‘If you have form'd a circle to go into,
Go into it yourself, and see how you would do.
They said this mystery never shall cease:
The priest promotes war, and the soldier peace’.
-William Blake
Oftar en ekki þegar tal berst að stríði hjá fólki hef ég alltof oft heyrt eitthvað á þessa leið: ‘þetta er bara mannlegt eðli’ og/eða ‘það er ekki hægt að breyta mannlegu eðli’ (síðarnefnda setning heyrðist einmitt í heimildarmyndinni The Fog of War þar sem Robert S. McNamara fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna situr fyrir svörum vegna hlutverks síns í hrikalegum stríðsglæpum Bandaríkjastórnar á 7. og 8. áratugnum. Það er að miklu leyti vegna þessa ummæla hans sem þessi grein er skrifuð). Þegar þetta hefur verið sagt hef ég oft tekið eftir því að umræðan er vanalega búin, ekkert meira er hægt að segja um þetta mál, það er útrætt. Stríð er bara mannlegt eðli og ekkert er hægt að gera í því. Þetta er óvéfengjanlegur sannleikur sem ekki er hægt að draga í efa. Þetta er eitthvað sem allir eiga að vita. Við erum því víst dæmd til endalausrar hringrásar dauða, þjáningar og eyðileggingar að margra mati.
En þegar kafað er aðeins dýpra í þetta mál (sem á auðvitað hiklaust að gera, þetta er að mínu mati eitt af alvarlegustu vandamálum sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir frá upphafi) hver eru þá rökin fyrir þessari skoðun? Stríð er ógeðslegasta og mest niðurlægjandi og eyðileggjandi athöfn sem mannskepnan getur tekið sér fyrir hendur, eitthvað sem lætur engan ósnortinn sem tekur einhvern þátt í henni. Stríð dregur fram algjörlega það versta úr dýpstu krókum mannssálarinnar. Sá sem ætlar að halda því fram að þessi viðbjóður sé í mannlegu eðli verður að styðja það mjög sterkum rökum. Eftir mikla íhugsun þá eru einu rökin sem ég hef getað grafið upp þau að stríð hefur fylgt manninum frá örófi alda og því hlýtur það að vera í eðli mannsins að fara í stríð, annars værum við fyrir löngu hætt þessari tilgangslausri vitleysu. Þetta eru einu rökin sem ég get séð fyrir þessari kenningu (lesendur eru þó auðvitað hvattir til að koma með frekari rök ef þeir eru með einhver). Þegar málið er sett svona upp þá missir það mikinn sannfæringarkraft að mínu mati og ætti að hverfa úr hugsuninni hjá öllu fólki sem yfirhöfuð beitir skynsemi sinni. En ef það er ekki tilfellið, ef einhver rígheldur enn í þá skoðun að það sé í eðli mannsins að fara í stríð þá ætla ég hér með að reyna sannfæra hann um annað.
– – –
Fyrst vill ég aðeins útskýra hvað það felur í sér að eitthvað sé í eðli einhvers tiltekins hlutar. Það hlýtur að þýða það (ég get allavega ekki séð það með neinum öðrum hætti) að ef einhver tiltekinn hlutur býr ekki yfir þessum tiltekna eiginleika sem á að vera eðli hans þá getur hann ekki talist vera sá hlutur. Þá hlýtur hann að vera eitthvað annað. Til dæmis er það í eðli hrings að vera hringlaga. Ef einhver hlutur er ekki hringlaga þá er ekki hægt að segja að hann sé hringur eða í formi hrings. Ég myndi svo einnig segja, t.d. að það sé í eðli stóls að það sé hægt að sitja á honum. Ef ekki er hægt að sitja á einhverjum hlut sem á að vera stóll þá getur hann vart kallast stóll, frekar rusl (ef hann var stóll en hefur skemmst) eða eitthvað annað (þó myndi ekki allt sem hægt er að sitja á kallast stóll, hann þarf t.d. að vera gerður af mönnum, hlutur sem hægt er að sitja á er ekki endilega stóll. Að hægt sé að sitja á hlut er nauðsynlegt en ekki nægilegt skilyrði fyrir að hann geti kallast stóll). Þessa skilgreiningu á eðli ætla ég að hafa að leiðarljósi.
