Ég held að þú sért kljást við tvö vandamál. Í fyrsta lagi hvað litir eru og í öðru lagi vandamál með heiti.
Ef við byrjum á heitum. Ég gæti sagn að Morgunstjarnan sé fallegasta stjarnan á himninum og þú gætir sagt að Kvöldstjarnan sé sú fallegasta. Í fyrstu lítur út fyrir að við séum ósammála en rauninn er önnur. Eins og stjarnfræðiáhugamenn vita þá er Morgunstjarnan og Kvöldstjarnan ein og sama reikistjarnan, nefnilega Venus. Þarna liggur vandamálið einfaldlega í því að finna út að við erum að tala um sama hlutinn, þetta gætu stjarnfræðingar sýnt fram á. Sömu leiðis væri hægt að sína fram á að við séum að tala um sama litinn með því að kanna hvaða tíðni ljósið hefur sem við erum að horfa á. Þetta getur ljósfræðin aðstoðað okkur við.
Svo er það spurning hvað litur er. Í raun er einnig ágæt að spá í hvað átt er við með sjón. Sjón er margþætt fyrirbrigði, í fyrsta lagi höfum við augun sem nema ljós, ljósið ertir efni í taugafrumum augnanna og þær framkalla rafboð sem ferðast aftur í hausinn á okkur til sjónstöðvarinnar þar sem rafboðin eru túlkuð. Í heilanum á sér síðan stað ýmislegt sem við getum ekki lýst með einföldum hætti. En þá vekur fyrst athygli hvort ljós og litur sé það sama, þegar ég sé ljós, sé ég liti? Hér er freistandi að segja nei, en það er ruglingslegt. Að sjálfsögðu getum við séð ljós, almenn málnotkun sagnarinnar að sjá segir okkur það.
Til þess að gera mig skiljanlegan ætla ég að segja að augun greini ljós, sendi boð til heilans sem túlkar þau og þá upplifum við liti (allt þetta ferli kallast svo sjón). Með þessum hætti get ég gert greinarmun á lit og ljós, ljós er raunverulegt fyrirbæri sem er mælanlegt, litur er hinsvegar upplifun sem er persónubundið fyrirbæri og erfiðara að mæla. Upplifun okkar er þannig háð því hvað augun greina, hvernig boð frá augunum eru og hvernig heilin túlkar þau. Hér getur margt farið úrskeiðis, augun geta verið sködduð, boðin röng og heilin gæti túlkað þau á vitlausan hátt. Skökk sjón gæti því valdið því að þegar við horfum á sama hlutinn upplifum við mismunandi liti.
Upplifanir okkar eru því persónulegar, þ.e.a.s. hvernig við sjáum liti. Hinsvegar verður að segjast að við hljótum að upplifa liti á afar áþekkan hátt því annars værum við örugglega ekki lifandi. Ástæðan er þróunarfræðileg. Við sjáum grænan lit betur en nokkurn annan, sjálfsagt vegna þess að við lifðum á jurtum að mestu í upphafi. Ef einhver hefði upplifað grænan við að sjá eitthvað annað hefði hann sjálfsagt étið einhvern óþverra og drepist. Þetta er að sjálfsögðu einfölduð útskýring en ég held það sé nær öruggt að við upplifum afar svipaða liti þegar við horfum á sama hlut.