Stundum stend ég mig að því að vaka fram á nótt yfir sjónvarpi. En það er ekki bara sjónvarp, það er besta sjónvarp í heimi, BBC Learning. Því miður virðast þeir á breska ríkiskassanum ekki líta á þetta sjónvarpsefni sömu augum og ég. Íþm virðist ekki hægt að ná BBC Learning hér á Íslandi nema þegar hinir sofa. En ég “aðra” þá með hinum massanum, sem vill frekar horfa á PopTíví.

Ég stend mig ekki bara að því að horfa á sjónvarp á nóttinni. Ég stend sjáfan mig einnig að því að tárast, að þurfa að þerra tárin af hvörmunum mínum eins og útlifað gamalmenni, þegar ég fylgist með stórkostlegum uppgvötvunum í vísindum. Það er e-ð snert djúpt innra með mér, þegar hugmur manns er sprengdur eins og flugeldur, og hugsanirnar suða eins og þúsund skopparakringlur, settar af stað með snertingu við nýjar staðreyndir. Þetta gerist reyndar stundum þegar ég heyri frábæra tónlist í fyrsta skipti, en vísindi hafa bara massífari áhrif. Kannski er ég bara svona væminn gæi. Hver veit.

Fyrir uþb ári eða svo, las ég e-ð sem ég skildi sem kenningu, en hún hljóðaði upp á að inn í Vetrarbrautinni miðri væri ógnarstórt svarthol, stærra en nokkurt “venjulegt” svarthol. Ég man ekki hvort það sem ég las þá, sagði hvort í þessari kenningu fælist að í öllum vetrarbrautum leyndist svarthol af þessari stærðargráðu. Á e-n undarlegan hátt varð ég ekkert hissa þegar ég las þetta. Mér hafði einhverntíma dottið þetta í hug sjálfum, eins og eflaust fleirum. En ég tók þetta bara sem eina kenninguna enn og e-ð sem ætti ekki að taka án fyrirvara. En það gerði ég einmitt, setti við þetta fyrirvara og setti þetta í skúffuna með öllum hinum kenningunum með fyrirvörunum.

Það var svo ekki fyrr en nú sem ég rakst á þessa kenningu á ný. Í besta sjónvarpi í heimi. Já, BBC Learning! Innan um þætti um enskar aðalsættir, sögu Rómar, arkítektúr, málara sem ég hef aldrei heyrt getið, já jafnvel heimspeki, skáld, … er einnig hægt að finna þætti um vísindi og stærðfræði. Það var í einum þessum sem ég rakst á þessa kenningu á ný. En nú virðist ekki vera um kenningu að ræða, athuganir og mælingar hafa sýnt fram á að e-ð ógnar þugnt er inn í ÖLLUM vetrarbrautum. Hlutir sem fara yfir ákveðinn massa, falla saman fyrir eigin þunga. Þessir hlutir eru venjulega kallaðir svarthol. En þessi svarthol sem eru inn í vetrarbrautum eru ekkert smá svarthol. Þetta eru RISAR. Þetta eru MONSTER svarthol!

Já þið heyrðuð það etv fyrst hér?!

Inní öllum vetrarbrautum leynast svarthol stærri en nokkur sem áður þekktust!

Þetta er ekkert annað en ný heimssýn, Kópernikusar bylting! Íþm í mínum huga.

Það er einnig búið að reikna út að Vetrarbrautin muni eiga náið samband við Andrómetru, nálægustu vetrabrautina við Vetrarbrautina. Þannig að Vetrarbrautin mun enda daga sína með Andrómedru, í OFUR hamförum. (En við þurfum auðvitað að bíða lengi eftir því ;) .)

Svo virðist sem það sé línulegt samband á milli hraða ystu stjarna vetrarbrauta og massa svartholsins í miðju þeirra. Er þetta ekki frábært! Hreint og tært dót! Ég mun íþm ekki líta alheim sömu augum og áður. Það er allt krökt í svartholum!! Við getum ekki þverfótað fyrir þeim!

Jæja þegar ég var búinn að þerra augum mín og texinn farinn að renna upp sjáinn, birtist gamalkunnur þáttur um arkitektúr.

