Þekkingarfræði er ein aðalgreina heimspekinnar. Hún fjallar fyrst og fremst um þekkingarhugtakið, eðli þekkingar og það hvernig (eða hvort) afla megi þekkingar. Hún fjallar einnig um mörg skyld hugtök eins og skynjun og skynreyndir, skoðun, trú og fullvissa og minni. Hér verður fjallað í stuttu máli um þekkingarhugtakið og hvað það felur í sér.

Hin sígilda útlegging á þekkingu er um 2500 ára gömul og var fyrst sett fram af gríska heimspekingnum Platoni (427-347 f.Kr.) í samræðu sem heitir Þeætetos. Það vill reyndar svo undarlega til að Platon sjálfur aðhylltist ekki þessa útleggingu á þekkingu. Í samræðunni eru þrjár tilraunir til skilgreiningar á þekkingu reyndar og finnur Platon eitthvað að þeim öllum. Samræðunni lýkur svo með því að Sókrates segir við þá Þeætetos og Þeodóros, viðmælendur sína, að þótt þeim hafi ekki enn tekist að finna fullnægjandi skilgreiningu á þekkingu hafi hann ekki tíma til að ræða málin lengur að sinni en þeir skuli þess í stað hittast aftur daginn eftir. Hins vegar er ljóst að þeir eru nær skilningi á þekkingarhugtakinu í lok samræðunnar og hafa því náð einhverjum árangri. Niðurstaðan, sem er í reynd einungis lágmarkskrefa til þess að eitthvað geti talist vera þekking, hefur svo orðið að hinni sígildu skilgreiningu þekkingar allt fram á 20. öld.

En hvernig er þá þessi skilgreining þekkingar sem finna má í Þeætetosi Platons? Í stuttu máli má segja að þekking sé, eftir þessari útleggingu, sönn rökstudd skoðun (justified true belief). Við skulum nú athuga hvað felst nákvæmlega í þessu.

Er hægt að búa yfir þeirri þekkingu að Björn Bjarnarson sé forsætisráðherra Íslands? Er hægt að vita að Davíð Oddson sé heilbrigðisráðherra? Augljóslega ekki. Ástæðan er einfaldlega sú að hvort tveggja er ósatt. Sá sem heldur að Davíð Oddson sé heilbrigðisráðherra eða að Björn Bjarnarson sé forsætisráðherra býr ekki yfir þessari þekkingu og veit þetta alls ekki; hann heldur þetta, stendur í þessari trú, en hefur ósköp einfaldlega rangt fyrir sér. Menn kunna að spyrja hvort það hafi ekki verið þekking fyrr á öldum að jörðin hafi verið flöt. Var það ekki þekking þá? Svarið er einfaldlega: Nei, menn héldu þetta en vissu það ekki enda höfðu þeir rangt fyrir sér. Það er því ljóst að til þess að hafa þekkingu þarf maður að hafa einhverja skoðun og sú skoðun þarf að vera sönn. Hér eru því tvö skilyrði sem þarf að uppfylla:
(1) A trúir því að p
(2) p er sönn
þar sem p er einhver fullyrðing. Fyrra skilyrðið er huglægt skilyrði en síðara skilyrðið er hlutlægt skilyrði.

En nægir þetta? Svarið er nei. Þetta nægir engan veginn. Ímyndum okkur að einhver maður sé spurður að því hvort kvaðratrótin af tveimur sé óræð tala og að sá hinn sami viti það ekki. Spurningin krefst annað hvort já- eða nei-svars og viðkomandi hugsar sig um í smá stund og svarar svo “Já, kvaðratrótin af tveimur er óræð tala”. Nú má segja að þessi vinur okkar hafi ákveðna skoðun og það vill svo til að hún er sönn. Kvaðratrótin af tveimur er óræð tala. Það er ekki hægt að tákna hana sem almennt brot á forminu a/b þar sem a og b eru heilar tölur. En það er samt ekki hægt að segja að maðurinn hafi vitað svarið þegar hann giskaði á það. Hann bjó ekki yfir neinni þekkingu.

