Fimbulfamb:
2a)
Nú veit ég hvað afleiðsla er og ég veit hvað röksemdafærsla er. Hinsvegar er ég ekki alveg með á hreinu hvað þú átt við að skilgreina með afleiddri röksemdafærslu. ( Mig grunar raunar að þú vitir það ekki alveg sjálfur/sjálf. )
Röksemdafærsla er almennt leið til að færa rök fyrir ályktun. Þú getur gert það með því í daglegu tali með því að færa góð rök fyrir máli þínu ( hvað sem það er ) eða með formlegri hætti, með að- eða af-leiðslu. En þá eru skilyrðin aðeins strangari, en ályktunin líka sterkari á fótunum.
Skilgreiningar eru hinsvegar örlítið af öðru tagi. Þegar þú skilgreinir ertu í raun að útskýra mjög vel við hvað þú átt þegar þú segir eitthvað. Til dæmis þegar þú segir kannski “maður” þá gætirðu sagt, ég skilgreini “maður” sem homo sapiens, eða ég skilgreini “maður” sem manneskja með karlkyns kynfæri og svo framvegis. Svo í framhaldinu geturðu notað skilgreininguna staka og fólk veit NÁKVÆMLEGA hvað þú átt við ( eða ætti í það minnsta að vita það ). En það er rosalega gagnlegt að fólk viti nákvæmlega við hvað maður á, þegar maður er til dæmis að rökstyðja hugmyndir sínar.
Þess vegna er sniðug ef þú ætlar að fjalla um réttlæti eða annað slíkt, að byrja á skilgreiningu á þessum lykilhugtökum. Þú getur sagt hvað réttlæti er fyrir þér og svo haldið áfram að nota hugtakið. - En taktu eftir, þú ert ekki búin að sanna að hugtakið þýði það sem þú skilgreinir að það þýði. Það gerir þú með röksemdafærslu sem ef til vill styður það hvernig þú skilgreinir til dæmis réttlæti.
Málið er að þú ert í raun ekki að beita afleiðslu í greininni þinni, þó þetta sé metnaðarfull viðleitni hjá þér. Þú ert í raun aðeins að segja,
mér finnst 2a eða 2c.
Með rökunum:
Hver maður gegnir að mínu mati sínum tilgangi á þessari jörðu og ég er ekki viss um að maður losni við dráp (sem tilgangurinn er) með drápum.
Afleiðsla er nefnilega þannig að þú getur ekki neitað niðurstöðunni ef þú samþykkir forsendurnar. ( Forsendurnar eru oft einfaldar skilgreiningar sem eru svo augljósar að engum dettur í hug að efast um þær, en stundum eru þær niðurstöður annarar röksemdafærslu. Dæmi um augljósar forsendu er til dæmis : “Allar manneskjur deyja einhvern tíma.” og önnur “Ég er manneskja”, og svo kemur afleiðslan, það þýðir að “ég mun deyja”. Þú sérð að þú getur ekki neitað þessu síðasta ef þú samþykkir það sem kom á undan. Þetta er dæmi um mjög einfalda afleiðslu. )
Þú sérð því að niðurstaðan þín er ekki niðustaða afleiðslu. Þar sem maður getur neitað niðurstöðunni burt séð frá hvort þú samþykkir annað eða ekki. Niðustaðan er ekki nauðsynleg af því sem á undan kom, þú skilur.
2b)
Þegar þú talar um “æsta stig” og það allt, þá ertu sem sagt að segja hvað þér finnst, og hvað þú átt við. En þú ert ekki að segja mér að það sé sniðug skoðun, eins og maður reynir þegar maður rökstyður hugmyndirnar sínar.