Það fyrsta sem ég vill benda á er það sem er augljósast, það sem hver sem er, ef hann lifir meðal fólks, ætti að geta séð með sínum eigin augum. Ef stríð væri í mannlegu eðli þá hlyti það að þýða að það sé einhver innbyggð árásargirni í ekki bara einhverju fólki heldur öllu fólki. Það hlyti þá að vera einhver þörf sem mannfólkið myndi verða að uppfylla óháð sínum eigin vilja. Getur einhver með sannu sagt að þetta sé það sem hann sér þegar hann veltir fyrir sér mannlífinu? Vissulega er mikið um ofbeldi á einn eða annan hátt í öllum samfélögum fyrr og síðar (mismikið þó). En eru ekki ótalmargar aðrar skýringar fyrir þessu ofbeldi, skýringar sem myndu útskýra þetta fyrirbæri mun betur heldur en það að árásargirnin sé samvofin mannlegu eðli og því er ekkert sem við getum gert til þess að komast hjá því? Til dæmis hafa rannsóknir sýnt að mjög sterk fylgni er milli lélegrar menntunar og fátæktar og glæpa og ofbeldis. Án þess að kafa dýpra í þetta mál, tilgangur þessarar greinar er ekki að komast að ástæðu ofbeldis er þó hér strax komin önnur og að mínu mati mun betri skýring á ofbeldi nú á tímum og fyrr.
Þetta var aðeins eitt atriði sem ég taldi nauðsynlegt að benda á strax í byrjun. En hvað með stríð sjálft? Það sem verður að hafa í huga er að stríð verða ekki til á einu andartaki upp úr þurru. Áður en hið raunverulega stríð fer fram þá þurfa árásaraðilarnir (í öllum tilfellum fólkið sem stjórnar landinu, stjórnvöldin) að undirbúa íbúa tiltekins lands undir stríð, með öðrum orðum þarf að kynda undir hatrið á óvininum. Þetta er gert með áróðri. Áróður hefur verið samfara stríði með einum eða öðrum hætti alveg frá byrjun. Hann hefur þó tekið miklum breytingum, sérstaklega með tækniframförunum á 19. og 20. öld. Nú er svo komið að hann er mun áhrifaríkari en áður (en jafnframt, út af tækniframförunum er líka mun auðveldara að koma öðrum upplýsingum á framfæri, gagnáróðri ef svo má að orði komast) og ekki má draga úr áhrifamætti hans. Ef áróðurinn er notaður á réttan hátt og nógu lengi þá er hægt, ekki bara að fá þjóð til að samþykkja stríð heldur láta hana beinlínis kalla eftir því. Þetta er nánast alltaf gert. Frægasta dæmið er líklega Þýskaland Nasismans sem beitti áróðri óspart með góðum árangri. En sannleikurinn er sá að Þjóðverjar fengu ‘að láni’ mjög mikið af áróðurstækni frá Bandaríkjamönnum. Ég þori varla að ganga svo langt að fullyrða að Bandaríkin séu einhverjir frumherjar í áróðri (það gæti verið efni í aðra grein, saga áróðurs) en það er óumdeilanlegt að áróður hefur verið gríðarlega mikilvægur hluti af hernaðarbraski Bandaríkjanna nánast frá stofnun þess. Þeir hafa notað hann með mjög góðum árangri (WWI, WWII, Kórea, Víetnam, Írak o.s.frv) og aðrar þjóðir hafa tekið sér þá til fyrirmyndar. Dæmi sem er nærtækast og sem flestir kannast við er inngangurinn að innrásinni í Írak 2003. Ég ætla ekki að fara nánar út í þá atburði en ef lesendur gera sér ekki grein fyrir hversu þaulskipulagðan áróður var lagt fyrir Bandarísku þjóðina og heiminn áður en það stríð hófst þá bið ég þá um að kynna sér það nánar. Reynslan sýnir að fólk, óáreitt vill ekkert með stríð hafa. Það vill lifa í friðsæld og vinsemd við nágranna sína. Þetta hafa mannfræði rannsóknir á frumbyggjum margoft sýnt. Vissulega eru margir ættbálkar sem eru árásargjarnir en margir aðrir lifa í algjörum friði. Það er varla hægt að neita því að það er umhverfi sem ákvarðar árásargirni, aðgangur að mat, vatni, gæðum o.s.frv. Ef ekki er einhver lífsnauðsynleg ástæða fyrir stríði (sem er vart hægt að hugsa sér í samfélögum nú til dags vegna tækni, samgangna, bættum samskiptum) þarf að fá fólk til að vilja stríð. Þetta er gert með áróðri.
