Mörgum er tíðrætt um lögmál hagkerfisins og ræða þá um þau eins og náttúrulögmál. Rétt er að fátt er jafn fyrirsjánlegt í heimi félagsvísinda og flæði fjármagns. En um leið er fátt jafn huglægt og gildi peninga. Tvær peysur, nánast því eins, en verðmunurinn getur verið tvöfaldur. Helsti munurinn er að önnur er merkjavara en hin ekki. Segjum að vinnustundir og efni í flíkurnar sé nánast það sama líka. Það sem er verið að kaupa umfram í dýrar flíkinni, er staða í þjóðfélaginu.
Það sem við verslum fyrir peninga eru gæði. Í fullkomnu kapítalísku samfélagi, eru öll gæði einungis föl fyrir peninga. Hvers konar gæði einstaklingar sækjast eftir og öðlast fer þá eftir skapgerð þeirra og peningaeign. Almenna reglan er þó sú að því meiri peningar, því meira valfrelsi og því meiri gæði.
Vestræn samfélög eru nálægt því að vera fullkomlega kapítalísk ef grant er skoðað. Sagt er að loftið sem við öndum að okkur sé ókeypis (enn sem komið er). Það er þó ekki svo. Í híbýlum okkar er loftið gæði sem kostar peninga og það umtalsverða, sé allt tekið með í reikninginn.
Ég sagði í upphafi að mörgum er tíðrætt um kapítalískt hagkerfi sem náttúrulögmál. En það er það auðvitað ekki, það er hrein mannasetning, uppfinning sem menn hafa búið til, þróað og skapað. Í sjálfu sér er jafnvel rangt að tala um það sem hagkerfi, því það er annað og meira. Það er stjórnkerfi fyrst og fremst. Og sennilega eitt árangursríkasta stjórnkerfi sem menn hafa búið til.
Í hreinu kapítalísku hagkerfi hafa öll gæði mannlífsins öðlast peningalegt verðgildi og þar með samanburðargildi. Ástæða ósigurs félagsfræðinnar sem drottningar félagsvísinda er líklega sú að félagsfræðingar hafa eftirlátið hagfræðingum að fjalla um peningaflæðið. Peningaflæðið er hins vegar lykill að nútímasamfélaginu.
Hagfræði nútímans snýst því um að aðlaga allt mannlífið að kapítalísku hagkerfi, því þannig virkar það best sem stjórnkerfi. Stýringarnar felast nánast eingöngu í því að hækka og lækka vexti. Stýra skattaprósentum og virðisaukaálögum og öðrum gjöldum sem ríkið getur lagt á til þess að hafa áhrif á peningalega hegðun borgarana. En með því að stýra peningalegri hegðun okkar er jafnframt verið að stýra því hvernig við hegðum okkur til að öðlast þau gæði sem okkur finnst mest um vert. Gæði sem gera lífið þess vert að lifa því.
M.