Ef þú efast aldrei um sjálfan þig verðurðu einhver leiðinda hrokagikkur á endanum.
Mér líkar illa við flokkun fólks í annars vegar sigurvegara og hins vegar “meðalmenni”. Síðan hvenær er maður ekki neitt ef maður er ekki sigurvegari, og þó að einhver sé yfirlýst betri en maður sjálfur í einhverju, þótt hann vinni einhverja keppni. Djöfull myndi samfélagið fúnkera vel ef allar stéttir samfélagsins snerust um einhverja sigurvegara á meðan hinir gerðu ekkert með hæfileika sína nema reyna að verða sá besti eða vera í þunglyndiskasti því þeir eru ekki bestir.
Hvað er meðalmaður? Maður sem er ekki súpergóður í einhverju?
Á bak við nær alla “risa” í hinum ýmsustu greinum hafa verið tryggar stoðir í lífi þeirra sem hafa hjálpað þeim gegnum erfiða tíma, þessi ómerkilegu meðalmenni, sem fá af því þó engan heiður. Þeir “risar”, þessir bestu, sem hafa ekki þessa bakhjarla skíta einfaldlega á sig á öðrum hliðum lífsins. Hvor gerir meistaraverkin; “risinn”, ekki spurning, hver ber ábyrgð á þeim? “Risinn” og Meðalmenninn.
Beethoven, maðurinn sem á heiðurinn að því að gera tónlist að einhverju meira en saklausum munaði sem hægt var að veita eftir pöntunn, til dæmis átti fáa að, hann gat ekkert nema samið frábæra og grýðarlega byltingakennda tónlist. Skapvonska hans var alræmd, hann var í ónáð hjá mörgum og þegar hann fékk forræði yfir syni bróðir síns endaði það með sjálfsmorði sonarins sem má beint rekja til þeirra ömurlegu uppeldis og agaaðferða sem Beethoven beitti. Vænræksla allra annara hliða lífs síns leiddi einnig til þess að Beethoven tók næstum sjálfur eigið líf, enginn þekkir nöfn þeirra ótrúlega traustu meðalmennavina hans sem þoldu skap hans og hjálpuðu honum uppúr sjálfsmorðshugleiðingunum og báru þannig óbeina ábyrgði á verkum eins og níundu sinfóníunni og strengjakvartettnum margfræga. Það væri auðvitað frábært ef allir væru svona Beethovenar, engir ómerkilegir meðalmenn að flækjast fyrir því eina sem skiptir máli í lífinu; að vera BESTUR. Síðasta setning var auðvitað kaldhæðni. Að vera bestur en hafa ekki allt niðrum sig einfaldlega ekki bara eins manns verk því ef maður er einn þá verður maður einfaldlega að beina öllu í áttina að því sem maður vill verða bestur í og hafa allt annað niðrum sig, því annars gerir bara einhver annar það eða þá að það kemur manneskja með nokkur vel útilátin “meðalmenni” með sér sem sjá um að halda buxunum uppi meðan hún beinir öllu í þetta sem keppt er um.
Þar að auki er það algjör misskilningur að fólk fæðist meðalmenni. Það er eins og þú haldir að það sé ekkert erfitt að rækta allar hliðar lífs einnar manneskju í einu, eins og þú haldir að það eina erfiða í lífinu sé að rækta eina hlið stórkostlega mikið? Nei þetta er einfaldlega spurningin um áhersluákvarðanir, ekki hvað sé erfitt og hvað ekki. Það er alveg hægt að gera sitt besta og verða meðalgóður í fullt af sviðum og að gera sitt besta og verða með þeim bestu.
Svo er auðvitað til fólk sem er einfaldlega latt eða metnaðarlaust og er í heildina verra en aðrir, en minn punktur er; “að gera sitt besta er ekki spurning um að verða betri en aðrir á einhverju mælanlegu sviði”. Svo þarf ekki að hafa of miklar áhyggjur af raunverulegu meðalmennunum, þessum lötu, sá sem leggur ekki allt sitt af mörkum verður líklegast undir þeim sem gera það og þannig hverfur þetta fólk hægt og hljóðlega.
Trúðu mér, egóflippið sem fylgir því að vera bestur varir stutt og er nær einskis virði, tala ég nú af dálítilli reynslu. Eftir að maður hefur verið titlaður “bestur” og allir eru búnir að segja húrra og halelúja þá er tilgangurinn með því að vera bestur búinn (nema meira húrra og haleljúa sé í boði, þessi löngun í að vera bestur er í raun bara ein stór athyglissýki) og maður snýr sér að tilgangi meðalmennisins, að verða þannig að maður geti látið öðrum líða vel og skipt aðra máli, sligaður af öllum þeim óræktuðum og hálfdauðum hliðum sjálfs.
Þegar maður er virkilega fær í einhverju fagi getur maður beitt faginu þannig að það komi sér vel fyrir aðra og þá fer maður að skipta aðra máli en það getur meðalmaðurinn hins vegar líka alveg gert. Þannig að það enda allir með sama pálman í höndunum, nema kannski þeir sem sækjast eftir húrrumhæinu og athyglinni.
Að verða bestur og upplifa egóflipp og mikla athygli annarra er ansi lélegt takmark í sjálfu sér, en að breyta faginu sínu og/eða líðan og/eða stöðu annara til hins betra er gjörð sem fengi mann til að líða virkilega vel, svo er aldrei að vita nema maður verði bestur á leiðinni til þeirra breytinga sem maður ætlar að valda.
Orðið “bestur” er líka afar vafasamt í þessari umræðu. Hvort er það að vera færastur í faginu að kunna best á það í sjálfu sér (vera verkfæri fagsins) eða kunna best að láta það hafa jákvæð áhrif út fyrir sjálft sig (að nota fagið sem verkfæri)?