“Veröldin endar þegar ég hætti að hugsa”.
Hvað er raunverulegt?
Til að byrja á þessari grein er ágætt að velta upp spurningunni “hvað er
raunverulegt?” Þessari spurningu er hægt að skipta í tvennt:
Hvað er “raunverulegt”
og þá
“hvað” er raunverulegt.
Og án þess að svara get ég fullyrt að ég veit það ekki fyrir víst.
Þetta er ágætis byrjun.
Þrjú viðhorf á sama hlutinn.
Raunverulegan, venjulegan hlut er í raun hægt að horfa á á þrjá mismunandi
vegu. Það fyrsta er “hluturinn eins og hann er”, annað “hluturinn eins og ég
skynja hann” og síðan er “hluturinn í huga mér”.
Raunveruleika hlutarins getum við varla verið alveg viss um því við “skynjum”
hann. “Raunveruleiki” hlutarins fer í gegnum skynfærin 5. Við verðum að
skynja hann til að geta sullyrt um að hann “sé”.
Skynjun hlutarins fáum við í gegnum “raunveruleika” hans. Hann “er” þarna og
við höfum yfir að ráða fimm skynfærum til að verða hans vör. Ef við getum
“skynjað” hluti sem eru ekki raunverulegir getum við þá nokkurn tímann verið
viss um að hluturinn sé raunverulegur, þótt okkur virðist það?
Skynfærin geta líka blekkt okkur. Getum við þá nokkurn tímann treyst þeim?
Þessi tvö viðhorf renna því gjarnan saman í eitt.
Fyrir þriðja viðhorfið skiptir þessi óvissa þó ekki meginmáli, því þetta
viðhorf, eða “hið huglæga” fær allt sitt frá skynfærunum.
Ef litið er á sjálfan heiminn í þessu samhengi er í raun hægt að skipta honum
í tvennt: Öðru megin hvílir raunveruleikinn, eða skynheimurinn, hinum megin
er hið huglæga.
Hér eftir mun ég því nota orðið “raunverulegt” um hluti sem skynjaðir eru með
einhverju skynfæranna fimm, jafnframt því sem ég geri ráð fyrir að þeir séu
raunverulegir. Þetta er svona smá “quick fix” til að þetta gangi allt saman
upp. Síðan má að sjálfsögðu efast um þetta allt saman.
Þetta ætti að gefa ykkur smá hugmynd um það sem eftir kemur…
Örlítið um skynsemishyggju og raunhyggju.
Skynsemishyggjan segir okkur að við getum komist að nær öllu sem við viljum,
bara með því að hugsa. Með skynsemina eina að vopni getum við fundið út svar
við öllum lífsins spurningum.
Sem fulltrúa skynsemishyggju er hægt að nefna René Descartes.
Hann trúði á tilvist sálar sem væri sjálfstæð frá líkamanum. Líkaminn er eitt,
sálin allt annað, eitthvað æðra líkamanum sjálfum. Í sálinni er Guð. Því
fæðist hver og einn með ákveðna skynsemi. Guð býr í okkur öllum frá fæðingu.
Þar að auki er sálin ódauðleg, líkaminn ekki. Descartes efaðist að sama skapi
um allt sem skynfærin sögðu honum, því þau eru líkamlegs eðlis. Því geta þau
blekkt okkur.
Raunhyggjan: andstæða skynsemishyggju.
Ef barn fæðist með enga skynjun, mun það þá hugsa nokkurn skapaðan hlut?
Þanng hljómar spurning skoska heimspekingins David Hume. Og svo taldi hann
ekki vera. Hann var raunhyggjumaður út í ystu æsar. Það eina sem við höfum
eru skynfærin okkar. Þau skynja umhverfið eins og það er og svo ekki söguna
meir. Engin Guð og engin sál. Ef þessu barni yrði haldið á lífi í 18 ár myndi
það enn ekki hugsa neitt. Hvaðan í ósköpunum ætti sú hugsun annars að koma?
Allar okkar hugmyndir eru síðan orðnar til út frá hlutum sem við skynjum.
Þannig erum við háð skynfærunum um alla okkar vitneskju. Þannig verðum við að
treysta á þau, jafnvel þótt hugsast geti að þau séu að blekkja okkur.
Hume mótmælti einnig rökum Descartes um að Guð væri til. Descartes hélt því
fram að þar sem hann hefði hugmynd um “fullkomna veru” hlyti sú vera að vera
til. Og sú vera hlyti að vera Guð. Hume kom með þau mótrök að ef Descartes
hefði ekki átt hugmyndina að guðlegri veru þyrfti hún ekki að vera til. Og
hugmyndin að Guði gæti verið komin frá skynjuninni. Til dæmis sagði hann að
hugmynd Descatres að Guði líktist helst ströngum, réttlátum föður. Og er ekki
nóg til af slíkum fyrirmyndum í raunveruleikanum?
