Að einhverju leyti felst réttlæti í því að hver fái það sem hann á skilið. Að einhverju leyti felst það í jöfnuði, hvernig svo sem sá jöfnuður er. Sumir kynnu að segja að jöfnuður tekna væri réttlátur, aðrir segðu jöfnuður tækifæra. Flestir eru sammála um að jöfnuður fyrir lögum er réttlátur. Og tökum eftir því að jöfnuður er innbyggður í þá reglu að hver og einn fái það sem hann á skilið. Það er að segja, reglan segir að það að fá það sem maður eigi skilið eigi að gilda jafnt um alla. Kannski er því nóg að segja að réttlæti felist í því að hver og einn fái það sem hann á skilið og allt tal um jöfnuð einfaldlega ofaukið.
Nú væri kannski ágætt að líta á dæmi til að átta okkur á þessari ofureinföldu og hversdagslegu hugmynd um réttlæti. Þorsteinn Gylfason, kennari minn, kenndi mér það að þegar við erum að hugsa um réttlæti og ranglæti væri alltaf gott að taka dæmi af börnum. Einhvern veginn er þetta alltaf ofureinfallt og skýrt í þeirra heimi. Ímyndum okkur afmælisveislu. Við borðið sitja tíu börn og á borðinu er afmæliskaka. Nú kemur móðir afmælisbarnsins inn og skiptir kökunni. Hún sker hana niður í 17 sneiðar og færir krökkunum. Allir fá sér sneið af kökunni og njóta vel. Síðan fá krkkarnir sér aðra sneið. En núna verða þrír útundan. Sumir fá tvær sneiðar, aðrir eina. Það fá ekki allir jafnt. Er þetta réttlátt? Það sér það hvert barn við borðið að réttlátt er það ekki. Nú mætti auðveldlega flækja svona dæmi til dæmis með því að bæta því við að sumir hefðu fengið tvær sneiðar af annarri köku áður en ekki hinir. En einföld útgáfa dæmisins sýnir alla vega að að einhverju leyti felst réttlæti í jöfnuði.
Það er heldur ekki erfitt að finna dæmi fyrir því að réttlæti felist í því að hver fái það sem hann á skilið. Ímyndum okkur aftur hóp barna. Börnin ganga að sjálfsögðu í skóla og í skólanum eru þau látin þreyta próf. Síðan fer kennarinn yfir prófin og gefur börnunum einkunnir. Hvernig er nú best að gefa fyrir? Ætii kennarinn að gefa ljóshærðu stúlkunni á fremsta bekk hæstu einkunnina vegna þess að hún er dóttir gamals skólafélaga hans? Eða ætti hann að gefa drengnum með gleraugun sem situr aftast hæstu einkunnina af því að hann er alltaf svo fyndinn og skemmtilegur? Kannki ætti Gunna að fá hæstu einkunnina vegna þess að hún er venjulega svo dugleg að læra heima þótt hún hafi ekki staðið sig vel á prófinu. Ég held að flestir myndu kvarta undan slíkum kennara. Þetta er í raun ekki mjög erfið ákvörðun. Kennarinn á bara að gefa fyrir í samræmi við frammistöðu hvers og eins á prófinu. Þannig fá alir það sem þeir eiga skilið.
Svona getur nú verið einfalt í mörgum tilvikum að þekkja réttlæti frá ranglæti án þess að búa yfir pottþéttri skilgreiningu á þessum hugtökum. Þetta er svo ofureinfalt að fæstir þurfa að hugsa sig tvisvar um til að vera sammála. Nú vil ég bjóða lesandanum að íhuga fyrirbæri í okkar eigin þjóðfélagi og hvort það sé réttlátt eða ranglátt. Fyrirbærið er eignarskattur.
Ef eignarskattstofn er yfir ákveðinni fjárhæð við árslok verður eigandi að borga skatt af eignum sínum. Eignarskattstofninn reiknast svo út frá andvirði ákveðinna tegunda eigna sem skilgreindar eru í lögum, til dæmis af fasteignum, búpening, lausafé, vörubirgðum, hlutabréfum, skuldum, inneignum og tekjuréttindum. En þessi skattur mismunar fólki. Hann gildir ekki jafnt um alla og er því ranglátur.
Tökum dæmi. Ímyndum okkur tvo menn, Jón og Gunnar. Báðir hafa jafn miklar tekjur og báðir borga jafn mikinn tekjuskatt. En Jón sparar launin sín eftir að hann hefur greitt af þeim skatt. Gunnar eyðir aftur á móti sínum, fer til útlanda og skemmtir sér. Eftir nokkur ár hefur Jón safnað sér nægilegri fjárhæð til þess að fjárfesta í húsi. Hann kaupir húsið fyrir peninginn sem hann hefur safnað sér og er búinn að greiða skatt af. En húsið er fasteign og nú þarf hann að greiða fasteignaskatt og eignarskatt. Sem sagt hann þarf að greiða skatt af peningum sem hann er búinn að greiða skatt af. Allt í lagi, ef þetta gilti nú jafnt um alla. En það gildir nefnilega ekki jafnt um alla. Gunnar, sjáiði til, þarf ekki að greiða aftur skatt af peningunum sem hann vann sér inn. Það er enginn sem biður hann um kassakvittanir fyrir farmiðunum út og öllum rándýru rauðvínsflöskunum sem hann keypti sér, og heimtar að hann greiði skatt af fjárhæðinni aftur.
Það eru því bara sumir sem þurfa að greiða skatt af launum sínum tvisvar en ekki aðrir. Er það réttlátt? Og hverjir eru það sem greiða tvisvar skatt af tekjum sínum? Það eru þeir sem spara peninga og fjárfesta í landinu. Er það réttlátt? Ég held að hversdagslegur skilningur hvers heilvita manns á því hvað er réttlátt hljóti að svara því til neitandi.
___________________________________