Til þess að geta fullyrt eitthvað yfirleitt þarf fullyrðing manns að vera um eitthvað. Það er ekki hægt að fullyrða neitt um ekkert. En til þess að fullyrðing geti verið um eitthvað verður að vera til eitthvað sem er fullyrt, sem fullyrðingin er um og vísar til. Ef maður fullyrðir eitthvað, og fullyrðingin vísar til einhvers sem er til, hvernig er þá hægt að segja ósatt? Tökum dæmi: Fullyrðingin “Þeætetos situr” vísar til sitjandi-Þeætetosar - sem er til. En fullyrðingin “Þeætetos er fljúgandi” vísar ekki til neins - því það er ekki til neinn fljúgandi-Þeætetos. Hún virðist því vera fullyrðing um ekkert, og þar með virðist hún ekki vera réttnefnd fullyrðing þegar öllu er á botninn hvolft. Þetta olli sumum heimspekingum fornaldar vandræðum. Vandi fornmanna var þessi: Til þess að segja ósatt þarf maður að segja eitthvað sem “er ekki”. En til hvers vísa orð manns þegar maður segir eitthvað sem “er ekki”?
Platon var ekki einn um að velta þessu fyrir sér. Antisþenes (uppi ca. 455 – 360 f.Kr.) var einn af lærisveinum Sókratesar.(1) Hann fjallaði mikið um tengsl nafna og hluta (en ekkert er varðveitt eftir hann sjálfan). Hann sagði m.a. að það væri ekki hægt að segja ósatt og að það væri ekki hægt að segja eitt um annað. Að hans mati er ekki hægt að segja “maður er góður”. Það er hægt að segja “maður er maður” og “góður er góður” en ekki að eitt sé annað.
Antisþenes kallar það sem hann fjallar um logos, en ekki nomos. Sérhvert logos er satt. Sá sem segir eitthvað (logos), hann segir það sem er til; og hann segir satt.
Aristóteles var alltaf jafn skynsamur; hann bendir á villuna: pseudos, ósatt, getur vísað annars vegar til hluta (eða staðreynda) og hins vegar til logoi, orða. Ósönn lýsing vísar til einhvers annars en þess sem við vildum lýsa. Þegar við segjum ósatt eiga orðin, logoi, ekki við um hlutinn (eða staðreyndina) sem við vísum til. Þessi lausn Aristótelesar á vandanum byggir á umfjöllun Platons í Þeætetosi og Evþýdemosi, og lausn hans í Fræðaranum (Sófistanum).
Platon um Hið sanna og Hið ósanna í Þeætetosi (Pl. Þeæt. 187A-210D):
Í Þeætetosi setur Sókrates fram ráðgátuna um ósannar skoðanir. Hvernig er hægt að hafa ósanna skoðun. Þessi ráðgáta er sett fram í kjölfar þriðju tilraunar Þeætetosar til þess að skilgreina þekkingu, en hún er á þá leið að þekking sé sönn skoðun. Þeir Þeætetos gera svo þrjár tilraunir til þess að leysa ráðgátuna, en gefast að lokum upp.
Ein snilldin í Þeætetosi er hvernig Platon ögrar lesandanum. Þriðja tilraun Þeætetosar til skilgreiningar á þekkingu, þ.e. að þekking sé sönn skoðun, er sjálf ósönn. Þegar þeir Þeætetos og Sókrates ætla að taka hana fyrir fara þeir að velta fyrir sér hvernig ósannar skoðanir geti verið til. Sókrates og Þeætetos játa að þeim hafi ekki tekist að ráða vandann. Platon er nánast að ögra lesandanum til þess að finna ósannindin í rökunum sem gera það að verkum að ósannar skoðanir virðast ekki vera mögulegar! Niðurstaðan er á endanum sú að það hafi verið mistök að hefja umræðu um ósannar skoðanir áður en þeir hefðu góða hugmynd um það hvað þekking sé. Og tökum eftir því að að Platon segir rangar skoðanir í vissum skilningi vera til með því að láta Sókrates segja að það hafi verið rangt af þeim að byrja að leita skýringa á ósönnum skoðunum á þessu stigi málsins. Með öðrum orðum, Sókrates hafði þá skoðun að það væri skynsamlegt, en það reyndist ekki vera skynsamlegt. Hann hafði rangt fyrir sér!
