Í framhaldi af könnun þar sem var spurt hvort hægt sé að elska óvin sinn og umræða sem spannst um það efni á korkinum.
Fyrir mér snýst spurningin um það hvort hatur sé alltaf gagnkvæmt. Hata ég alltaf þann sem hatar mig og hatar alltaf sá sem ég hata mig?
Það er alveg ljóst að ég get ekki elskað þann sem ég hata, það er mótsögn og gengur ekki tilfinningalega upp. Reyndar er til eitthvað sem nefnist hatar/ástarsamband, en það virðist frekast fela í sér aðrar tilfinningar eins og þörf fyrir viðurkenningu, ástar okkar á þeim sem hafnar okkur og sýnir okkur óréttlæti. Hatar- og ástarsamband virðist því frekar eiga við um seinna dæmið, þegar við elskum þann sem hatar okkur.
Spurningin er því getum við elskað þann sem hatar okkur? Mín skoðun er að við getum það. Hatar/ástarsamband er öfgafullt dæmi um slíkt, reyndar samband sem virðist vera að snúast yfir í gagnkvæmt haturssamband.
En hvað veldur því að sumir geta elskað þann sem hatar þau? Ég er þeirrar skoðunar að það sé viss tegund af öryggi, vissan um að sá sem hatar geti ekki gert þeim neitt illt. Í slíkum tilvikum þurfum við ekkert að óttast og getum sýnt hatrinu umburðarlyndi og jafnvel elskað þann sem hatar okkur. Ástæðan er sú að við sjáum grilla í persónuna sem hatar og sjáum að hatrið er hlutur fyrir utan hana sjálfa.
Spurningin núna er því hvað er hatur? Í orðabók Websters á vefnum er hatur skilgreint sem “intense hostility and aversion usually deriving from fear, anger, or sense of injury”. Að rót haturs geti verið ótti, reiði eða tilfinning fyrir að ógn er sjálfsagt rétt skilgreining. Til að sefa hatur eigum við því að skoða fyrst þessar tilfinningar því það er auðveldara að hafa stjórn á þeim heldur en hatrinu eða hvað?
Líklega komust við ekki hjá því að fara í gegnum lífið án þess að finna til þessara tilfinninga í garð annarra, en til að sigrast á þeim þá held ég að það þurfi tvennt óttaleysi (æðruleysi) og kærleika. Sennilega verður að bæta þriðja atriðinu við, falsleysi gagnvart þeim sem leggja hatur á okkur því sá sem hatar okkur, óttast okkur. Verst að sumir sækjast eftir eftir því að aðrir óttast þá, telja að með því hafa þeir öðlast vald yfir öðrum. Dæmi um slíkt er því miður alltaf of algengt úr heimi stjórnmálanna, eins og uppákomur síðustu daga og vikna sína. Ógnarstjórnandinn (týraninn) er því miður enn við lýði í lýðræðisríkum nútímans.
M.