Heimsfræði fjallar um uppruna heimsins og gerð hans. Þannig felur hún í sér hvort tveggja eðlisfræði og náttúruvísindi í bland við frumspeki. Heimsfræði Platons er aðallega að finna í samræðunni Tímajosi sem var lengi vel einna þekktust samræðna hans. Hún var hins vegar afar umdeild þegar í fornöld; yngri samtímamenn Platons voru þegar farnir að deila um hvernig bæri að túlka hana. Þá hafa einnig verið miklar deilur um það hvaða skeiði höfundarferils Platons samræðan tilheyri. Þær deilur skipta okkur minna máli að svo stöddu en ég mun ganga út frá því að Tímajos tiheyri yngstu samræðunum. Áður en gerð verður grein fyrir heimsfræði Platons er aftur á móti ágætt að líta á nokkur atriði þeirrar heimsfræði sem sett hafði verið fram fyrir daga Platons.
Heimsfræði fram að dögum Platons
Fyrstu heimspekingarnir sem sögur fara af voru frá Míletos í Litlu Asíu. Þeir voru Jónar og stundum er talað um heimspeki þeirra sem jónísku hefðina. Þessir heimspekingar leituðu að einhverju frumefni sem lægi heiminum til grundvallar. Þales sagði að það væri vatnið, Anaximandros að það væri ómælið og Anaximenes að það væri loftið. Þeir áttu það sameiginlegt að telja heiminn eiga sér einhverja eina uppsprettu og að þessi uppspretta væri efnisleg. Þeir gerðu grein fyrir uppruna hreyfingar með því að segja að efnið hreyfði sig sjálft. Hér er því komin einhvers konar hugmynd um heiminn sem lifandi veru og Anaximandros og Anaximenes töluðu meira að segja um guð í þessu sambandi.
Seinna hélt Empedókles fram gamalli hugmynd sem hafði fram að þeim tíma þó ekki verið sérstök heimspekihugmynd, að frumefnin væru fjögur, eldur, loft, vatn og jörð. Hann sagði eiginleika hlutanna ráðast af magni, hlutfalli og skipan efnanna í þeim. Hann gerði ráð fyrir tveimur andstæðum öflum, sameinandi afli og sundrandi afli, og nefndi þau ást og hatur. Hann aðskildi því orsök hreyfingar frá frumefnunum (sem hann nefndi rætur). Sjálf frumefnin eru óbreytanleg; þau halda ávallt einkennum sínum og haldast líka ávallt í sama magni.
Anaxagóras gerir öll efni að frumefnum. “Það er eitthvað af öllu í öllu” á hann að hafa sagt. Allir hlutir skiptast í samkynja og ósamkynja efni. Samkynja efni segir hann að séu frumefni og séu óbreytileg. Ósamkynja efni eru þá efnablöndur, grautur af samkynja efnum. Anaxagóras gerir greinarmun á efni og anda. Andi, eða hugur, Anaxagórasar er algerlega ómengaður af efnislegum hlutum. Anaxagóras segir að andinn hafi komið skipan á heiminn, en hann notar ekki andann til að útskýra tilgang eða markmið hluta. Og þetta finnur Platon helst að kenningu hans. Efnafræði Anaxagórasar er alls ekki óskyld eindakenningu Demókrítosar en hjá Anaxagórasi eru eindirnar óendanlega deilanlegar.
Demókrítos og atómistarnir kenndu að ekkert væri til nema eindir og tóm. Eindirnar voru ódeilanlegar, allar úr sama efni, en eru óendanlega margar og fjölbreytilegar að lögun. Eindirnar hafa samt bara frumlega eiginleika en ekki annarlega. Allar breytingar eru nýskipan eindanna og það eru vélræn lögmál sem valda þeim. Hreyfing þarfnast engra skýringa við. Það er náttúrulegt ástand eindanna að vera á hreyfingu. Það sem þarf að skýra er frekar breyting á hreyfingu t.d. hraða eða stefnu. Atómistarnir gerðu engan greinar mun á efni og anda. Sálin var efnisleg eins og allir aðrir hlutir en gerð úr einstaklega fíngerðum eindum. Kenning atómistanna er því efnishyggju- og vélhyggjukenning sem var Platoni auðvitað ekki að skapi.