Ráðgátan sem Sókrates setur upphaflega fram er þessi: Röng skoðun er að rugla einu saman við annað (False judgement is mistaking one thing for another). Sókrates kannar fjóra möguleika á því hvernig hægt er að rugla hlutum saman. Þeir Þeætetos hafna þeim öllum.
(1) Maður hefur ósanna skoðun þegar maður hefur þá skoðun að eitthvað sem maður veit eða þekkir sé eitthvað annað sem maður veit eða þekkir. Það er að segja, maður ruglast á einhverju tvennu sem maður veit eða þekkir.
(2) Maður hefur ósanna skoðun þegar maður hefur þá skoðun að eitthvað sem maður veit ekki eða þekkir ekki sé eitthvað annað sem maður veit ekki eða þekkir ekki. Það er að segja, maður ruglast á einhverju tvennu sem maður veit ekki eða þekkir ekki.
(3) Maður hefur ósanna skoðun þegar maður hefur þá skoðun að eitthvað sem maður veit eða þekkir sé eitthvað sem maður veit ekki eða þekkir ekki.
(4) Maður hefur ósanna skoðun þegar maður hefur þá skoðun eitthvað sem maður veit ekki eða þekkir ekki sé eitthvað sem maður veit eða þekkir.
Eins og áður sagði hafna þeir Sókrates og Þeætetos öllum fjórum möguleikunum; ekkert af þessu getur útskýrt ósanna skoðun. Nú er ekki alveg ljóst að það sé rétt af þeim að gera það. Í (1) er til dæmis alveg mögulegt að þó maður þekkir hvort tveggja, þekki maður það ekki í sundur og ruglast í einhverjum tilteknum aðstæðum. Í (2) er stungið upp á að ef maður geti ekki ruglast á tveimur hlutum sem maður þekkir ekki því ef maður þekkir hvorugan hlutinn getur maður ekki haft neina skoðun á málinu. Ef maður veit til dæmis ekki hver Georg er og heldur ekki hver Hilda er, þá getur maður ekki haldið að Georg sé Hilda; í það minnsta ekki ef maður hefur ekki hugmynd um að þetta fólk sé yfirleitt til! En það er samt vel hugsanlegt að maður hafi hugmynd um að þetta fólk sé til en þekki það ekki alveg í sundur og ruglist því á þeim. Hvað ef um er að ræða tvíbura? Hver þekkir til dæmis í sundur Baldwin bræðurna? Í (3) er stungið upp á því að maður hafi ósanna skoðun þegar maður heldur að eitthvað sem maður veit sé eitthvað sem maður veit ekki. Ef maður heldur að maður viti ekki það sem maður veit, þá annað hvort veit maður ekki í raun og veru það sem maður “veit”, eða maður hefur alltof lítið sjálfstraust! En er ekki samt mögulegt að halda um eitthvað sem maður þekkir að það sé eitthvað annað sem maður veit ekkert um, t.d. að Steinn Steinarr sé Aðalsteinn Kristmundsson? Í (4) er að lokum stungið upp á því að maður hafi ósanna skoðun þegar maður heldur að maður viti eitthvað sem maður veit ekki. En ef maður heldur að eitthvað sem maður veit ekki sé eitthvað sem maður veit hefur maður ósköp einfaldlega rangt fyrir þér. Til dæmis veit enginn að Ísland hafi orðið lýðveldi 1942, enda varð Ísland ekki lýðveldi 1942. En einhvr gæti samt haldið það.
Næst er breytt um herkænsku: Röng skoðun er að hugsa “það sem er ekki”. Nú hverfum við aftur til Eleu-manna. Samkvæmt Parmenídesi er ekki hægt að hugsa “það sem er ekki”; “er-ekki” er óskiljanlegur hugsunarháttur, og það er engin óvera! Við munum hvernig Platon leysti það mál. Hann gerði greinarmun á tveimur (alla vega) mismunandi merkingum sagnarinnar að vera, umsagnarmerkingu og tilvistarmerkingu. En sú lausn kemur ekki fyrr en í Fræðaranum (Sófistanum) sem hann skrifar síðar.(2)
Hér byggir Platon á ákveðinni samlíkingu, þ.e. samlíkingu við skynreynslu: Ef maður sér eitthvað, snertir eða heyrir, hlýtur að vera eitthvað sem er séð, snert eða heyrt. Og á sama hátt, ef maður hefur skoðun, hlýtur að vera eitthvað sem maður hefur skoðun á. Sem sagt skoðanir á því sem “er ekki” eru með öllu ómögulegar. Hérna virðist hann því sætta sig við kenningu Parmenídesar, a.m.k. í bili.