Þá komum við að þriðja skilyrðinu sem Platon leggur til. Til þess að einhver geti búið yfir þekkingu þarf hann að hafa skoðun, sú skoðun þarf að vera sönn og viðkomandi þarf að geta rökstutt hana (réttlætt hana eða gert grein fyrir henni). Hérna er því komið skilyrði sem á að tengja saman huglæga og hlutlæga skilyrðið, þ.e. (1) og (2) að ofan. Skilgreiningin lítur því svona út:
(1) A trúir því að p
(2) p er sönn
(3) A hefur góða ástæðu til að halda p.
þar sem p er einhver fullyrðing.

Eins og áður sagði taldi Platon að þótt þetta væru lágmarksskilgreining á þekkingu dygði þetta ekki til. En hann lét staðar numið við þetta. Á 20. öld varð þessi skilgreining þekkingar aftur fyrir gagnrýni sem oft er nefnt The Gettier problem eftir heimspekingnum Edmund Gettier. Ímyndum okkur að ég sé staddur ásamt veimur vinnufélögum mínum, Jóni og Gunnari, á kaffistofu vinnustaðarins. Jón ekur alltaf um á svörtum Volvo. Gunnar tekur strætó í vinnuna. Hins vegar vill svo til að Gunnar á Volvoinn sem Jón ekur en hefur lánað honum bílinn. Ég trúi því að það sé maður inni á kaffistofunni sem á svartan Volvo. Sú skoðun er sönn (því Gunnar á svartan Volvo). Og ég góða ástæðu til að hafa þá skoðun að inni á kaffistofunni sé maður sem á svartan Volvo (ég sé annan af vinnufélögum mínum, sem er inni á kaffistofunni, alltaf koma á svörtum Volvo í vinnuna). En veit ég að annar vinufélaga minna eigi svartan Volvo? Nei, ég veit það ekki. Ég veit nefnilega ekki að Gunnar eigi svartan Volvo og ég get ekki vitað að Jón eigi svartan Volvo því það er ekki satt, hann á ekki svartan Volvo. Hvað fór úrskeiðis hérna? Jú, þriðja skilyrðið er uppfyllt en samt tengir það ekki skilyrði (1) og (2) saman eins og því var ætlað að gera. Rökin sem ég hef fyrir því að inni á kaffistofunni sé maður sem á svartan Volvo eru þau að ég sé Jón alltaf koma á svörtum Volvo í vinnuna. Þess vegna hef ég þessa skoðun og uppfylli skilyrði (1) en skilyrði (2) er uppfyllt vegna þess að Gunnar á svartan Volvo. Af þessu er ljóst að það nægir ekki að skilgreina þekkingu sem sanna rökstudda skoðun.

Er einhver lausn? Það hefur verið stungið upp á ýmsu t.d. að bæta verði við fjórða skilyrðinu
(4a) p orsakar (1)
eða
(4b) ef ekki p, þá ekki (1)
Þetta síðara skilyrði er komið frá Robert i Nozick Hann segir að rökin sem maður hefur fyrir því að trúa p verði að vera þannig að maður gæti ekki trúað p með sömu rökum ef p væri ósönn. Enn er þó deilt um hvernig síðasta skilyrðið eigi nákvæmlega að vera.


Heimildir:

Andri Steinþór Björnsson, Torfi Sigurðsson og Vigfús Eiríksson (ritstj.), Er vit í vísindum? (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1996).

Atli Harðarson, “Efahyggja”, Andri Steinþór Björnsson, Torfi Sigurðsson og Vigfús Eiríksson (1996) 15-37.

Burnyeat, Myles, The Theaetetus of Plato (Inianapolis; Hackett, 1990).

Dancy, Jonathan, Introduction to Contemporary Epistemology (Oxford; Blackwell, 1993).

Gettier, Edmund, “Is justified true belief knowledge?”, Analysis 23 (1963).

Nozick, Robert, Philosophical Explanations (Cambridge; Harvard UP, 1981).
___________________________________