En ef áróðurinn er ekki nóg til að sannfæra fólk þá skiptir það í rauninni litlu máli því þá er það kvatt í herinn. Hér skiptir vilji þeirra engu máli (herkvaðningin er ekki lengur til staðar í mörgum löndum t.d. Bandaríkjunum en ég tel samt mikilvægt að ræða aðeins um hana hér því hún hefur verið svo stór hluti af hernaði). Einnig, út af heilaþvotti áróðursins þá er fólk sem er hæft til að taka þátt í stríðsbröltinu undir miklum þrýstingi frá samfélaginu. Margir myndu ekki þora að ganga gegn stríði og neita að taka þátt í stríðinu eða jafnvel mótmæla því af ótta við almenningsálitið, að vera kallaður heigull, að vera föðurlandssvikari o.s.frv. Því þarf gríðarlega staðfestu og sannfæringu til þess að komast hjá áróðrinum og herkvaðningunni
Ef einhver er þó ekki sannfærður af áróðrinum eða herkvaðningunni eða hópþrýstingnum þá kemur refsingin til skjalanna. Mjög lengi hefur það tíðkast að þeir sem neita að taka þátt í stríði eru beittir refsingum, líkamlegum eða andlegum (þótt að auðvitað komast valdamiklir menn og börn þeirra undan með einum eða öðrum hætti ef þeir þora ekki t.d. Bush, Cheney, Limbaugh í Bandaríkjunum). Algengast var að þessir einstaklingar afplánuðu þunga fangelsisdóma en einnig er það þekkt að fólk var pynt opinberlega til að forða öðrum frá því að fylgja því eftir eða jafnvel líflátið.
Leið hins almenna borgara á víglínuna er því svohljóðandi:
1) Hann er heilaþvoður með allskyns áróðri linnulaust í langan tíma. Sagt er t.d. að öryggi og líf hans og fjölskyldu hans er í hættu, óvinurinn er heilalaus villimaður, óvinurinn hefur myrt landsmenn hans á hrottafenginn hátt o.s.frv. (þetta er langoftast mjög ýkt eða bara hrein lygi).
2) Ef hann er þó ekki sannfærður til að bjóða sig fram af áróðrinum þá er hann kvaddur í herinn. Þá er það orðin skylda hans að drepa.. Því væri hann sakaður um heigulskap eða jafnvel föðurlandssvik ef hann neitaði að framfylgja þessari skyldu sinni.
3) Ef þetta tvennt hefur þó ekki enn sannfært hann er honum refsað, jafnvel hrottalega af stjórnvöldum ef hann neitar að berjast.
