Þetta er nú ekki ætluð beinlínis sem grein, ekki í þeim skilningi að ég ætli mér að fræða ykkur sérstaklega eða kasta einhverjum kenningum fram. Meira bara tala um þá hluti sem ég hef verið að velta fyrir mér, sennilega nokkuð lengi.
Nú trúa ekki allir á guð. Ég trúi t.d. ekki á guð, eða yfirnáttúrulegt afl, eða eitthvað því um líkt. (Þrátt fyrir að ég gerði það fyrir tveim árum síðan).
En flest okkar, meirihluti samfélagsins trúa að einhverju leyti á einhvers konar Karma lögmál. Við trúum því kannski ekki bókstaflega á helvíti eða himnaríki (þótt að einhverjir í samfélaginu geri það vissulega) en flest lítum við svo á að við uppskerum eins og við sáum.
Vissulega uppskerum við eins og við sáum. Hvað er maðurinn að fara. Ég er ekki að tala um að ég uppskeri laun eftir því hversu mikið ég vinn, eða einkunnir í skóla. Ég er að velta þessu fyrir mér í siðferðislegum skilningi.
Dagsdaglega gerum við góðverk, og þótt að góðverk séu “hugsanlega” nægileg laun í sjálfu sér, þá ímyndar maður sér stundum að af því maður sé góður þá muni góðir hlutir gerast.
Í bíómyndum og bókmenntum, þá uppsker fólk eftir hegðun. Hetjan sem gerir vel til annarra fær laun að lokum, hvort sem það er hetjan í ævintýrum sem fær prinsessu og hálft konungsríkið í lokin, eða lögreglan sem gómar bófann í lok sjónvarpsþáttarins.
Auðvitað eru undantekningar, en það er þó almennt reglan að góði kallinn vinnur í lokin, sem og hið viðurkennda siðferði samfélagsins.
Þótt að þetta sé ekki raunveruleikinn eins og við vitum vel, þá hefur verið prentað inn í okkur frá blautu barnsbeini að það borgi sig að vera góður.
En sú staðhæfing byggir á trú. Karma lögmálið er ágætis orð yfir þetta, finnst mér. (eins og flestir vita, sótt til Indlands). Það byggir á því að það sem fari upp hljóti að koma niður aftur og manni hegnist fyrir misgjörðir sínar, ef ekki í þessu lífi, þá í því næsta. Yfirleitt í því næsta, því það er erfiðara að hrekja það.
Ég vil vera góður maður, ég vil í það minnsta trúa því að ég geri góða hluti. En er það af því ég er góður maður eða af því að samfélagið hefur alið mig þannig upp.
Góðmennska er auðvitað afstæð. Nú er t.d. samkynhneigð almennt ekki álitin synd og flestir menntaðir Indverjar álíta að það færi þeim ekki slæmt Karma að snerta stéttleysingja. (Held ég, en annars sagði einn félagi minn sem hefur ferðast til Indlands, að stétta fordómar séu fremur algengir í landinu).
En Ok, sumsé spurningunni hefur verið stillt. Af hverju ætti ég að vera góður maður, ef ég trúi því ekki að einhver guð muni umbuna mér?
Vitiði um einhverjar spennandi eða skemmtilegar bækur um þessi málefni. Einhverjar sem færa rök fyrir því að gera vel við náungann eða einhverjar sem gera nákvæmlega hið öfuga.
Og endilega skellið upp rökum með og á móti í leiðinni.