Þriðja tilraunin til þess að útskýra rangar skoðanir: Röng skoðun er það þegar við höldum að eitt sé annað. Þessi tilraun er í raun keimlík þeirri fyrstu nema hvað Sókrates fer nú að snúa útúr fyrir Þeætetosi. Að lokum er gerð tilraun til þess að útskýra ranga skoðun á þann hátt að hún verði til þegar minning passar ekki við skynreynslu: Platon tekur dæmi um vaxtöflu sem frægt er orðið. Að leggja eitthvað á minnið er eins og að grafa það í vaxtöflu. En það er mögulegt að eitthvað máist af vaxtöflunni. Þá passar upphaflega skynjunin ekki við skoðunina sem maður hefur myndað sér. Minni virðist geta útskýrt sum misgrip.
En Platon leysir eins og áður sagði ekki vandann í Þeætetosi. Samt má lesa úr verkinu að hann hafi alls ekki þá skoðun að ósannar fullyrðingar eða ósannar skoðanir séu ómögulegar. En lausnina fær lesandi Platons ekki fyrr en í Fræðaranum (Sófistanum).
Platon um Hið sanna og Hið ósanna í Fræðaranum (Sófistanum):
Í Fræðaranum (Sófistanum) tekur Platon aftur fyrir Hið sanna og Hið ósanna. sem hann var búinn að fjalla um áður í Þeætetosi og Evþýdemosi.
Í Þeætetosi er ekki talað um fullyrðingar heldur þekkingu, skoðanir og dóma (doxa og samsvarandi sögn doxazein, að dæma, fella dóm). Sá sem veit eitthvað hlýtur að vita eitthvað sem er (sbr. sá sem segir eitthvað segir eitthvað sem er). En í Fræðaranum (Sófistanum) talar Platon um fullyrðingar.
Vandinn sem Platon á við að etja er reyndar frekar djúptækur. Ef ekki eru til ósannar fullyrðingar er varla hægt að hafa rangar, ósannar, skoðanir. Og þá er varla hægt að tala um ósanna reynslu, þ.e. tálsýn. En ef ekki er hægt gera greinarmun á sýnd og reynd, ef sýndin er öll sönn, verður sannleikurinn afstæður. Flestar afstæðiskenningar fara afar mikið í taugarnar á Platoni. Hann hafði þegar hrakið afstæðiskenningu Prótagórasar í Þeætetosi en enn var eftir að gera grein fyrir því hvað sannleikur sé, í hverju sannleikur fullyrðingar felist.
Platon reynir tvennt:
(1) Að sýna að þeir sem halda að ekki sé hægt að segja “það sem er ekki” misskilji neitunina “ekki”.
(2) Að sýna fram á eðli fullyrðinga; þær eru um eitthvað, þær eru umsagnir (sbr. greinarmunur á tveimur merkingum sagnarinnar “að vera”). En þessi eiginleiki þeirra er alveg ótengdur þeim eiginleika þeirra að þær eru sannar eða ósannar.
Platon segir að vera hluta geti verið af tvennu tagi:
(1) Sumt sem við segjum að sé, er útaf fyrir sig; sumt er per se, simpliciter.
(2) Annað sem við segjum að sé, er með tilliti til einhvers annars, stendur í tengslum við aðra hluti. Og við getum komið orðum að þeim tengslum.
Tökum dæmi. Sókrates er útaf fyrir sig til, en hann er ekki útaf fyrir sig hvítur. Hann stendur í ákveðnum tengslum við hvítan lit, hið hvíta. Þannig er hægt að segja að eitthvað sé ekki eitthvað annað þegar það stendur ekki í ákveðnum tengslum við eitthvað annað. Þar með erum við þó ekki að segja að það sé ekki simpliciter. Þessi tengsl skipta höfuðmáli.
Til þess að geta sagt satt eða ósatt þarf að fullyrða eitthvað um eitthvað. Það þarf a.m.k. tvennt:
(1) Tilvísun til einhvers (sem er til).
(2) Umsögn um það sem vísað er til.
