Jæja… nú kom handklæði sem vekur upp gamla efasemdadrauga:

Þess er rétt að geta að við rökfærslu mína hafna ég hverri stoð, sem reisa mætti á hugmynd um æðra réttlæti, óháð allri nytsemi. Ég tel nytsemina grundvöll alls siðferðis, hinn endanlega mælikvarða góðs og ills. En þar á ég við nytsemi í víðustu merkingu, grundvallaða á varanlegum hagsmunum mannsins á þroskabraut hans.
John Stuart Mill (1806-1873), úr bókinni Frelsið

Ég hef ávallt efast um gildi nytjastefnunnar, mér hefur yfirleitt fundist hún byggð á tómum orðum sem er frekar í ætt við óskhyggju en skynsamlega heimspeki.

Til þess að hafa tengingu við heimspekisöguna, þá var nytjastefna upphaflega hugarburður J. Benthams og James Mill sem var faðir John Stuart Mills sem, að sjálfsögðu, hefur verið nefndur helsti fulltrúi þessarar stefnu, en nóg um það.

Nytjastefna gengur að mestu leyti útá það að sú breytni sem í för með sér hefur sem mestu hamingjuna og sem minnstu þjáninguna fyrir sem flesta, teljist til réttrar breytni.

Þetta hljómar fallega, en á þetta sér einhverja stoð í raunveruleikanum? Auðvitað er hægt að tala hér um einhvern sértækan veruleika, en ef hann er ekki til staðar?

Sjáðu til… hver á að ákveða hvenær eitthvað leiðir af sér hamingju og hvenær ekki, hver á að ákveða hvenær tiltekinn hlutur hættir eða hættir ekki að hafa afleiðingar, þetta eru hlutir sem eru ómannlegir. Það er fullkomlega ómögulegt að nokkur maður eða hópur af mönnum getir ákveðið þetta með fullri vissu.

En hverjir eru það sem taka að sér þetta ómannlega starf? Ráðamenn þjóða, og pælið í hve auðvelt er að réttlæta ógeðfelldustu aðgerðir með nytjastefnuna að vopni: hversvegna drepum við ekki bara alla sem eru komnir yfir sjötugt og lifa á ríkinu, þeir eru byrði fyrir flesta. Þetta fólk er hætt að taka þátt í samfélaginu og gera ekkert annað en að hækka skatta. Svo er ég nokkuð viss um að auðvelt sé að réttlæta hluti einsog til dæmis helförina með nytjastefnunni: ég meina hver ákveður hverjir eru partur af þessum flestum sem á að láta líða vel? Hitler tókst að láta sem flesta verða hamingjusama, hann losaði flesta við pláguna sem gyðingar áttu að vera og var því að breyta rétt.

Þetta er nú kannski svolítið frá efni handklæðisins en þar sem Mill segir: “Ég tel nytsemina grundvöll alls siðferðis” tel ég hann vera að fara með fleipur. Með þessa forsendu að vopni er neflilega hægt að draga svo hættulegar ályktanir, svo ég tel siðfræðin ætti að íhuga að byggja nýjan grunn til uppbyggingar, en ég hef ekki glóru hvernig hann ætti að vera. Þetta þarf ekki að vera svona, en ég er ekki að segja að þetta ÞURFI að vera einhvernveginn öðruvísi:)