Sendi inn þessa grein í framhaldi af könnuninni sem spyr: Getur einn maður verið öðrum æðri? Svarmöguleikar eru tveir, “já” eða “nei”.
Fyrst var ég þeirrar skoðunar að könnunin væri gölluð að það vantaði einn möguleika til viðbótar, þ.e. “á sumum sviðum”. En áttaði mig svo á að það gengi ekki upp því meðaltal eða summa “sumra sviða” gerði það að verkum að menn gætu verið hver öðrum æðri. Þannig að einn er lægstur og einn er æðstur. Könnunin er því rétt fram sett. Afstaðan til spurningarinnar “getur einn maður verið öðrum æðri?” er já/nei afstaða. Mín afstaða er nei, einn getur ekki verið öðrum æðri, og þá um leið er engin öðrum óæðri.
Að meta hvort einhver sé öðrum æðri er háð mælistikunni sem við notum. Þetta er því fullkomlega afstætt og háð gildismati hvers og eins. Það er ekki til neinn algildur dómur eða mælikvarði sem getur metið hvort einhver sé öðrum æðri, allir slíkir dómar eru háðir gildismati okkar, persónulegu eða menningarlegu.
Því verður að álykta að þeir sem svara spurningunni játandi geri það samkvæmt eigin gildismati að eitthvað sé æðra eða óæðra í fari manna. Í þeirra hugarheimi er það rétt og satt og sjálfsagt ekkert við það að athuga, svo framarlega sem það skaðar ekki aðra. Mesta hættan er ef við förum að skilgreina einhverja sem óæðri. Með því erum við komin út á hálan ís.
Frá algildu sjónarhorni held ég að við verðum að svara spurningunni neitandi. Það er ekki til neitt æðra eða óæðra annað en það sem mannfélagið dæmir svo og það getur verið breytilegt á milli tímabila. Það sem getur verið æðra á einum tíma getur verið óæðra á öðrum. Það sem getur verið æðra í einu samfélagi getur verið óæðra í öðru.