Ég mun síðar einnig taka fullkomnarhugtakið fyrir, hvers vegna við höfum
tilhneigingu til þess og hvers vegna ég álít það merkingarlaust.
Einskonar sameining skynsemihyggju og raunhyggju.
Nú kemur þýski heimspekingurinn Immanuel Kant til sögunnar. Kant er sammála
Hume um að öll okkar hugsun komi frá skynjuninni. En síðan víkur hann út af
sporinu. Kant heldur því fram að öll skynjun sé “geymd”. Þar af leiðandi
getum við hugsað um það sem við höfum skynjað, hvenær sem er. Og það sem meira
er: Öll okkar skynjum fer í gegnum hugsun okkar.
Heilinn sér sem sagt ekki bara um að safna upplýsingum um umhverfi okkar, hann
sér líka um að túlka þær. Þegar svo mikið magn af upplýsingum er búið að safna
saman í heilanum eins og raun ber vitni, er þá skynsemishyggja nokkuð svo
fjarstæðukennd lengur? Við getum komist að nær hverju sem er, með skynsemi
einni saman. Ekki vegna þess að guðlegar upplýsingar fæðast með okkur heldur
vegna gífurlegs skilnings á veröldinni. Þessi gífurlegi skilningur orðið til
eftir að hafa tekið inn hreint ótrúlegt magn “skynjunar-upplýsinga”.
Hinn huglægi hlutur: “a priori”-dótið.
Nú er að nefna nokkra eðlilega og hversdagslega hluti í hinum huglæga heimi.
Ólíkt hlutunum í raunverulega heiminum endist “a priori”-dót að eilífu. Það
stenst allar nútímakröfur um gæði auk þess að vera til staðar hvar og hvenær
sem er. Það ryðgar ekki, brotnar ekki og fúnar ekki. Heilu staflarnir af
þessari gæðavöru prýða hinn huglæga heim. En hvað er það?
Nú, áfram með Kant!
Þegar við sjáum, heyrum finnum lykt, bragð eða finnum fyrir raunverulegum
hlutum geymum við minningar um hlutina í huga okkar. Smám saman förum við að
þekkja þessa hluti. Með aukinni skynjun eykst skilningurinn, hugmyndin um
hlutinn byrjar að myndast. Þegar hluturinn hefur náð heilsteyptri mynd í huga
okkar er hann orðinn að huglægum hlut, hugmynd eða hugtaki. Þessa hluti
kallaði Kant “a priori”. A priori bókin mín er til dæmis búin til úr öllum
bókum sem ég hef skynjað á ævinni. Með þessari bók get ég þekkt aðrar bækur,
sagt “þetta er bók”, því hver ein og einasta bók býr yfir atriðum sem a priori
bókin mín hefur. Þannig get ég áttað mig á hvenær hlutur er “bók” þótt ég
hafi aldrei séð þessa tilteknu bók áður. A priori bókin er sko engin smá bók!
Einnig er hægt að eignast litla huglæga mynd af hvaða bók sem er. Á meðan hún
er til í minningunni er til eintak af henni í huglægu formi. Þannig vegna get
ég sagt: “Ég á tvö eintök af öllum bókunum mínum”.
Varast skal þó að rugla þessum bókum saman. Það er nefnilega helst til erfitt
að lesa huglægar bækur.
Þegar a priori hlutir eru skoðaðir má einnig sjá að við geymum ekki aðeins
heilsteypta mynd af hlutnum sjálfum, heldur einnig alla eiginleika hans.
Hugmyndin um “hest” kemur til dæmis með því að hestur er “loðinn”. Fleiri dýr
eru “loðin” og því um sameiginlegan eiginleika að ræða. Við lærum að þekkja
þessa eiginleika. Þetta gerir okkur meðal annars kleift að átta okkur a dýrum
sem við höfum aldrei séð áður.
Og með öllum þessum eiginleikum höfum við gríðarlegt safn af upplýsingum sem
nothæfar eru meðal annars í okkar eigin hugmyndir. Hugmyndir geta aldrei
myndast algjörlega óháð því sem við höfum skynjað. Það er þó alveg hreint
ótrúlegt hvað fólki getur dottið í hug, hæfilieki mannsins til að “tjasla”
saman formum, litum, jafnvel hugmyndum verður að teljast aðdáunarverður.
Smá innskot um tungumálið.