Ungur maður sem veltir fyrir sér æðri menntastofnun sem hýsir krufningar og líffærafræðilegar stúdíur. Hann gengur um gangana og virðir fyrir sér líkskurðarbakkana, og kíkir ofaní rennur sem eru gerðar til að safna blóði. Þetta er stór steinbygging, á níu hæðum ef ég man rétt. Hann deilir með mér hugleiðingum sínum um gerð byggingarinnar og þess sem þar fer fram. Hann talar e-ð um fegurð í ljótleikanum, og hve brothætt byggingin er í raun ef hugleitt er að öll loftræsting og allar leiðslur, liggja utan á húsinu í risavöxnum steinstokkum, til þess að skapa meira rými fyrir nemendur innan í þessum húsakynnum æðri menntunar. Ungi maðurinn stendur í stigagangi, með stóra glugga í baksýn, og segir mér frá því að honum hafi alltaf þótt skrítið þegar myndir af yfirborði tunglsins hafi verið rúðustrikaðar, þannig að þær yrðu skiljanlegar. Þannig var ss hnitum rúðunnar þvingað upp á yfir borð tunglsins. (Mér fannst hann raunar óþarflega gildishlaðinn hér, en ég var fullur áhuga.) Þegar hann horfði á byggingar, þá átti hann alltaf jafn erfitt að sameina þær við fólkið sem í þeim var. Líkt og hann á átti erfitt með að sameina rúðurnar við myndir af tunglinu. Honum fannst að það væri hægt að líta á byggingar sem þrívíð gröf, líkt og rúðurnar sem lagðar eru á yfirborð tunglsins. Hann sagði að húsin væru í raun fullkomin áður en fólkið flyttist í þau. Þessar pælingar voru allaf voða snotrar í samhengi við fagurfræðilegar pælingar um arkítektúr þessarar ákveðnu menntastofnunar (en kannski grunsamlega smekklegar). Hugleiðingar þessa unga manns voru annars haganlegar og við hæfi, og þá sérstaklega af því að þær gáfu mér innblástur, og vegna þess að ég get gert þær betri. Hann var svona eins og góð tónlist. Mér er minnisstætt þegar hann sagði með rólegri og yfirvegaðri rödd sinni, frá því þegar hann sá leyndardóma líkamans afhjúpaða, í einum af þessum sölum, og að þá hafi hann gert sér grein fyrir að guð gæti ekki verið til. Já, það eru svona gullmolar sem maður finnur aðeins á BBC Learning.

En það voru þessir þættir á þessari sjónvarpstöð sem ráku hugsanir mínar af stað.

Mér varð ljóst hve fastur hugur minn er í hólfum skilgreininga. Eins og HÚS, VINNUSTAÐUR, HEIMILI, LÍF, EFNI, JÖRÐIN, ALHEIMURINN, HVERSDAGSLEGT, SKÓLI, FRAMTÍÐ, RÉTT, FALLEGT, DAGUR, MORGUN.. og svo endalaust áfram. Auðvitað veit ég að ég er gersamlega dofinn dag frá degi, eins og allir. Það er nóg að benda á allt fólkið sem fattar bara ekki hvað heimspeki er. Ef þú reynir að benda á spurningar um lífið og tilveruna, þá ypptir það bara öxlum, og spyr; af hverju ég sé að pæla þetta? Ég býst við að ég geti bara yppt öxlunum á móti og spurt; hvernig er annað hægt?

En það er á andartökunum sem e-ð snertir mann djúpt, sem maður vaknar af þessum doða, sem einkennir morgunmat og tannburstun fyrir svefninn. Það er á þessum andartökum þegar augu manns opnast, og maður áttar sig á því að maður er á lífi. Skyndilega eru öll hugtökin sem hólfa heiminn í huga manns, eins og herbergi í japönsku pappírshúsi, og skuggar bærast á veggjum. Það er á andartökum sem þessum sem maður rís á fætur og rífur niður hús úr pappír, heypur með stríðsöskrum í gegnum veggi úr pappír, tætir hann í þúsund stykki, brýtur ramma og undirstöður blekkingarinnar, eins og hinn kúgaði brýtur minnismerki kúgunar sinnar. Svo getur maður sest á rústirnar og horft í djúpbláan himininn alsettan stjörnum. (En nóg af röfli.)

Mér varð ljóst að á þessum andartökum sem skilningurinn fæst, er skilrúm á milli hugtaka, eða hugarhólfa, rofið. Á þeirri stundu sér maður tengingar. Samhengi allra hluta verður skýrara en áður. Það er þá þegar maður hefur á valdi sínu að átta sig á því að postulínið í vaskinum er hluti af alheimi, er efni eins og það sem myndar svartholið í miðju Vetrarbrautarinnar. Svartholið okkar! Að ég er einnig þátttakandi og hluti af þessu ferli. Hve ótæmandi stórt þetta allt er. Nú nákvæmlega á þessu andartaki er heimurinn á fullu. Svartholin eru á fullu. Óteljandi sólkerfi og vetrarbrautir eru NÚNA að þyrlast um alheiminn, ólýsanlegar hamfarir eru að gerast akkúrat núna, og ég er hluti af þessu ferli, ég er að gerast akkúrat núna. Já, það er miður að hve stutt þetta vald varir. Þessi skilningur þéttist eins og gufa yfir sjóðandi potti, en leysist svo upp fyrir augum manns, og skilur mann eftir í mennsku sinni og takmörkun. En minningin er skýr, að því leiti að tilfinningin ýtti hugsunum eins og jarðýta og skilur við þær í sköflum. Enn og aftur finnur maður að það er e-ð vert að velta fyrir sér. Ég man að sú þekking að ég er hluti af alheimi varð mér skyndilega ljós, eins og snerting við kertaloga gerir vissuna um hitan skýrari; nú er þekkingin aftur eins og kók sem hefur staðið of lengi.

Þessi samhengislausi texti er skrifaður til heiðurs stuttum andartökum mikils skilnings, sem breytast í minningar og þekkingu.

Kv.
VeryMuch