Lengi hafði ég verið rosalegur í málflutningi mínum gegn trúuðu fólki að stundum fannst mér erfitt að vera ég. Ég eyddi miklum tíma í að fá hinn almenna trúaða meðaljón til að reyna að taka á skoðunum sínum og virkilega sannfæra sjálft sig með rökrænum hætti hvað rétt sé. Ef það gat sannfært sig með þessum hætti, í stað þess að taka átakalaust við nýjum lífsskoðunum, þá ætti ég ekki rétt á mér með einhverjum áróðri.
Eftir nokkur ár með huga minn eins óþroskaðann og þarna fór mér einmitt að leiðast og fór ég að lesa meira í heimspeki en ég hafði áður gert. Fyrsta bók sem áhrif hafði var Descartes: Hugleiðingar um Frumspeki og var það sú bók sem breytti viðhorfi mínu til lífsins yfir höfuð. Svo heppilega vildi einmitt til að ég var að þá að gera nákvæmlega það sama og Descartes lýsti yfir að hann hafi gert. Það er að rífa allar sínar skoðanir niður til mergs og byggja þær aftur upp á nýjum forsendum. Ástæðan fyrir því var nefnilega svo einstaklega rökrétt, einmitt sú að flestar skoðanir okkar byggjast á fyrri túlkunum og skynjunum síðan í æsku. Hvernig getum við verið viss um að þessar skynjanir hafi verið réttar í okkar óþroskuðu skynfærum á þeim tíma? Eru þá ekki skoðanirnar byggðar á fölskum grunni? Geta þær þá verið eins réttar og haldið var í fyrstu?
Maður fær hroll því þetta er svo rétt.
Ég byrjaði mína vinnu og eftir örstuttan tíma fór að glita í árangur. Ég fór strax að skilja og meðtaka af hverju fólk tekur við þessum skoðunum án þess að reyna að sannfæra sig eitthvað frekar. Hví að reyna að skemma það sem gerir þig ánægðari með lífið? Það er nokkurnvegin staðreynd, eða tilgáta, að trúað fólk á oft auðveldara með að finna lífshamingju en ella. Jú það er vegna þess að þá er fólk ekki í þessum endalausa spurningaleik, af hverju þetta, af hverju hitt? Það er einfaldlega búið að svara þessum erfiðustu spurningum, hver er tilgangur lífsins? Að þjóna guði. Hvað er eftir dauðann? Lífið. Þetta er bara svo einfalt að það er næstum því sársaukafullt.
Descartes náði jafnvel að vekja upp spurningu frá mér:
Er sál til?
Ég hefði sagt nei fyrir en nú er ég einfaldlega ekki viss.
Förum í smá leik, ímyndum okkur líkama, breyttu honum núna í hálfann líkama. Er það hægt? Já, það virkar. En ímyndum okkur nú hugsun, getur þú ímyndað þér hálfan hug? Nei, það er hins vegar ekki hægt. Einnig getur þú aðgreind líkamann frá huganum, við getum verið í algjöru lömunarástandi en hugurinn er samt sem áður til staðar, t.d. fyrir framan tölvu, eða í draumi ;). Hálfur líkami með heilann hug. Er þá ekki möguleiki á því að þessi hugsun okkar er einmitt þessi sál sem oft er talað um?(Auðvitað er hugmyndin byggð á því upprunalega) Er hugurinn ekki aðgreinanlegur frá líkamanum? Er þá hægt að útiloka líf eftir dauðann? Kannski er hægt að segja að með líkamanum deyji hugurinn, en ekki er hægt að útiloka að einmitt hið gagnstæða gerist, að hugurinn leiti eitthvað annað.
Þetta er svipað og þeir sem rituðu Júdasar-guðspjallið héldu fram og hylltu Júdas sem hetju, hann hafði einmitt frelsað Jesú úr fangelsi sínu sem þeir kölluðu líkama, og hefði hann ekki verið drepinn á þennan hátt við þessar aðstæður, hefði hans ekki verið minnst sem þess frelsara sem flestir aðhallast í dag. Þeir héldu því einmitt fram að líkaminn væri ekkert annað en fangelsi sem aftraði hugsun (sál) okkar til að fara annað og ná sínum helsta tilgangi.
Þetta er eitthvað sem er að krauma þarna undir hjá mér, ég geri mér grein fyrir því að ég er að rjúka úr einu í annað en ég er að reyna að halda þræðinum. Ég get allaveganna fullvissað ykkur um það að ég var einn af þessum sem hafði verið hvað mest að reyna mitt besta til að koma trúuðu fólki til að greina trúnna sína en nú er ég hættur. Af hverju á ég að skemma lífsgleði einhvers og blátt áfram vanvirða þá sem trúa? Við eigum ekki rétt á því að níðast á skoðunum annara, og það vill oftast enda þannig. Sama hversu velviljað það má hljóma hjá okkur, en ef við vekjum upp spurningar trúaðra um af hverju þau hafa þessar skoðanir, þá erum við að níðast á skoðunum þeirra, við erum að sína vanvirðingu. Hví getum við ekki lifað okkar lífi í efanum án þess að hafa það í sömu stöðu? Ég tel mig vera heppinn að hafa uppljómast eins og ég hef gert, ekki það að ég sé trúaður eins og er. :)
Takk fyrir,
og fyrirgefiði hvað ég skrifa mikið
Óðinn Davíðsson Löve