Málið snýst um það hvað maður gerir ef einhver bregst trausti manns.
Ímyndaðu þér einhvern sem þú treystir mest í lífinu.
Ímyndaðu þér að þú segir þessum aðila eitthvert leyndarmál og daginn eftir hefur þessi aðili sagt öllum frá leyndarmálinu.
Hvernig bregstu við? Er það ekki eitthvað á þessa leið? Þú verður sár/reið(ur) og hugsar með þér “Hvernig gat hún/hann gert mér þetta?”. Í mörgum tilfellum hangir þetta yfir fólki í óratíma, jafnvel alla ævi.
Málið er bara það að þú í rauninni treystir aldrei þessari manneskju. Þú treystir “dómgreind” þinni á manneskjunni.
Ef einhver bregst trausti þínu þá var það í raun dómgreind þín sem klikkaði en ekki manneskjan. Manneskjan er bara eins og hún er.
Þá er nær að spyrja “Hvernig gat ég mistúlkað manneskjuna svona?”. Þegar þessi hugsun kemur upp verður maður frekar reiður út í sjálfan sig og vinnur mun hraðar úr tilfinningaflækjunni.
Fyrir mína parta þá hjálpar þetta mér að komast yfir ýmsar hindranir í lífinu. T.d. ef svona staða kemur upp þá verð ég fyrst reiður út í manneskjuna. Svo fljótlega fer ég í þessa pælingu og eftir svona sólarhring eða svo er ég kominn yfir þetta og er oftast búinn að fyrirgefa manneskjunni innra með mér en treysti henni ekki eins og ég gerði.
Ég í raun fínpússa dómgreindina í hvert sinn sem dómgreind mín klikkar, til að koma í veg fyrir frekari árekstra í lífinu.
Svona til að skýra þetta enn frekar þá skulum við skoða þetta frá öðru sjónarhorni.
Það hafa flestir lent í því að vantreysta einhverjum en komast svo að því að það manneskjan var traustsins verð.
Þarna er það augljóst. Dómgreind þín klikkaði, ekki satt?
Þetta er nákvæmlega sama og þegar þú treystir einhverjum og hann bregst traustinu.
Kveðja,