Bandaríski heimspekingurinn Francis Fukuyama olli nokkru fjaðrafoki árið 1992 þegar hann sendi frá sér bókina The End of History and the Last Man. Þar reyndi hann að færa rök fyrir því að með falli Berlínarmúrsins og hruni Sovétríkjanna væri sagan á enda. Fukuyama heldur fast í hina díalektísku arfleið Hegels, einkum túlkun rússans Alexandre Kojève en hann hafði áður haldið fram að með frönsku byltingunni hafði saga hugmyndafræðinnar endað. Því væri engin þörf á hugmyndafræðilegri baráttu, hugsjónir baráttumannana voru holdgerving heimsanda Hegels sem knýr söguna ávallt áfram í betri og fullkomnari form, bætir alltaf við sig meiri og meiri þekkingu og ekkert glatast í ferlinu. Þetta var lokabarátta hugmyndafræðinnar. Þessi hugmynd getur þó tæpast staðist í ljósi risi marxismans og Sóvétríkjanna á 19. og 20. öld og því hefur hún verið afskrifuð að miklu leyti. Þetta heimfærir Fukuyama því upp á samtíma sinn og heldur fram að með endalokum kalda stríðsins við lok 20. aldar séu hugmyndafræðileg átök á enda og frjálslynt lýðræði hafi orðið ofan á. Því er hinni díalektísku söguframvindu í skilningi Hegels lokið og útkoman er orðin ljós, frjálslynt lýðræðislegt stjórnarfar (liberal democracy) er hið æðsta stjórnarform. Hann lét þessi orð falla þegar hinum vestræna heimi var orðið fullljóst að Sóvétríkin voru komin á sitt endaskeið: „What we may be witnessing is not just the end of the Cold War, or the passing of a particular period of post-war history, but the end of history as such… That is, the end point of mankind's ideological evolution and the universalization of Western liberal democracy as the final form of human government“
Menn hafa keppst við að rífa í sig þessi rök Fukuyamas þótt flestir séu sammála um að hugmyndir hans séu mikilvægar fyrir samtímann. Einkum tvennt grefur mjög undan honum. Í fyrsta lagi tilheyrir hann flokki nýíhaldsmanna (neoconservatives) og er því í sama flokki og aðrir fylgjendur þýska heimspekingsins Leo Strauss, nefnilega leiðtogar hins vestræna heims (George W. Bush, Donald Rumsfeld, Dick Cheney o.fl). Margir hafa viljað afskrifa hann á þeim forsendum og segja að ekkert gott geti komið frá þeim bæ í ljósi umdeildra aðgerða þeirra á alþjóðavettvangi og heima fyrir. Í öðru lagi þá lyktar kenning hans mjög af réttlætingu á yfirburðastöðu Bandaríkjanna á alþjóðvettvangi og hafa margir túlkað hann sem einhvers konar verndara hagsmuna Bandaríkjanna og harmleikjanna sem þau hafa skapað. Ég vill þó forðast að falla í þessa gryfju. Hugmyndir hans ætti frekar að lesa á sínum eigin forsendum, þær eiga að tala fyrir sig sjálfar.
Það sem blasir þó strax við eru ýmsir gallar. Einkum vandamál sem til staðar eru í vestrænum, lýðræðislegum samfélögum. Til dæmis er enn við lýði mikil fátækt, glæpir, umhverfisspjöll o.fl. Því getur varla núverandi stjórnskipulag verið það besta sem kostur er á, það hlýtur að vera ennþá að þróast þar sem þessi vandamál hafa ekki enn verið leyst. En þetta gerir Fukuyama sér fullkomna grein fyrir. Hann bendir á að þrátt fyrir að vissulega eiga frjálslynd lýðræðisleg samfélög við mörg vandamál að etja þá eru þetta þó vandamál sem leyst verða innan núverandi stjórnskipulags. Næstum enginn (þó eru einhverjir örfáir) eru að kalla á allsherjar byltingu í ljósi þessa vandamála heldur umbóta. Vandamál eins og þessi kalla ekki á nýtt stjórnskipulag, aðeins að það verði fínpússað til þess að þessi vandamál verða leyst innan núverandi kerfis.
Annar galli er að vissulega eru enn hugmyndafræðileg átök til staðar. Í nútímanum eru til dæmis mörg vestræn samfélög í stríði gegn hryðjuverkum sem háð er gegn íslömskum bókstafstrúarmönnum. Hvað er þetta annað en hugmyndafræðileg barátta? Fukuyama gerir sér einnig grein fyrir þessu en hann segir að þótt bókstafstrúarmenn sem berjast gegn lýðræðissamfélögum með hryðjuverkum geti gert almennum borgurum einhvern skaða þá stafar lýðræðinu sjálfu þó engin ógn af þeim. Þessi ógn er lítil sem engin hætta við stjórnskipulagið sjálft, íbúar ríkjanna sem verða fyrir árás eru ekki að kalla á byltingu í ljósi þessara aðgerða heldur þvert á móti styrkja þessar aðgerðir, ef eitthvað er trú íbúanna á að frjálslynt lýðræði sé besta stjórnarfar sem völ er á. Því eru ríkin sem þessir hryðjuverkamenn koma frá aðeins arfleið gamallar hugmyndafræði, eins konar bergmál fortíðarinnar sem muni leysast að sjálfu sér, eða með hjálp annarra lýðræðisríkja á endanum. Sagan stefnir í átt að lýðræði og frjálslyndi eins og við sjáum bara í dag þar sem fleiri og fleiri ríki kasta af sér hlekkjum fortíðarinnar og öskra á lýðræði og eru jafnvel tilbúin til að leggja líf sitt í baráttunni að því takmarki.