Anaxagóras, Empedókles og Demókrítos eru uppi seinna en náttúruspekingarnir frá Jóníu. Á milli þeirra var uppi Parmenídes frá Eleu. Hann setti fram einhyggju með mjög sterkum rökum og hafnaði því að nokkur breyting eða hreyfing gæti átt sér stað. Anaxagóras, Empedókles og Demókrítos eiga það sameiginlegt að reyna allir að komast hjá niðurstöðum Parmenídesar og reyna að sætta hann á einhvern hátt við kenningar Herakleitosar sem kenndi að allt væri breytingum undirorpið.(2) Platon, sem var undir miklum áhrifum frá Parmenídesi (og reyndar Herakleitosi líka), fór aðra leið. Hann hafnaði náttúruspekinni.
Pýþagóringar höfðu aðra sýn á heiminn en náttúruspekingarnir af jónísku hefðinni, fjölhyggjumennirnir Empedókles og Anaxagóras, og atómistarnir. Þeir voru haldnir svolítilli stærðfræðiþráhyggju og höfðu dularfullar kenningar sem kváðu á um það að tölur og stærðfræðileg fyrirbæri lægju til grundvallar heiminum. Til marks um það hve dularfull þessi talnaeindahyggja er nægir að benda á þá trú þeirra að fyribæri eins og réttlæti væri talan fjórir, jöfn á alla kanta. Platon var sjálfur haldinn örlítilli stærðfræðiþráhyggju eins og pýþagóringarnir og var undir mun meiri áhrifum frá þeim en jónísku hefðinni.
Í eldri samræðum sínum gaf Platon ekki gaum að náttúruvísindum. Hann taldi að efnisheimurinn væri óstöðugur og síbreytilegur, ávallt verðandi, en væri aldrei neitt. Það er ekki hægt að búa yfir neinni þekkingu á slíkum heimi, aðeins brigðulum skoðunum. Heimur frummyndanna er aftur á móti raunverulegri; frummyndirnar eru, en verða aldrei. Þær eru ekki breytingum undirorpnar eins og skynheimurinn heldur eilífar og óforgengilegar. Frummyndirnar verða einungis höndlaðar með hugsuninni og aðeins þær eru viðfang eiginlegrar þekkingar. Þær eiga sér sjálfstæða tilvist utan tíma og rúms, óháð heimi sem við skynjum, sem er dauf eftirmynd þeirra. Einstakir hlutir eiga hlutdeild í frummyndunum. Fagrir hlutir eru fagrir vegna fegurðarinnar sem þeir eiga hlutdeild í, en ekki vegna annarra eiginleika.
Á frummyndakenningunni voru þónokkrir gallar. Platon gagnrýndi kenninguna sjálfur í samræðunni Parmenídesi og Aristóteles gagnrýnir hana í 1stu bók Frumspekinnar. Aristóteles nefndi aðal rökin gegn kenningunni Þriðja manninn. Hvað er það sem allir fagrir hlutir eiga sameiginlegt? Það er frummynd hins fagra. En er frummynd hins fagra sjálf fögur? Ef hún er það hlýtur að vera til eitthvað sem frummyndin og hlutirnir sem eiga hlutdeild í henni eiga sameiginlegt. Og ef það sem hlutirnir og frummyndin eiga sameiginlegt er líka fagurt þá fáum við vítarunu. Við komum aftur að frummyndakenningunni síðar, en geymum hana í bili.
Heimsfræði Platons
Í Tímajosi kveður við annan tón gagnvart náttúruvísindum og heimsfræði; þar telur Platon að efnisheimurinn sé verðugt rannsóknarefni. Núna er veröldin fögur og góð og áhersla lögð á það fremur en ófullkomleika hennar. Og Platon tekur að sér að gefa skýringu á tilvist þessa heims, úr hverju hann varð til, hvernig og af hverju. Greinarmunurinn á skoðun og þekkingu er eftir sem áður útgangspunktur í samræðunni. Það er hægt að þekkja það sem er eilíft og óbreytanlegt, en eingungis hafa skoðun á því sem sífellt er verðandi. “Eins og raunveruleikinn er gagnvart hinu verðandi, svo er sannleikurinn gagnvart skoðun”. Næst segir Platon okkur að allt sem verði til hljóti að eiga sér orsök. Í þriðja lagi gefur Platon sér að þegar fyrirmynd þess sem er skapað er hið eilífa og óbreytanlega þá verði afraksturinn góður, en annars ekki.
Það sem er sífellt verðandi og er viðfang skoðunar er efnisheimurinn, því hann er skynjanlegt og áþreifanlegt fyrirbæri. Slíkir hlutir hafa orðið til og eiga sér orsök; efnisheimurinn hefur því orðið til og á sér því orsök. Orsök þessa heims, sem Platon kallar skapara eða föður, er erfitt að koma auga á og útskýra fyrir mönnum. En skaparinn er góður og heimurinn líka og því hlýtur hann að hafa verið gerður eftir fyrirmynd sem eru eilíf og óbreytanleg.
