Eitt það fyrsta sem ég rak augun í er það stórmerkileg spurning Viðars (ég þykist vita að Viðar er ekki málpípa Berkeleys,heldur Hugi), en hann spyr á einum stað hvort Hugi haldi virkilega að gullni litur gullmolans sé í gullmolanum. Og ég velti því fyrir
mér hvar eiginleiki hlutar, eins og litur, ætti yfirleitt að búa, ef ekki í hlutnum, fyrst við erum á annað borð að eigna þessum sama hlut eiginleikann (litinn)? Jújú.. liturinn gæti verið einber skynjun mín en þá er hann ekki eiginleiki eða litur þessa hlutar sem ég eigna hann. Með öðrum orðum, ef gullin litur er litur gullmola, hlýtur liturinn að vera í (eða á eða hvernig sem best er að orða það) hlutnum. Því ef gullni liturinn er ekki í (eða á) gullmolanum þá er þetta ekki gullni litur gullni litur gullmolans heldur einhver allt annar gullinn litur. Og eins ef bók er blá – ef blái liturinn er ekki í (eða á) henni, þá er þetta ekki blái litur bókarinnar heldur einhver annars blár litur. Kannski blár litur augnanna minna (eða sjónstöðva heilans eða hvað sem er) sem óvart kemur alltaf fram á sama tíma og bókin.
Viðar veldur mér enn furðu. Það leiðir ekki af skynjunum okkar, segir hann, að efnislegir hlutir séu til. Gott og vel. En hvers vegna lætur Berkeley hann halda áfram og segja að efnislegir hlutir séu þá ekki til? Það er ekki nauðsynleg afleiðing fyrri fullyrðingarinnar. Vöntun á sönnun er ekki sönnun á vöntun. Það er auðvitað athuglisverð hugmynd að ekkert sé til nema skynjanir, ekkert efni á bak við þær. En Viðar er samt miklu trúverðugri sem efahyggjumaður heldur en sem kenningasmiður um tilvistarleysi efnisheimsins.
Viðar játar efahyggju – hann getur ekki verið fullviss um neitt. Þar eð hann veit ekki með vissu um tilvist efnisheimsins ályktar hann (ónauðsynlega) að hann sé ekki til. Spurður um tilvist efnisheimsins hefði raunverulegur efahyggjumaður yppt öxlum
og látið þar við sitja. Berkeley gerir ekki nógu góðan greinarmun á frumspeki og þekkingarfræði. En ekki nóg með þetta: Hann efast ekki um að allar aðrar tilgátur eða kenningar um eðli raunveruleikans (en kenningin um efnið) muni reynast rangar.
Hvernig getur efahyggjumaður leyft sér þann munað að vera fullviss um slíkt? Hann getur ekki, sem efahyggjumaður, verið fullviss um að allar kenningar muni vera rangar. Broddurinn er sá að ef við dyttum niður á rétta kenningu, þá myndum við aldrei vita það (sem efahyggjufólk gætum við ekki verið fullviss). En einhver kenning okkar gæti samt verið rétt.
En Viðar vill meina að allar kenningar eða tilgátur hljóti að vera rangar. Ég er því að reyna að átta mig á því hvort hann hafi einhverja afstöðu eins og þá að sannleikur sé ekki til Efahyggjumaður þarf vel að merkja ekki að halda neinu slíku fram. Hann þarf bara að halda fast við það að við gætum ekki komist að sannleikanum (sem þó má vera til). Það er reyndar spurning hvort réttnefnd efahyggja geti verið möguleg ef ekki er til neinn sannleikur. Því ef hann er ekki til sitjum við uppi með afstæðiskenningu, ekki satt? Gallharður efahyggjumaður yrði þó að játa að hann vissi ekki einu sinni hvort hann ætti að taka undir það hvort til væri sannleikur eða ekki og því vissi hann ekki hvort hann ætti yfirleitt að aðhyllast efahyggju eða afstæðishyggju. En nóg um efahyggju.