Sko, ég skil þig alveg. Ég veit hvað þú meinar. ( Ég held það í það minnsta. ) Ég er hinsvegar ekki hér til að vera sammála eða ósammála. Ég er hér til að sjá hvernig þú rökstyður það sem þér finnst. Ég er líka tilbúinn að hjálpa þér að rökstyðja það sem þú meinar. Hinsvegar er mjög erfitt að rökstyðja það sem er ekki satt, eða ef það er vitleysa; það er eiginlega ekki hægt að gera það þannig að út komi eitthvað sem er satt og rétt. Ég vil samt alveg reyna og kanna málin, því það er það sem heimspeki snýst um. ;)
2c)
Já, hvað er klisja eða ekki klisja er mjög teygjanlegt. Þetta er í raun bara svona orð eins og orð um smekk, eins og mér þykir þetta ljótt eða fallegt, bjart eða dimmt, stórt eða lítið. Þó mun meira eins og ljótt eða fallegt. En það er þó hægt að segja að klisjur þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að geta flokkast sem klisjur. Klisjur, í hversdagslegum skilningi ( taktu eftir þetta er skilgreining ), eitthvað sem margir segja án þess að rökstyðja það sérstaklega, helst svo oft að fólk er hætt að hugsa um innihald orðanna og hvað þarf að vera til þess að þau séu sönn. Dæmi: “Jésú var góður.” Sumir myndu ekki kalla þetta klisju, en þetta passar við skilgreininguna. “Hitler var vondur.” er annað dæmi. “Stríð er heimska” enn annað. “Ofbeldi leysir engan vanda.” aftur. ;) Allt þetta fellur undir þá skilgreiningu sem ég var að búa til. En athugaðu að það er
skoðun hvort stök dæmi sem fullnægja skilgreiningunni eru klisjur eða ekki. Það að margt fellur innan í þessa skilgreiningu gefur henni ekki mikið gildi. Þannig er það ekki stórkoslega merkilegt að ég segi að hitt eða þetta sé klisja. Hinsvegar ef ég get fært einhverskonar rök fyrir að viðkomandi hugmynd sé klisja, er það miklu merkilegra. Þessi skilgreining er raunar svo ómerkilegt að það er varla hægt að nota hana. Betra væri bara að fletta upp skilgreiningu í orðabók eða heimspekiorðabók. Svo er hægt að finna rök fyrir því að viðkomandi hugmynd falli inn í þessa skilgreiningu eða ekki.
Ég ætla hinsvegar ekki að fara út í frekari rökstuðning á hvað varðar tal mitt um klisjur, nema hvað um hugmyndir sem oft er farið með eins og sannleika, nema hvað þær eru svo til aðldrei rökstuddar; þar að auki tel ég að þær séu rangar. Hér á ég við þær klisjur sem ég talaði um.
3)
Varðandi fullkomleika, þá á ég við að fullkomleiki er voðalega erfitt að mæla í raunveruleikanum. Það er auðvelt að tala um hann, en það þýðir ekki að hann sér eitthvað sem er raunverulegt eins og maður segir það. Frasar eins og “Fullkomið frelsi”, “Fullkomið líf”, “Fullkominn skilningur”, “Fullkomin húð”, “Fullkomin vera”, “Fullkominn maður”, “Fullkomin kona”. Hvað er allt þetta? Hvenær vitum við að um hið fullkomna “X” er að ræða? Þetta er soldið erfitt. En það er voða auðvelt að tala svona. Sumir segja líka að það sé mjög auðvelt að bulla eitthvað út í loftið, en erfiðara að segja eitthvað þannig að það sé satt eða líklegt til að vera satt. Hvenær vitum við að við höfum skilið eitthvað til fulls?
Ég skil sem sagt vel hvað þú átt við. Ég er bara forvitnari um rökin. ;)
Annað:
Ég vil bara taka fram að ég er ekki að reyna að vera ósammála þér, eða að deila við þig. Ég er að meira að kanna rök þín fyrir því sem þú ert að segja. Og upphaflega var ég að reyna að deila með þér mínum eigin hugmyndum. Ég er hinsvegar ekki viss um að þú hafir alveg náð þeim. Sem er kannski ekki nema von. Ég á það stundum til að vera soldið flókinn þegar ég er að útskýra, þó að ég sjái það ekki alltaf.