Hinum andmælunum við Fukuyama er líka hægt að svara. Á síðustu árum hefur Fukuyama dregið að miklu leyti í land og farið að gagnrýna ný-íhaldsmennina mjög, einkum í nýjustu bókum hans America at the Crossroads: Democracy, Power, and the Neoconservative Legacy (2006) og After the Neo Cons: Where the Right went Wrong (2006). Því er ekki eins auðvelt að afskrifa hann aðeins á þeim forsendum að hann sé nýíhaldsmaður og eigi þar með sterk tengsl við núverandi leiðtoga Bandaríkjanna. Einnig hefur hann sjálfur tekið skýrt fram að þegar hann talar um besta stjórnarfarið í nútímanum er hann alls ekki að hugsa um Bandaríkin. Hann segir að Evrópusambandið sé meira í ætt við stjórnarfarið sem sagan hneigist að en vissulega mun þessi þróun halda áfram.
Kjarninn í hugmynd hans er því sú að eftir fall Sóvétríkjanna þá er engin önnur hugmyndafræði sem frjálslyndu lýðræði stendur ógn af. Vissulega eru enn til kommúnistaríki (eða allavega einhverjar útfærslur sbr. Kína), anarkistar, nýnasistar, einveldi og mun fleiri hugmyndir sem margir halda enn á lofti. En sagan hefur sýnt sig að þessar hugmyndir eru ekki til þess gefnar að fullnægja öllum þörfum fólksins. Þess vegna hafa þær mistekist og því hefur frjálslynt lýðræði tekið við, það er útkoman eftir runu misheppnaðra tilrauna. Eins og Hegel myndi segja þá hefur allt það besta úr þessum stigum verið varðveitt til þess að ná fram endastiginu. Vissulega er það stjórnarfar ekki enn fullkomið, ýmis vandamál eru enn til staðar en það eina sem eftir stendur er að slípa kanta þessarar formgerðar til að fá út það stjórnarfar sem best þjónar fjölbreytileika mannlegs veruleika.
En slóvenski heimspekingurinn og menningargagnrýnandinn Slavoj Zizek benti á ýmsa vankanta á þessari kenningu hans þegar hann kom hingað til lands og kom fram í Silfri Egils en hann benti á að þetta væri ein mikilvægasta spurning sem nútímamaðurinn stæði frammi fyrir. Hann setti fram þrjú vandamál sem vestræn, frjálslynd lýðræðissamfélög gætu engan veginn leyst. Í fyrsta lagi var það fátækrahverfi (slums). Í mörgum samfélögum nútímans sem uppfylla skilyrði Fukuyama um formgerð æðsta stjórnskipulags sem völ er á eru fátækrahverfi að springa út. Þessi samfélög eru orðin það stór að þau eru orðin að eins konar samfélagi inn í samfélagi. Flestir vita lítið um hvað er að gerast þar því lausnin fram að þessu hefur verið að girða þau af og vona það besta. En eftir því sem þróunin hefur verið hlýtur að koma að einhverjum suðupunkti, þessi þróun getur ekki haldið áfram endalaust. Í öðru lagi getur núverandi stjórnskipulag ekki ráðið bót á umhverfisspjöllum. Með auknum gróða stórfyrirtækja sem eru orðin mjög valdamikil innan lýðræðissamfélaga er gengið alltaf sífellt meira á náttúruna. Þessi þróun getur heldur ekki haldið endalaust áfram og núverandi stjórnskipulag býður upp á fáar lausnir þrátt fyrir miklar tilraunir. Í þriðja og síðasta lagi geta vestræn lýðræðissamfélög ekki leyst vandamálið um eignarétt á hugmyndum. Þetta sést best í dæminu um Bill Gates sem skapaði Windows stýrikerfið. Í framhaldinu af því hefur hann orðið einn af ríkustu mönnum heims. Svona dæmi verða fleiri og fleiri og sýnir mikinn galla á núverandi stjórnskipulagi þar sem auðurinn flyst alltaf í færri og færri hendur af óljósum ástæðum sem almenningur í landinu getur ekki endalaust sætt sig við. (Misskipting auðs er þó mun víðtækara og flóknara vandamál en hægt er að gera grein fyrir hér, þetta er aðeins ein hlið þess vandamáls.
Annað sem ég vill benda á er við verðum að forðast að falla í sömu gryfju og Kojève. Hann lýsti yfir endanum á hugmyndafræðilegri baráttu eftir frönsku byltinguna einmitt út af því að hann gat ekki séð fyrir marxismann sem hafði gríðarleg áhrif eftir hana. Hann var aðeins of fljótur á sér að lýsa yfir enda hugmyndafræðinnar því hann gat ekki séð fyrir alla möguleika í stöðunni. Hvað bendir til þess að við séum ekki í nákvæmlega sömu sporum og hann? Ætlum við að þykjast vita hvað tíminn muni leiða í ljós og halda fram að engin önnur hugmyndafræði muni spretta fram í framtíðinni sem núverandi stjórnskipulagi stendur ógn af vegna vankanta núverandi stjórnar?
En hvað á þá að ráða úr þessu? Er sagan, sem þróun stjórnskipulags á enda og eina sem eftir er er fínpússun á þessari grunnformgerð, frjálslynds lýðræðis? Hvert sem svarið er leikur enginn vafi á því að Fukuyama hefur komið með mikilvægar hugmyndir um samtímann sem ekki er eins auðvelt að afskrifa og virðist við fyrstu sýn.