Tungumálið er stundum talið ein af stóru ástæðum fyrir því hversu fær við erum
hugsun. Ekki einungis gerir það okkur kleift að “læra” af öðru fólki, en það
er ákaflega hentugt einmitt til að skiptast á hugmyndum. Það hjálpar líka til
að skilja. Tungumálið er orðið svo samtvinnað meðvitund okkar að ómögulegt er
að hugsa sér okkur án þess. Hver einasti hlutur sem lifir í heila okkar er
táknanlegur með orðum.
Orðin hjálpa okkur að muna þessar hugmyndir og “fiska” þær upp úr meðvitundinni.
Ef ég hugsa um epli kemur orðið “epli” að góðum notum til að muna eftr því.
EN!
Gæti ekki verið heill hellingur af hlutum sem við umgöngumst, vitum af og höfum
upplýsingar um, án þess að til séu orð yfir þá? Það er kannski þess vegna sem
“undirmeðvitundin” er svona sterk í okkur. Það eru allar hugmyndir sem ekki er
hægt að ná upp í dagsljósið því okkur skortir orð til að hugsa um þær. Við
getum ekki gripið þessar hugmyndir því við skiljum þær ekki. Þær eru hluti af
huga okkar en ekki meðvitund. Sé mér litið á eina bókina mína og get ekki
varist þeirri hugsun að ég “viti” í raun miklu meira um hana en ég get komið
orðum að.
En nú held ég áfram þar sem frá var horfið.
Hugtök og hugmyndir.
Ekki eiga allir huglægir hlutir sér samsvörun í raunveruleikanum. Við getum
kallað þessi hugtök “óhlutstæð”. Þessi hugtök eru okkur stundum svo sjálfsögð
og raunveruleg að vonlaust virðist að efast um tilvist þeirra, þrátt fyrir að
þau séu ekki “raunverulega” til staðar“. Tími er kannski einna helst þessara
hugtaka, en hann er þó varhugaverður að mörgu leyti og því mun ég taka hann
sérstaklega fyrir.
Óhlutstæðum hugtökum er að sjálfsögðu enn betur hægt að skipta niður, þau eru
mun margbreytilegri en venjulegir ”a priori“ hlutir. Hvað með til dæmis hluti
eins og tilfinningar? Tilfinningar eru hugarástönd og því jafnraunveruleg
fyrir okkur eins og hvað annað, ekki satt?
Eða ”sannleikur“, ”vísindi“, ”tilgangur“ –allt huglægt, ekki satt?
”Hlutir“ búa líka yfir óhlutstæðum eiginleikum, sbr. fegurð. Fegurð er að
sjálfsögðu bara huglægt mat hvers og eins. Hún er því ekki eiginleiki hlutarins
heldur aðeins eiginleiki okkar sjálfs.
Varast skal að reyna að koma öðrum eiginleikum eins og ”litum“ undir sama hatt,
litir eru bein form skynjunar og því ekki óhlutstæðir.
Með því að velta vöngum yfir þessu skiptast hlutir, hugtök og jafnframt orð á
milli hlutstæðra og óhlutstæðra. Við getum með smá rökhugsun komist að raun um
hvað á heima hvar. Það er ekki til neins að reyna að flokka hvert einasta
hugtak, nóg er að skilja muninn á þeim og reyna að átta sig á hvað á heima
hvar.
Hinn huglægi heimur er farinn að fá skýra mynd.
Tíminn.
Til að reyna að skýra óhutstæð hugtök aðeins betur ætla ég að fytja upp á
”tímanum“. En til að þetta fari ekki úr böndunum þarf að gera smá varúðar-
ráðstafanir…
Ég ætla að byrja á að kljúfa tímann. Því svo virðist sem ekki sé alltaf verið
að tala um það sama þegar talað er um tíma.
Annar hluti hans er tengdur eðlisfræðinni. Hann er hlutstæður eiginleiki, jafn
raunverulegur og hluturinn sjálfur. Þetta er sá tími sem afstæðiskenningin
reynir að útsýra. Hann er að sjálfsögðu afstæður, samkvæmt eðlisfræðinni er
ekki til neinn algildur tími. Ég mun ekki fjalla mikið um þennan hluta hér, ég
er ekki að fjalla um afstæðiskenninguna.
Þessi tími er EKKI hluti af meðvitund okkar. Hann hefur alltaf verið til en
ekki var raunverulega vitað af honum fyrr en Einstein kom til sögunnar. Og enn
þarf að taka fram að ekki er SANNAÐ að hann sé til. Afstæðiskenningin er enn
”kenning“, þó hún sé mjög líkleg til að standast.