Platon gerir greinarmun á því sem vísar til einhvers í setningu og umsögninni um það sem vísað er til. Annað kallar hann onoma, en hitt hrema. (= frumlag og umsögn hjá Aristótelesi). Sem sagt: Platon játar alveg að fullyrðingar verða að vera um eitthvað; þær geta ekki verið um ekkert. En ósannar fullyrðingar eru ekki um ekkert, heldur um eitthvað, þær eru bara ósannar um það sem þær eru um. Sanngildið felst í umsögninni en ekki í nafnoðrinu. Nú má segja að Platon sé kominn með tvenns konar tilvísanir. Annars vegar vísar nafnorð setningarinnar til einhvers. Hins vegar vísar umsögnin til einhvers. Og fullyrðing er ósönn ef umsögnin vísar ekki til þeirra tengsla sem eiga við um hlutinn sem nafnorð fullyrðingarinnar vísar til.
Það má segja að Platon sé kominn með samsvörunarkenningu um sannleikann. Þetta er sú fyrsta í sögunni. Aðrar frægar eru hjá Aristótelesi (í IV. bók Frumspekinnar), hjá G.E. Moore (1873-1958) John. L. Austin (1911-1960) og hjá Bertrandi Russell (1872-1970). En Aristóteles er locus classicus. Hann segir: Að segja að það sem er sé ekki eða að það sem er ekki sé, er ósatt; en að segja að það sem er sé og það sem er ekki sé ekki, er satt. Svo að sá segir annað hvort satt eða ósatt sem segir eitthvað vera eða vera ekki.
Samkvæmt Russell er setning sönn ef hún segir að um x,y og venslin V gildi Vxy, og x og y eru til og x venslast við y. Austin telur aftur á móti að setning sé sönn ef og aðeins ef setningin í heild tjáir aðstæður (state of affairs) og þær aðstæður eru raunverulegar. Moore hefur svipaða kenningu og Austin. Að hans mati er það að segja skoðun vera sanna einfaldlega það sama og að segja að staðreyndin sem hún vísar til sé! Platon myndi líklega taka undir með Russell.
Eins og áður sagði gerir hann í löngu máli greinarmun á tveimur fullkomlega aðskildum eiginleikum setninga. Þær eru um eitthvað annars vegar, og þær eru annað hvort sannar eða ósannar hins vegar. Það er ekki svo það sem sönn setning segir sé allt saman til. Heldur er setning um eitthvað og það sem hún segir um þetta eitthvað er annað hvort satt eða ósatt. Hún lýsir réttum eða röngum tengslum sem eitthvað hefur við eitthvað annað. Það er sem sagt ekki svo að setningin “Þeætetos situr” sé sönn ef til er sitjandi-Þeætetos. Heldur er setningin fyrst og fremst um Þeætetos hvort sem hún er sönn eða ósönn, og það sem hún segir um hann er annað hvort satt eða ósatt.
__________________________________
(1) Ef Sókrates átti þá lærisveina. Antisþenes Antisþenesarson var aþenskur heimspekingur (D.L. VI.1) og nemandi Gorgíasar (D.L. VI.2). Platon nefnir að Antisþenes þessi hafi verið viðstaddur síðustu stundir Sókratesar í fangelsinu (Pl. Fæd. 59B). Hann var kennari og skrifaði mikið m.a. um siðfræði, stjórnspeki, náttúruspeki og þekkingarfræði, tungumál, bókmenntir og mælskufræði; sumt í sókratískum samræðum. Hann hafði áhrif á stóumenn og hundingjana (kýnika) og síðari tíma höfundar tala um hann sem stofnandi hundingjaskólans (sbr. t.d. D.L. VI.2, VI. 19). Haft er eftir honum: “Ég myndi frekar vilja ganga af göflunum en finna til ánægju” (D.L. VI.3). Líklega var lítill vinskapur á milli Antisþenesar og Platons og mun Antisþenes hafa skrifað bók um mótsagnir gegn Platoni sem hann nefndi Saþón, eða Titlingur.
(2) Það skiptir ekki máli hvort Platoni tókst að leysa vanda Parmenídesar eða ekki. Það sem skiptir máli er að hann túlkar Parmenídes á ákveðinn hátt og lausnin hans dugar gegn þeirri túlkun. Svo að Platon hefur talið sig hafa leyst vanda Parmenídesar. En ef til vill má sjá merki þess þegar í Þeætetosi að Platon sé að íhuga lausn á því máli. En Platon er ekki endilega að pæla í þeim greinarmuni hér. Guthrie telur að hann sé bara með tilvistar-merkinguna í huga hér.
___________________________________