Af (marg)gefnu tilefni fannst mér ég knúinn til að útlista og gera grein fyrir kostum hinnar vandmeðförnu hreinskilni.
Skortur á hreinskilni
Fólk nú til dags er oft ekki móttækilegt fyrir hreinskilni. Þegar maður er spurður “hvað segirðu?” þá svarar maður, eins og í trans, “allt gott”. Þegar kokkur spyr mann hvernig maturinn hans bragðaðist svarar maður oftast “bara vel”. Þetta gagnast vitanlega ekki nokkrum manni. Fólk spyr mann að einhverju til að fá álit manns, ef svo er ekki þá eru spurningarnar gagnslausar. Ég treysti því að fólk beri nægilegan frumleika, kjark og hreinskilni í brjósti til að segja eitthvað annað en bara “allt gott” og “bara vel”.
Beiting hreinskilni
Hreinskilni er virkilega heppilegt verkfæri. Ef allir væru hreinskilnir, alltaf, yrði enginn sár ef maður segði honum hvernig fötin hans færu honum í raun, hvernig maturinn hans bragðaðist og hvernig manni liði. Engin vandkvæði. Þetta er fólk oft ekki reiðubúið fyrir, enda kann fólk enn illa við að heyra “þú ert ekki fyndinn” eða “hættu að tala við mig”. Fólk vill láta ljúga að sér.
Særingamenn
Í heimi hamslausrar hreinskilni myndi þó ávallt gefa að líta svarta sauði, rétt eins og í hinum núverandi heimi. Vandamál gætu orðið til vegna fólks sem væri “of hreinskilið”, væri hreinlega særandi. Þar er mikilvægust eigin dómgreind hvers og eins á muninn á skoðun og særandi ummælum. Þetta yrði þó engu frekara vandamál en í núverandi heimi.
Að stíga skrefið til fulls
Vilji maður vera hreinskilinn við aðra verður maður að búast við hreinskilni í eigin garð. Geti maður tekið gagnrýni lendir maður ekki í vandræðum með gagnrýni á aðra, svo lengi sem maður heldur sig innan ramma sanngirni.
Mér þætti gaman að sjá alla vera hreinskilna um sem flest málefni, því þá opnast hreinlega nýir heimar samræðna sem fólk hefur ekki dirfst að fara inn á áður. Hreinskilni er ávanabindandi. Jafnvel þótt fólk eigi stundum erfitt með að taka við sannleikanum veldur hann aldrei djúpum sárum. Hugurinn að baki orðunum gildir.
Missi maður eitthvað út úr sér getur maður svo alltaf beðist fyrirgefningar.