Nú spyr ég, ef stríð væri raunverulega mannlegt eðli af hverju eru þessi skref nauðsynleg? Maður myndi halda að stjórnvöld myndu bara nota sér árásargirnina sem væri þegar til staðar í borgurunum til að fá þau í stríð. Reynslan sýnir því að fólk er ekki árásargjarnt í eðli sínu. Það þarf að sannfæra það og neyða út í stríð af valdhöfunum sem búa yfir gríðarlega máttugum tækjum og tólum sem eru beinlínis smíðuð einungis í þessum tilgangi. Það sem svo endanlega útrýmir þeirri kenningu er að fólk er ekki endilega alltaf sannfært af þessum skrefum sem eru útlistuð hér að ofan. Þvert á móti hafa ótal mikið af fólki fært miklar fórnir til að mótmæla þessari geðveiki og neitað að taka þátt í henni. Þetta gerir það þvert á sína hagsmuni, aðeins vegna þess að það er visst í sinni sök að stríð er tilgangslaust og rangt. Þetta hefur þekkst í öllum samfélögum á öllum tímum en hefur aukist til muna á 20. og 21. öld. Í Bandaríkjunum á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar fór í gang umfangsmikil áróðursmaskína sem reyndi að kynda undir stríðsæsinginn hjá fólki. Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar Woodrow Wilsons bandaríkjaforseta um að þetta væri stríð til að enda öll stríð voru aðeins 73.000 manns sem buðu sig fram. Herinn þurfti milljón manns. Því var sett á herskylda. Þrátt fyrir það voru tugir þúsunda sem neituðu að taka þátt. Seinni heimsstyrjöldin var mjög vinsælt stríð, þ.e. stríð þar sem fólkið hélt virkilega að það væri að berjast fyrir góðum og réttum málstað. Samt sem áður voru 43.000 manns af þeirri milljón sem kvaddir voru í herinn sem neituðu að berjast. Þetta eru fá dæmi en þetta sýnir þó að stríð er engan vegin innbyggð tilhneiging hjá fólki. Það þarf aðeins að ímynda sér hvort einhver myndi sjálfviljugur taka þátt í stríði ef það væri engin áróður, engin herskylda og engin refsing til þess að sjá hversu fáránleg þessi fullyrðing er.
Ennfremur er einnig nauðsynlegt að skoða þáttakendurna sjálfa. Hvers konar fólk er það sem herinn saman stendur af? Í byrjun er þetta bara eðlilegt fólk sem hefur eðlilegar mannlegar hvatir og tilhneigingar. Þess vegna þarf að bæla þessar hvatir niður. Fólk fer ekki frá heimilum sínum á vígvöllinn heldur fer það fyrst í gegnum stranga herþjálfum þar sem óvinurinn er gerður ómannlegur og réttdræpur. Mönnum finnst að öllu jöfnu rangt að drepa og það er mjög erfitt fyrir þá. Því þarf mikinn heilaþvott til að gera fólk að nothæfum hermönnum. Reyndar eru til ýmsir andlegir kvillar s.s. siðblinda sem gerir það að verkum að fólk hefur ekki náttúrulega samúð með öðru fólki. Þetta er þó sjaldgæft og einstaklingar sem hefðu þessa kvilla myndu án efa hvort sem er falla á sálfræði mati sem allir tilvonandi hermenn þurfa að taka.
Jafnvel þótt að hermennirnir hafa farið í gegnum þessa stranga þjálfun þar sem allt er gert til að gera þá ónæma fyrir ofbeldi og hryllingi stríðsins þá er hún ekki fullkomnlega árángursrík. Mjög algengt er að hermenn geta ekki skotið af byssum sínum, þeir hika, þeir brotna saman af álagi, þeir þola ekki viðbjóðinn í kringum sig og verða því algjörlega ónothæfir o.s.frv. Einnig þegar talað er við hermenn eða lesið er frásagnir þeirra þá sér maður enga náttúrulega árásargirni. Hún er þó algeng þegar hermaðurinn hefur orðið fyrir áfalli s.s. óvinurinn hefur misst vin sinn eða þess háttar. Það er fullkomlega eðlilegt. En það er engin tilhneiging til að vera í stríðinu stríðsins vegna. Enginn telur sig vera að fá útrás fyrir einhverjar náttúrulegar hvatir eða tilhneigingar og er því ánægður með hlutskipti sitt (það þekkist þó að einn og einn geðsjúklingur hafi einfaldlega gaman af stríðinu og drápinu en þetta er þó mikil undantekning, ég er hér að tala almennt). Allur áhugi sem til staðar er fyrir stríðinu er tilkominn vegna þess að talið hefur verið hermönnunum trú um að þeir séu að gera eitthvað gott. Að þrátt fyrir allt drápið og eyðilegginguna sem þeir hafa staðið fyrir þá mun þetta, þegar allt kemur til alls borga sig. Ef þessi trú hverfur þá gufar áhuginn fyrir stríðinu upp um leið. Þetta hefur margsýnt sig t.d. í Víetnam þar sem mesta hernaðarveldi mannkynssögunnar þurfti að lúta í lægri haldi fyrir frumstæðu bændasamfélagi. Skýringin á þessu er að miklu leyti talin vera sú að Bandarísku hermennirnir höfðu enga trú á eigin málstað. Móralinn var í algjöru lágmarki hjá þeim en en hann var hins vegar í hámarki hjá Víetnömunum sem voru að berjast fyrir frelsi sínu.
Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem ég gerði á eðli hér að ofan þá gengur kenningin engan veginn upp. Til þess að stríð gæti talist mannlegt eðli þá þyrfti að vera stríðsæsingur eða allavega einhver tilhneiging til að fara í stríð í næstum öllu fólki. Þetta er engan veginn svo. Það sýnir reynslan okkur, alltaf eru einhverjir mótmælendur og þeir eru oftar en ekki gríðarlega fjölmennir en þótt að þeir væru mun færri væri það samt nóg til að hrekja kenninguna. Hvernig er hægt að samrýma þessa staðreynd og kenninguna um að stríð sé í mannlegu eðli?
Því tel ég þá kenningu að stríð sé hluti af mannlegu eðli vera órökstuddan þvætting sem niðurlægir mannskepnuna. Stríð er vissulega stór hluti af mannlegum veruleika en það eru margir aðrir þættir sem geta útskýrt það á mun betur hátt. Til dæmis er alltaf ástæða fyrir stríðum. Oftast eru þessar ástæður efnahagslegar en einnig þekkjast trúarlegar, jafnvel persónulegar ástæður. Því eru það frekar aðstæðurnar sem eru orsök stríðs. Einnig, eins og ég greindi frá að ofan þurfa valdahafar alltaf að fá íbúa landsins til að vilja stríð því þegar allt kemur til alls þá hafa íbúarnir öll völdin þrátt fyrir að valdhafarnir reyna að láta líta út fyrir að svo sé ekki. Því myndi ég telja vera raunhæfari og skynsamari kenningu að segja að það sé tilhneiging valdhafanna eða stjórnvalda (ríkisins eins og það hefur verið skipulagt fram að þessu) að fara í stríð. En þetta er önnur og mun flóknari kenning sem ég ætla ekki að reyna að færa rök fyrir hér. En ég tel mig þó hafa fyllilega sýnt fram á að það geti engan veginn staðist að stríð sé mannlegt eðli og því legg ég til að þessari vitleysu verði ekki haldið fram í fullri alvöru.
Í lokin getur svo lesandi sjálfur spurt sig að því hvort hann telji stríð í raun og veru vera í mannlegu eðli. Hann er jú partur af mannkyninu og hans svar er jafngilt og annarra. Ef svo er þá ætti hann að finna fyrir einhverri óumflýjanlegri hneigð innra með sér sem knýr hann í átt að stríði, drápi og eyðileggingu. Finnur þú fyrir þessari hneigð?
(Fyrir mörgum lesendum kann þetta, að stríð sé ekki í mannlegu eðli að hljóma augljóst. Þessi grein er ekki beind að þeim en ég vona að eftir þennan lestur þá styrki hann sannfæringu þeirra á vitleysu þessarar staðhæfingar).
Without compassion man is not a human being.
Be hard on yourself but kind to others
and remember that all men are created equal.
-Kenji Mizoguchi
The quality of mercy is not strain’d
It droppeth as the gentle rain from heaven
Upon the place beneath it is twice bless’d
It blesseth him who gives and him who takes.
-William Shakespeare