Endurskoðun gilda Fyrir þá sem ekki vita þá er hér kennslubókarútskýring á hugtakinu ‘gildi’:

„Gildi eru almennar hugmyndir um hvað teljist ‘rétt’. Þau má skilgreina sem sameiginlegar hugmyndir um hvað sé gott, rétt og æskilegt í viðkomandi hóp. Þessar hugmyndir eða gildi skapa verðmætamat okkar eða gildismat. [...] Dæmi um gildi er hjúskapartryggð [...]. Einnig má nefna heiðarleika og að vera góður við börn og dýr sem dæmi um æskilega hegðun.” 1

Flest gildi sem við þekkjum eru löngu komin fram, t.d. í trúarritum eins og boðorðin í Biblíunni og Kóraninum.

Mig langaði koma af stað umræðu um hvernig og hvort það sé yfirleitt hægt að skipta út gildum í samfélagi fyrir önnur.
Ef til er raunhæf lausn væri hún tilvalin til að losa græðgina úr gildum okkar menningar og koma fyrir í staðinn e.t.v. kærleik og nægjusemi. Þannig væri mögulega hægt að fyrirbyggja kreppu í framtíðinni og koma á betra samfélagi.

Spurningin er því svohljóðandi:
Hvernig getum við fengið fólk til að fylgja ákveðnum gildum? Hvernig getum við breytt óskráðu reglunum, þ.e. siðferðarreglunum sem fólk fylgir?

Nokkrar brainstorm hugmyndir frá höfundi: Auglýsingaherferðir gegn slæmum siðum, festa gildi í lög (siðferðislög), kenna gildi sem hluta af grunnskóla eða framhaldsnámi (í stað þess að hafa það bara í leikskóla).
Engar þessar hugmyndir eru endanlegar eða algildar lausnir. Vonandi hafið þið notendur Huga betri hugmyndir.

Takk fyrir mig. Kveðja, Melur


Heimildir:
1: Björn Bergsson, Nína Rós Ísberg, Stefán Karlsson. 2008: Kemur félagsfræðin mér við? Iðnú, Reykjavík.
Mynd sótt þann 28. des, 2008 af slóðinni: http://www.irvinehousingblog.com/wp-content/uploads/2007/06/greed.jpg