Veriði sælir, kæru áhugaheimspekingar og öngþveitisspakvitringar! Hvað syngur? Erum við í einhverri lægð? Er ekki okkar að leiða huga.is, í hið minnsta að nafninu til; hugleiða!?

Reyndar ætti ég nú bara að kunna mig og halda kjafti, því ekki hef ég lagt meira að mörkum en neinn annar. En ég hef nú alltaf lagt “mitt að mörkum” svo mikið get ég sagt, held ég. Nóg um leiðindarþras! finnum okkur eitthvað að bardúsa.

Fyrst langar mig að taka fyrir félagsleg samskipti; hugmyndaleg viðskipti. Hvernig breiðast hugmyndir út um allar trissur? Væri ekki hægt að líkja því við vírus, nema hvað: ótalmargir sækjast eftir sem fjölbreyttustum og flestum vírusum og því fleiri vírusar, því fleiri vandamál og efasemdir.
Þú gerist kannski fastakúnni hjá einum framleiðanda, og finnst hann langtum bestur, en dælt er heima hvað, og því víðförlari sem þú að lokum gerist því erfiðara er að taka persónulega afstöðu til huglægra gilda. Það gerðist einmitt ekki fyrir svo löngu síðan að ég fann fyrir þessu sjálfur. Ég hafði alltaf verið sannfærður um réttmæti minnar eigin skoðunnar um listir og viðfang og gagrýni þeirra o.s.fr. En neinei, ég stóð á gati þegar ég las, agndofa, árás á mínar hugmyndir, mig minnir að þeir hafi kallað það gagrýna skynsemishyggju í listum; en það skiptir ekki máli.

Nú finnst mér yfirleitt bara best að halda kjafti, eða segja eitthvað annaðhvort barnslega einfalt eða óskiljanlega flókið. Svo engin stríð verði háð í hausnum á mér. En kannski er það bara betra, þ.e. að freista gæfunnar úti á vígvellinum; deyða og deyja svo með sæmd! Fari sæmdin í hoppandi hærusekk!

Oft er talað um að kunna á mannleg samskipti, en ég spyr: er það fræðilegur möguleiki að kunna á mannleg samskipti? Ég held ekki, þá aðalega vegna þess að við erum alltaf, stöðugt og stanslaust að læra meira og meira um það hvernig við viljum haga okkur. Auðvitað er ég í reynd bara að tala um þessa hefðbundu félagsmótun, hún er til staðar allt okkar líf. En við byrjum einsog óskrifað blað; tabula rasa, eða hvað? Vendipunkturinn er að ómögulegt er að læra eitthvað sem maður kann, þá væriru ekki að læra, og því er ómögulegt að “kunna” á mannleg samskipti, held ég. Nú gerði ég mér grein fyrir því að með þessari grein hætti ég mér útá blóðugt orrustusvæðið. Þar sem enginn þorir að tala við einn né neinn, því þeir kunna það ekki! hvernig geta þeir þá lært, greyin atarna?