Hinn hluti tímans er tengdur skynjun okkar sjálf og er beint framhald af
hugmyndum Kants, sem ég minntist á hér að ofan. Þessi ”tími“ verður til því
við erum fær um að muna hvað hefur gerst. Skilningur okkar á samhengi orsakar
og afleiðingar er grundvöllur þess að hafa tímaskyn, við skiljum muninn á því
sem gerðist ”áðan“ og því sem gerist núna. Vegna sífelldra afleiðinga og
orsaka fáum við þá hugmynd að heimurinn sé ”líðandi“ og þarafleiðandi
grundvallast allt á ”tíma“. Samkvæmt þessu er rökrétt að álykta að tíminn sé
”algildur“. Sem hann að vissu leyti er. Þessi ”skyntími“ er algildur í huga
hvers og eins. Sem leiðir af sér þá ályktun að þannig sé með raunveruleikann
líka, algildur tími lætur veröldina ganga.
En rauntíminn er afstæður! Það er enginn einn algildur ”tími“. Hver hlutur
býr yfir sínum eigin tíma og því getur jafnvel orðið ósamræmi milli þeirra!
Það myndar einnig ósamræmi milli ”rauntíma“ og ”skyntíma“.
Vegna þessa ósamræmis getum við séð að þessir tveir, ”rauntími“ og ”skyntími“,
eru hreint ekki einn hinn sami, þótt sá síðari hljóti að lúta lögmálum hins
fyrri.
Fullkomnun er merkingarlaus!
Hvað á fólk við þegar það talar um ”fullkomnun“? Hvað er ”fullkomið“? Hvernig
getur hlutur í sjálfum sér verið ”fullkominn“?
Við skulum taka einföldu leiðina, byrja á dæmi, vinna okkur síðan upp út frá
því. Ég ætla því að reyna að útskýra ”fullkominn banana“.
Svo, hvað hefur hinn fullkomni banani og hvað ekki?
Hann er ekki of súr. Hann er ekki of lítill, of stór eða of grænn. Ekki
óþroskaður, ekki ofþroskaður, ekki skemmdur. Er einhver banani sem hefur alla
þessa eiginleika? Af hverju þarf hann ÞESSA eiginleika?
Þegar ég skoða banana er ég ekki aðeins fær um að dæma um hversu marga
”fullkomnunar“-eiginleika hann hefur, heldur einnig um það HVAÐA eiginleika
hann þarf. Hvaðan hef ég þetta? Er þetta einhver heilbrigð skynsemi sem hver
og einn fæðist með? Á þeim grunnforsendum sem ég styð þessa grein mun svo EKKI
vera. Svo þessi hæfileiki HLÝTUR að vera kominn upphaflega frá skynjuninni.
Ef ég sæi banana í fyrsta sinn og sá banani væri skemmdur, myndi ég þá ekki
halda að allir bananar væru svona, ”skemmdir“. Líklega myndi ég skipta um
skoðun þegar ég sæi annan banana, sem væri nokkurnveginn heill. Smám saman sæi
ég fleiri þannig banana, hugmyndin um skemmda bananann viki þá fyrir öðrum
banönum, líklega vegna þess hvernig ”flestir“ bananar eru. Þannig liti
”a priori“ bananinn út. Hefði alla þá eiginleika sem ”flestir“ bananar hafa.
”A priori“ bananinn er fullkominn.
Hvers vegna?
Hann er MÍN hugmynd að fullkomnun. ÞANNIG get ÉG skilgreint fullkominn banana.
Hann hefur alla þá eiginleika sem flestir bananar hafa, ef banani er öðruvísi
heyrir þessi munur til undantekninga. Flestir bananar hafa einhverjar
undantekningar, þess vegna álykta ég að fæstir séu þeir ”fullkomnir“.
En hvað ef allir bananar sem ég hefði séð væru skemmdir? Þá myndi ég líklega
álykta að það væri einmitt eiginleiki fullkomna bananans. Svo sæi ég banana
sem er gegnheill. Hann er ”öðruvísi“ en ”a priori“ bananinn minn.
Þarafleiðandi er hann EKKI fullkominn.
En þetta skapar ósamræmi. ”Fullkomnun“ bananans virðist ekki ná lengra en
hugsun mín nær og þar að auki er hún ekki í samræmi við hugmyndir annarra um
fullkominn banana. Á endanum er fullkomnun ekkert nema huglægt mat, svipað
fegurð. Í raunsæislegum skilningi hefur það enga merkingu. Ekki heldur
rökfræðilegum.
Þess vegna vil ég endanlega losa mig við það, það hefur aldrei valdið neinu
öðru en misskilningi.
