að Jesú hafi verið á sveppum er vel þekkt. Um þetta hefur verið skrifuð bók, The Sacred Mushroom and the Cross (flettu henni upp á Amazon.com), eftir John M Allegro. Allegro þessi er virtur fræðimaður, var einn fárra útvalda sem fengu aðgang að Dauðahafshandritunum á meðan aðgangur að þeim var takmarkaður. Í bók þessari færir hann rök fyrir því að Jesú hafi aldrei verið til sem manneskja eða mann-guð, heldur hafi hann verið myndlíking fyrir sveppinn Amanita muscaria, eða berserkjasveppinn. Sögurnar um sveppinn eiga svo að hafa borist út og valdið misskilningi sem var endanlega skráður í guðspjöllin algerlega afbakaður. Framan á bókinni er mynd af skilningstrénu í formi berserkjasvepps, sem er teiknuð eftir kristilegri veggmynd frá miðöldum. Á netinu er að finna íslenska grein um þessa kenningu:
http://www.sigurfreyr.com/sveppurinn_helgi.html. Mér finnst þessi kenning ekki alveg nógu trúverðug, en tek ekki fyrir að uppruni þessara trúarbragða hafi verið eitthvað í líkingu við þetta.
En gerir þetta trúarbrögð eitthvað síður trúverðug? Kannski. En ekki endilega. Þetta tekur ekki fyrir það að alheimurinn í stærri og smærri einingum lúti lögmálum, að eitthvað hafi verið á undan honum sem hann varð til úr, og að maðurinn geti komist á annað vitundastig, losnað úr einangrun sinni sem einstaklingur og skynjað hina stærri heild, a la Einstein. Það er hægt með ástundun jóga, tantra, innhverfri íhugun, lestri á hagnýtri dulspeki, lestri og skilningi á nútímaeðlisfræði, nú eða með skynvíkkandi lyfjum. Síðastnefnda leiðin var e.t.v. sú eina sem hinn frumstæði maður þekkti, sú fljótlegasta en jafnframt hættulegasta.
Nú held ég að við séum að komast í skilning um það að afstaða okkar til trúarbragða er ekki ósvipuð: Við gefum skít í skipulögð trúarbrögð. Ég vil samt ekki afskrifa þau algjörlega af því að ég held að þau eigi sameiginlegan uppruna í undirmeðvitund mannsins, og eigi mikilvægan þátt í þroska hans. Ég held að hver einasti maður hafi möguleika á að verða eins og Móse, Jesú og Búdda, en fyrir þessum mönnum opinberaðist sammannleg sannindi um lífið og tilveruna og siðferðislegur leiðavísir, eins og upp úr þurru. En þetta var ekki upp úr þurru, einhvers staðar er þetta uppsprottið. Ég held að vísindin eigi eftir að færast nær því að geta sagt okkur hvað olli þessu hjá þeim. Ég held að leiðin að betri heimi liggi um andlega vakningu samhliða vísindalegri þekkingu. Það er öllum í hag að andleg málefni eru nú að færast nær vísindum og vísindi nær þeim. Jákvæð áhrif jóga og ýmissa íþrótta sem samhæfa huga og líkama, anda og náttúru, eru nú sjáanleg og mælanleg. Lífstré kabbalah er sláanlega líkt dna gormum erfðavísindanna, og afstæðiskenning Einstein, afbygging Derrida og sálfræðikenningar Freud og Jung eru auðveldlega samræmanlegar niðurstöðum sömu dulspekihefðar. Töfralæknar indjána sáu sömuleiðis fyrir sér tvo snáka sem hringuðust í gorm og voru uppistaða alls lífs, og vissu samstundis hvaða plöntum þeir áttu að bæta í lækningaseyði sín, sem virkuðu. Við erum nú að komast nálægt því að staðfesta það sem þeir vissu inni í sér, með aðferðum raunvísandanna, svo að allir geti vitað. Bara ef fólk gæti nú reynt að hugsa svolítið sjálfstætt og viða að sér þekkingu úr öllum áttum, hætt að trúa og farið að vita.
Þú sagðir: “Nefndu mér einn kristinn trúflokk sem telur sig EKKI þekkja hinn eina sanna boðskap Jesú?”
Ég var að tala um trúflokk sem samanstóð af mönnum sem þekktu og umgengust Jesú á meðan hann var á lífi, sem er ekki það sama og hægt er að segja um Pál, stofnanda kaþólsku kirkjunnar, hvað þá mótmælendakirkjuna, krossinn, fíladelfíu, votta jehóva og hina vitleysingana. Kirkjan úthrópaði gnostísista og eyddi sönnunargögnum um þá, og það vita allir hversu mikla hamingju kirkjan hefur fært okkur, eða þannig. Kannski höfðu þessir menn einhvern boðskap sem ógnaði veldi kirkjunnar, eins og t.d. að það þyrfti engan milliveg (prest) á milli einstaklingsins og guðs, og konungsríki guðs væri í huga mannsins en ekki í eiginlegri merkingu. Öfgafull tvíhyggja (sbr. djöfulinn drottnara jarðar) var hins vegar akkilesarhæll þessara ágætu manna sem hefðu getað verið góðir kennarar á við Búdda eða Lao Tze í sjálfsþekkingu og innri uppljómun.