Stolt er fólki mikilvægt. Stolt er eitthvað sem maður getur alltaf haft og búið til úr engu, þótt hægt sé að brjóta það niður. Stolt getur aukið virðingu annarra fyrir manni, þótt of mikið af því geti leitt til hins gagnstæða.

Varnargarður stoltsins
Hluti af þessu stolti er að láta ekki finna bilbug á sér. Maður á að vera rammger kastali. Sé eitt gat eru allar varnir til einskis. Ef sök fellur á okkur á grípum við því til afsakana. Afsakanir eru eins og tappi í gatið. Þær veita okkur þá tilfinningu að við höfum ekki alla sök, ef ekki enga, á því er olli afsökuninni. Við beitum afsökunum þegar við mætum of seint, gleymum einhverju, okkur yfirsést eitthvað eða við gerum eitthvað afbrigðilegt.

En hvað er afsökun?
Af-sökun. Maður léttir sök af sjálfum sér. Maður er að færa ásökun á herðar annarra manna eða hluta. Eftir manngerðum er henni beitt við misstórvæg tilefni. Sumir beita þeim jafnvel í einskis manns návist, aðrir þurfa varla á þeim að halda.
Afsakanir greinast þó í tvo flokka; réttmætar og óréttmætar afsakanir (sem ég kýs að kalla). Réttmætar afsakanir eru þegar maður lýsir með réttu yfir sakleysi sínu. Óréttmætum afsökunum er beitt til að færa sekt sína á aðra einstaklinga eða hluti. Það er svo annar handleggur hvort hægt sé að kenna hlutum um nokkurn skapaðan hlut.

Ofnýting afsakana
Ástæðan fyrir þessum greinagerðum er sú að sífellt fleiri beita afsökunum við algerlega óþörf tilefni. Tilefni þar sem afsakanir verða vandræðalegar tímasóanir og bæta ímynd þess sem beitir þeim ekki að nokkru leiti. Þegar einhver er að kenna manni á hljóðfæri og segir manni til þá þarf maður ekki að afsaka sig fyrir hverja feilnótu sem maður slær. Maður þarf ekki oftar á afsökun að halda en maður er ranglega ásakaður um eitthvað.

Stolt
Stolt er þó líka til í annarri mynd. Sjálfsmynd. Sú ímynd sem maður hefur af sjálfum sér skiptir mann líka máli, eins og sýn annarra á mann. Maður getur byggt upp stolt með því að framkvæma eitthvað heiðvirt. Eins getur maður brotið það niður með svindli og lygum. Tilgangslausar afsakanir eru til ama, eru málfarslegt lýti og geta orðið kækur, jafnvel langtíma ávani. Þær geta verið heigulsháttur. Ef við sleppum óþarfa tilvikum þeirra höfum við losað okkur við barnalega hegðun og málfarslegt lýti hinna óþörfu afsakana.