Hinn huglægi heimur vs raunveruleikinn.
Nú þetta vonandi allt farið að fá skýra mynd. Heiminum er í raun skipt í
tvennt: huglægur og raunverulegur. Það sem hvílir í huglæga heiminum eru
hugtök, hugmyndir og minningar. Þar er í raun allt sem við byggjum hugsun
okkar á. Raunverulegi heimurinn er undirstaða hugsana því er sá huglægi
fullkomlega háður honum.
Í raunheiminum eru raunverulegir hlutir, allar hgumyndir, gildismöt og álit
eru þar algjörlega verðlaus.
Nú skulum við íhuga hvað gerist ef annarra þessa heima VANTAR.
Mun heimurinn halda áfram ef aðeins raunveruleikinn er eftir. Það er engin
leið að vita það: Veröldin endar þegar ég hætti að hugsa. Að minnsta kosti
fyrir mig. Þá skiptir það mig engu máli hvort einhver raunveruleiki er til
eður ei, ÉG er ekki hér til að taka eftir því. Svo raunheimurinn getur varla
verið til án hins huglæga þar okkar eigin tilvist er háð hugsunum okkar.
Hvað ef raunveruleikann vantaði? Hvernig getum við jafnvel verið viss um að
það SÉ raunveruleiki? Heilinn ætti alveg að vera fær um að skapa upplýsingar
fyrir skynfærin. Er veröldin bara ein samfelld ofskynjun? Það getur varla
verið. Hvernig sem á það er litið, því ef ég hugsa hlýtur þessi hugsun að
koma einhvers staðar. Það er þó ekki þar með sagt að þessi ”hlutbundni“
veruleiki þurfi að vera til staðar. En hvað um það, raunveruleikinn hlýtur að
vera til í einhverju formi. Hann er líka NAUÐSYNLEGUR huglæga heiminum.
Svo niðustaða mín er sú að hvorug þessara veralda geti á hinnar verið, hvor um
sig á tilvist sína að þakka hinni.
Þessi ályktun er þó byggð á skynsemi. Ég gæti því vel hafa haft rangt fyrir
mér. ”Þetta HLÝTUR að vera svona“, veina ég og reyni a verja mig.
En hvað með það? Jörðin ”hlaut“ að vera flöt, þangað til hún hætti að vera
það. Ég verð því að vera viðbúinn því að ekkert af þessu reynist rétt, en
á meðan læt ég það standa.
Staðreyndir, það sem (ekki) er og gerist.
Jörðin er flöt.
Það er rétt vegna þess að hún virðist vera það. A priori ”jörðin“ er flöt.
Síðan varð hún hnöttótt. Málið var rannsakað, fundið var út að raunverulega er
hún ekki flöt heldur hnöttótt. Hugmynd ”jörð“ tók stakkaskiptum á meðan
jörðin sjálf breyttist ekki neitt.
Þetta gerist iðulega, jafnvel oftar en þið haldið. Það er nefnilega yfirleitt
nokkuð ósamræmi milli raunverulega heimsins og hins huglæga. Svo, þegar það
gerist, hvað er þá til ráða? Sem betur fer er auðvelt að laga svona skekkjur,
sbr: þegar jörðin varð hnöttótt þurfti aðeins að breyta hugmyndinni að ”jörð“.
Eina vandamálið sem því fylgdi var að fólk neitaði að trúa því.
Hugmynd verður að staðreynd þegar hún samræmist veruleikanum.
Á þessu byggjast einmitt vísindin. Lagfæra þarf hugmyndir. Breyta, búa til
nýjar, losna við gamlar. Allt svo þær samræmist veruleikanum. Vísindin sjálf
eru þó eingöngu huglæg. Lögmál Newtons verða til dæmis aldrei neitt annað en
hugmyndir. Hugmyndir sem lýsa raunveruleikanum.
Smá eftirmáli
Jæja, ég fer nú að hætta þessu. Ég vek þó upp eftir nokkrar truflandi
spurningar fyrir ykkur til að hugsa um. Spurningar sem kannski hefðu bara átt
að sofa.
Áttu heimstyrjaldirnar sér örugglega stað? Ertu ”alveg“ viss?
Hvað myndi gerast ef raunveruleikinn ”hyrfi“ allt í einu?
VEISTU nokkurn skapaðan hlut?
Og að lokum: Hvað er ”quality“? Hvorum heiminum tilheyrir það?
Svo verð ég nú að minnast á bókina sem ég las og var líksat til kveikjan að
þessu: ”Zen and the art of motocycle maintenance" eftir Robert M. Pirsig.
Ég mæli eindregið með henni við hvern sem er.