Berkeley hefur ekki verið gersneyddur kímnigáfu fyrir sjálfum sér. Hann lætur Huga segja að það sé aðhlátursefni þegar heimspekingar efast um tilvist efnisheimsins, sem þeir skynja sjálfir, með eigin augum eins og maður segir, þar til þeir hafa fengið Guð inn í myndina til að sanna tilvist hans fyrir sig. Nokkrum línum seinna er hann sjálfur að staðhæfa að til sé eilífur hugur (Guðs væntanlega…) sem er alls staðar viðstaddur og skilur allt, skynjar og þekkir. Munurinn er sá að hann lætur Guð ekki sanna fyrir sig tilvist efnisins heldur tilvistarleysi þess.
Viðar gerir aðfinnslu við mál Huga í nafni heilbrigðrar skynsemi. Það er athyglisverð spurning að hve miklu leyti heilbrigð skynsemi og frumspeki fara saman. Um það hafa verið ritaðar margar greinar. Til að byrja með er góð spurning hvað heilbrigð skynsemi sé nákvæmlega. Hvernig aðgreinir hún sig frá annarri skynsemi til dæmis? Er til óheilbrigð skynsemi? Eins og við förum með hugtakið heilbrigð skynsemi í daglegu máli er það væntanlega sú skynsemi sem við notumst einmitt ekki við í frumspekilegum pælingum.
Þegar við notum heilbrigða skynsemi gefum við okkur ýmislegt t.d. að til sé efnisheimur (Það er heilbrigð skynsemi! segjum við) en það getur ekki verið viðeigandi einmitt þegar við erum að íhuga frumspekileg efni að gefa sér slíkt. Heilbrigð skynsemi virðist
mér endurspegla það sem maður hefur fyrirfram gefið sér, eða er vanur að halda. Eitt sinn sagði heilbrigð skynsemi mönnum að jörðin væri flöt. Líttu í kringum þig, sögðu þeir, heldurðu að þú sért á kúlu?
Það sem er raunverulegt eru skynjanir okkar, eftir því sem Hugi segir okkur. Bókin sem ég sé er raunveruleg; bókin sem ég snerti líka. Ekki bókin sjálf eða neitt slíkt. En að sjá er ein skynjun og að snerta önnur. Eru bækurnar þá tvær? Strangt til tekið, segir Hugi, já! Skynjanirnar eru tvær (samtímis) og bækurnar líka. Þetta er athyglisvert. En Guð sem skynjar allt í sífellu, hvernig skynjar hann bókina? Eru tvær bækur í hans huga eða ein, þar sem ég skynja fleiri en eina? Ef hann skynjar bara eina en ég tvær, er þá ekki samt bara ein bók? Hefur Guð ekki frekar rétt fyrir sér en ég? Ef það er samt bara ein bók (þó ég hafi fleiri skynjanir af henni) hvað segir það um kenningu Berkeleys? Er komin einhver mótsögn? Tvær bækur en samt ein! Berkeley gæti auðvitað sagt að Guð skynji eins og ég. En eru þá einhver takmörk fyrir því hvað hann skynjar margar bækur? Undarlegar kenningar geta af sér undarlegar pælingar. Samt bætir hann við seinna að margir geti skynjað sama hlutinn. Þessar mörgu skynjanileiða þá ekki til þess að hlutirnir séu margir.
Hugmyndin um hluti sem eiginleikaknippi er auðvitað áhugaverð. Er til eiginleikalaus hlutur? Varla. Ekki fremur en það er til hlutlaus eiginleiki. Nú staðhæfi ég þetta blátt áfram; það ætti ég auðvitað ekki að gera. Í nafni hinnar sívinsælu heilbrigðu skynsemi verð ég samt að segja að hlutlaus eiginleiki og eiginleikalaus hlutur eru óhugsandi. Það er fullkomlega óskiljanlegt hvernig þetta gæti verið. Hlutir verða að hafa eiginleika; þeir hafa hins vegar ekki neinn ákveðinn eiginleika nauðsynlega. Ég fæ ekki skilið hvernig bókin mín gæti verið litlaus, lyktarlaus, haft enga stærð og engan massa. Hún þarf hins vegar ekki að hafa bláan lit, vera 18 cm löng og 100g nauðsynlega. Hún gæti allt eins verið rauð, 22 cm löng og 150g. En hugmyndir um nauðsynlega eiginleika endar í einhvers konar eðlishyggju (eðli bókarinnar, ef eitthvað slíkt er til, hlýtur að vera allir þeir eiginleikar sem gera hana að því sem hún er, en annars væri hún eitthvað annað). Og ég ætlaði mér ekkert að ræða það hér.
___________________________________