Ég stend ekki á vegamótum. Ég stend á miðri umferðargötu, rétt hjá vegamótum. Allt í kringum mig er fólk sem hleypur örvæntingarfullt í átt að vegamótunum í von um að beygja inn á réttan veg. Aðrir reyna að flýja í öfuga átt en geta ekkert að því gert að togast í átt að vegamótunum. Ég stend kyrr og horfi undrandi á.
Eins og þú, lesandi góður, hefur líklega nú þegar áttað þig á eru vegamótin myndlíking. Þau eru skilin milli æskunnar og fullorðinsáranna og undanfarnar vikur og mánuði hafa þau verið mér mjög hugleikin. Engan skyldi undra þó eg hugsi mikið um þau. Aðstæðurnar í lífi mínu bjóða einfaldlega upp á það. Brátt lýk ég menntaskóla, ég nálgast þrítugsaldurinn, jafnaldrar mínir eru farnir að festa ráð sitt og spurninguna „hvað ætlarðu svo að gera eftir menntaskóla?“ heyri ég að meðaltali einu sinni á dag. Allt eru þetta merki um að vaxa úr grasi.
Fyrir nokkrum vikum tók ég saman lista yfir alla þá þætti sem benda til þess að ég sé að fullorðnast, og í sannleika sagt sortnaði mér fyrir augunum. Ég horfði á listann og sá fyrir mér að æska mín væri öll. Ég mátti kveðja leikvellina, prakkarastrikin og gleðina en í staðinn beið mín grámóskuleg framtíð full af kaffidrykkju, barneignum, jakkafötum, ábyrgð og áhyggjum. Ég hef alltaf verið óákveðinn um framtíð mína en þarna staldraði ég við í stutta stund og hugsaði málin. Eftir miklar vangaveltur um framhaldsnám, starfsferil, fjölskyldu og lífið almennt komst ég að niðurstöðu. Það var í raun ekki merkileg niðurstaða, og í raun engin niðurstaða, því hún fólst ekki í endanlegum lausnum heldur í þremur spurningum: Hvað er æskan? Er æskan endilega betri en fullorðinsárin? Hvenær endar æskan?
Því miður get ég ekki svarað þessum spurningum. Þessar spurningar sverja sig í ætt við vangaveltur um tilgang lífsins, eðli ástarinnar, sjálfsvitundina og fleira í þeim dúr sem heimspekingar allra alda hafa óþreyjufullir reynt að svara en hafa engum árangri náð. En þó ég gæti ekki svarað þeim vöktu þær mig til umhugsunar. Ég áttaði mig á því að ég stend í raun og veru ekki á vegamótum.
Hvað er æskan? Til að svara þessari spurningu spurði ég annað fólk. Flestir, ef ekki allir, svöruðu mér einhvern veginn á þá leið að æskan væru þau ár sem maður er barn eða ungmenni. Mér fannst lítið til þessa svars koma, lagðist undir feld og bjó til mína eigin skilgreiningu: Æskan er það að vilja leika sér. Æskan er það að taka hlutina ekki of alvarlega og það að leyfa sér að vera hamingjusamur, saklaus og sáttur við það einfalda og barnslega í lífinu.
Er æskan endilega betri en fullorðinsárin? Þetta er að sjálfsögðu persónulegt mat. Ég hef sjálfur ekki upplifað nema brot af fullorðinsárum mínum og mér hefur hingað til fundist það ágætt. Stærsti partur af sálu minni myndi ekki vilja verða aftur tíu ára og þurfa að lifa við minni skilning á heiminum og meiri takmarkanir, en það þýðir þó ekki að ég þrái ekki æskuna. Æskan kann að virðast einhvers konar tákn um þroskaleysi en fyrir mér þarf það ekki að vera. Þvert á móti finnst mér það tákn um þroska að vera móttækilegur fyrir æskunni alla ævina. Fullorðið fólk verður vissulega að geta tekist á við alvarleg mál og hafa áhyggjur af öllu mögulegu til þess að lífið gangi sinn vanagang, en þó verða leikgleðin, áhyggjuleysið og hamingjan einnig að fá að njóta sín. Að finna jafnvægið þar á milli er leiðin til velgengni og tákn um þroska.
Hvenær endar æskan? Ef við göngum út frá skilgreininu almennings (þ.e. æskan eru fyrri ár ævinnar) lendum við í vandræðum. Aldur er nefnilega teygjanlegt hugtak og æskan er illa skilgreindur hluti af ævi hvers manns. Þannig er æskan illa skilgreint hugtak innan annars teygjanlegs hugtaks. Hugsa sér ónákvæmni! Í fljótu bragði virðist sem svo að slík ónákvæmni sé af hinu slæma. Við fáum aldrei neinar haldbærar niðurstöður úr ónákvæmum mælingum. Ég sé hins vegar sóknarfæri í ónákvæmninni. Þar sem mörk æskunnar eru svo ónákvæm, gefst hverjum og einum tækifæri á að ráða því hvar æsku hans lýkur, og ef æskan er eftirsóknarverð, hljóta það að teljast góðar fréttir. Ef við styðjumst við mína skilgreiningu er dæmið enn einfaldara. Þá er það alltaf hverjum og einum í sjálfsvald sett að halda í æskuna.
Líf mitt mun ekki taka hamskiptum þegar ég fæ hvítu húfuna í júní á næsta ári. Ég held áfram að vera Arnór. Ég veit hvorki hvar ég verð eftir ár, né hvað ég ætla mér að gera. Fyrir mér er þetta ekki spurning um að lenda á vegamótum og þurfa að velja nýja braut. Fyrir mér er þetta spurning um að halda áfram að fullorðnast jafnt og þétt án þess þó að sleppa alveg taki á æskunni. Ég held áfram að klífa sama fjall og ég hef klifið alla ævina. Ég mun aldrei ná toppnum en útsýnið verður stöðugt betra, svo lengi sem ég þori að líta upp frá jörðinni og horfa yfir dalinn.
*Titillinn er vísun í ljóð eftir Helga Konráðsson.