Hver er ástæðan fyrir því að í vísindum hrannast upp gamlar og úreltar hugmyndir. Hugmyndir sem hafa sannast að væru rangar og eiga í raun ekki rétt á sér nema að vera bara gamlar hugmyndir. En á sama tíma eru í bókum sem kallaðar eru trúarbækur (biblían og kóraninn) fjöldinn allur af órökstuddum “sannleika” og sögum sem eiga að hafa gerst en geta í raun ekki á nokkurn hátt hafa gerst. Hvað er það sem veldur því að trúarritin úreldast ekki?
Eigum við að erfa til komandi kynslóða þúsund ára gamlar bækur sem eru uppfullar af bulli, sögum og allskonar “sannleik” sem ekki nokkur maður getur komið með vísindaleg rök fyrir að hafi nokkurntíman gerst. Er ekki kominn tími til að yfirgefa þessar gömlu kenningar? Getum við horft framaní 8 ára óharðnaðan einstakling sem spyr hvort Nói hafi í raun smíðað örk og fyllt hana af öllum dýrum jarðar, og sagt henni að það sé sannleikur?
Er ekki kominn tími til að við vörpum gömlu bókunum á þjóðminjasafnið til þess að komandi kynslóðir geti einhverntíman losnað undan oki trúarbragða. Eru komandi kynslóðir ekki í raun mikið óhultari ef þær fara eftir eigin skynsemi og annara? Með þvi að afþakka trúarbrögð og taka upp kenningar sem vísindamenn út um allan heim eru að staðfesta á hverjum degi með rannsóknum værum við í raun að stíga fyrsta skrefið í átt til skynsamari heims.
Hægt væri að leggja niður kirkjur og senda presta í háskólann til að læra sálfræði, læknisfræði, stjórnmálafræði, vísindi og eða bara það sem þeir vilja. Síðan gætu þessir menn unnið frítt fyrir þann sem þeir vilja og aðstoðað fólk heima og að heiman án þess að blanda göldrum, hjátrú, galdraþulum eða lygi þar inní. Ríkið mundi borga fyrir þá laun og húsnæði (eins og það gerir í dag). Kirkjunum yrði breitt í samkomuhús og tónlistarhús sem hver og einn borgari gæti leigt sér til ýmissa borgaralegra athafna. Einnig gætu farið fram hvern sunnudag rökræður á vísindalegum nótum þar sem stjórnandi umræðna yrði prófessor eða einhver annar sérfræðingur um “þema” dagsins. Allir gætu tekið þátt í umræðunni og er ég viss um að það mundu skapast spennandi og fræðandi umræður (annað en það sem gerist í dag í kirkjum á sunnudögum).
Það er staðreynd að mannfólkið hefur mikla þörf fyrir trú og trúarbrögð. En er ekki kominn tími til að sætta sig við tapið og gefast upp. Skaðinn er skeður. Hlutirnir verða aldrei aftur eins og þeir voru á miðöldum þegar evrópa var undirlögð af ótta, hatri og fyrirlitningu og allir voru mjög trúaðir.
Margir þeir sem eru trúlausir lenda oft í því þegar þeir rökræða trúarbrögð við fólk að fólk endar á því að segja “ég hef nú bara mína barnatrú”. Ef þú ert einn af þeim hugsaðu þá um hvaða skilaboð við færum komandi kynslóðum með því að trúa blindandi á órökstuddar 1000 ára gamlar sögur sem einhvern heilagan sannleik.
Kveðja Gabbler hinn trúlausi.
“Það sem aldrei hefur gerst getur alltaf gerst aftur”