Í þræðinum “Trú, blekking”, greindi mér og gthth nokkuð á um “raunveruleika” félagslegra hluta.
Samkvæmt ákveðnum skilningi getur félagslegur hlutur bæði verið hlutlægur (t.d. bíll) eða huglægur (t.d. siðir). Í reynd eru skilin þó ekki skörp þarna á milli því oftast er sami hluturinn bæði til sem hlutlægur og huglægur hlutur. Bíll er þannig bæði efnislega áþreifanlegur hlutur, auk þess að fela í sér óefnislega hluti. Í vissum skilningi má segja að hin huglægi þáttur hlutarins sé sá mikilvægari því án hans væri hluturinn merkingarlaus fyrir okkur. Ef við hefðum ekki til að bera huglægan skilning á hlutnum “bíl” hefðum við enga hugmynd um hvaða fyrirbæri þetta væri og hann væri okkur vita gagnlaus út frá ætluðu hlutverki hans. Myndin “The gods must be crazy” fjallar einmitt um þetta á bráðskemmtilegan hátt. Í myndinni er kókflaska látin falla af himnum ofan í þorp !kung veiðimanna. Myndin fjallar síðan um þær hremmingar sem samfélagið lendir í við að gefa þessum hlut einhvern merkingarbæran tilgang.
Huglægir hlutir eins og siðir geta birst okkur á sýnilegan og “áþreifanlegan” hátt í atferli okkar. Sumir siðir okkar eru skráðir eða berast á milli í munnlegri geymd og eru okkur að fullu meðvitaðir. Aðrar siðvenjur okkar geta verið algjörlega ómeðvitaðar og við jafnvel þrætt fyrir að hafa þessa siði. Þetta eru félagsleg atferli sem atferlisfræðingar hafa uppgötvað við rannsóknir sínar. Reyndar má deila um hvort þetta eru ómeðvituð félagsleg boðskipti eða siðvenjur enda oft erfitt að greina þar á milli (er t.d. handaband siðvenja eða boðskipti?).
Hlutur verður að uppfylla ákveðin skilyrði til að kallast félagslegur. Eitt megin skilyrðið er að hann hafi félagslega dreifingu. Því má segja að viðfangsefni félagsfræði sé rannsókn á uppruna og ferli félagslegra hluta í samfélaginu. Í þessu sambandi vil ég þó benda á að hlutur/atferli getur haft dreifingu í samfélaginu án þess að skilgreinast sem félagslegur. Ágætt dæmi þar um getur verið frásögn konu á huga.is um það hvernig hún uppgötvaði leið til sjálfsfróunar þegar hún var barn að aldri. Fleiri konur tóku undir með henni að þær höfðu einnig uppgötvað þessa aðferð af sjálfdáðum og héldu að þetta væri algjört einsdæmi hjá sér. Þótt þessi aðferð stúlkubarna við sjálfsfróun virðist þannig hafa nokkra dreifingu í samfélaginu þá er hún ekki félagsleg þar sem atferlið dreifist ekki félagslega heldur virðist það vera sjálfsprottið lífsálrænt atferli. Hins vegar nefndu nokkrar konur sem höfðu ekki haft hugmynd um þessa aðferð að þær ætluðu að prófa þetta og þar með er atferlið farið að dreifast félagslega um samfélagið.
Þótt viðfangsefni félagsvísinda sé þannig vel skilgreint og þau sjálf skilgreind með náttúruvísindum í flokki reynsluvísinda þá eru enn mikil heimspekileg álitamál um “raunveruleika” margra félagslegra hluta í náttúruvísindalegum skilningi. “Hús” er þannig raunverulegt í náttúruvísindalegum skilningi. “Guð” eða “einhyrningur” eru hins vegar óraunveruleg í náttúruvísindalegum skilningi því það finnast hvorki tangur né tetur af þeim í “náttúrunni”. “Hús”, “Guð” og “einhyrningur” eru hins vegar jafn raunveruleg í félagsvísindalegum skilningum. Þau eru að vísu á ólíku formi og þvingandi áhrif þeirra á félagslegt atferli missterk. En það breytir engu um að þetta eru reynslustaðreyndir sem hafa eða hafa haft orsakandi áhrif í heiminum.
Það sem er athyglisvert í þessu öllu er hvers vegna heimspekin leyfir sér að gera upp á milli reynslustaðreynda tveggja megin flokka reynsluvísinda. Afhverju dæmir heimspekin allar reynslustaðreyndir sem falla utan mælanleika náttúruvísinda sem kosmologískar staðleysur, jafnvel þótt sýnt sé að þessar tilteknu reynslustaðreyndir hafi mikil kosmologísk áhrif? Afhverju ekki að nálgast þessar reynslustaðreyndir af fordómaleysi og reyna að skilja eðli þeirra? Ef við notum t.d. eingöngu orðaforða náttúruvísinda við að skýra eðli heimsins þá væru hlutir eins og manngerð kjarnorkusprengja ómögulegir. Eðlisfræðin getur skýrt fyrir okkur hvaða eðlisfræðilegu lögmál gera það að verkum að þessi hlutur springur með þeim krafti sem hann gerir. Lögmál eðlisfræðinnar geta hins vegar á engan hátt skýrt hvernig þessi reynsluhlutur “manngerð kjarnorkusprengja” varð til í heiminum sem kosmológísk staðreynd. Víst að þessi félagslegi hlutur er til og svo ótalmargir aðrir sem eðlisfræðin fær með engu móti skýrt, þá verðum við að hafna henni sem fullnægjandi skýringarkerfi um eðli heimsins. Eðli heimsins er einfaldlega annað og meira en eðlisfræði nútímans fullyrðir.