Þá komum við aftur að frummyndunum. Þær eru fyrirmyndin sem heimurinn er gerður eftir. En núna er ekki lengur talað um að hlutir eigi hlutdeild í frummyndunum. Sambandið á milli frummyndanna og einstakra hluta er öðruvísi. Frummyndirnar sjálfar eru ekki í hlutunum né koma hlutir í frummyndirnar, heldur líkjast einstakir hlutir frummyndunum af því að þeir voru skapaðir þannig. Frummyndirnar eru ekki lengur orsakir í sama skilningi og áður, heldur aðeins fyrirmyndir. Skaparinn, eða guðinn, er núna orsök þess að hlutirnir eru eins og þeir eru. Heimur frummyndanna og hinn skynjanlegi heimur eru fullkomlega aðskildir. Af þessum sökum geta frummyndirnar ekki náð til sjálfra sín. Frummynd mannsins er til dæmis ekki sjálf maður. Með því að segja það værum við að þröngva upp á frummynd einkennum og eiginleikum efnislegra hluta. En heimur frummyndanna og efnisheimurinn eru algjörlega aðskildir.
Það er ef til vill lýsandi um afstöðu Platons hér að hann nefnir skaparann handverksmann eða iðnaðarmann á nokkrum stöðum. Iðnaðarmaður t.d. húsasmiður vinnur eftir ákveðinni fyrirmynd, teikningum af húsi. En teikningarnar eru ekki sjálfar hús. Með þessu móti getur Platon sneitt hjá vítarununni sem leiðir af Þriðja manninum. En nóg um frummyndir.
Næst komum við að guðinum, skapara heimsins. Þessi guð, sem Platon ímyndar sér, er ekki almáttugur eins og guð kristinna manna. Hann skapaði heldur ekki heiminn úr engu, heldur kom hann skynsamlegri skipan á efnið sem þegar var til. Það er hvergi dregið í efa að guð sé góður. Þvert á móti segir Tímajos að það sé guðlast að gefa annað í skyn. Og þar sem guðinn er góður og ófær um öfund eða afbrýðisemi vildi hann koma efninu sem þegar var til í betra ástand svo heimurinn gæti verið góður og væri eins líkur honum og mögulegt var; og röð og regla er betra ástand en óreiða. Efnið sem guðinn vinnur með er hins vegar ófullkomið. Þess vegna verður heimurinn aldrei alveg eins og fyrirmyndin.
Sumir hafa litið á guðinn sem myndlíkingu, þar á meðal Aristóteles. Ef sá póll er tekinn í hæðina er ef til vill eðlilegast að líta á hann sem persónugerving skynseminnar. Verk guðsins eru “hlutir skapaðir af skynsemi” en í Fílebosi er skynsemin æðsta orsökin. Stundum er guðinn einnig nefndur hin besta af öllum orsökum. Önnur túlkun er sú að guðinn og frummynd hins góða sé eitt og hið sama. Enda segir Platon í Ríkinu að
“… hún [frummynd hins góða] sé orsök alls sem er rétt og fargurt og að hún sé foreldri ljóssins í hinum sýnilega heimi og gjafara þess; ennfremur að á hinu huglæga sviði, þar sem hún er sjálf drottning, sé hún höfundur sannleika og hugsunar…”
Þetta er vafasamari túlkun. Ríkið er eldri samræða og þar eru frummyndirnar sjálfar orsakir. Til að komast hjá gagnrýninni í Parmenídesi virðist Platon breyta hlutverki frummyndanna örlítið svo að í Tímajosi eru þær í það minnsta ekki lengur samskonar orsakir. Enn fremur skapar guð heiminn eftir ákveðinni fyrirmynd, en ef hann er frummynd hins góða er hann sjálfur fyrirmyndin. Platon segir ekkert um að guð hafi skapað heiminn í sinni eigin mynd. Hann segir einungis að guðinn hafi viljað að heimurinn væri góður eins og hann. Það má líka spyrja hvers vegna Platon segi það ekki skýrum orðum að um frummynd hins góða sé að ræða svo það fari ekki á milli mála og hvers vegna hann talar allt í einu um guð ásamt frummyndunum. Margir kristnir platonistar héldu því fram að frummyndirnar væru hugmyndir í huga guðs, hann byggi þær til með því að hugsa þær.
Áður hefur komið fram að heimurinn hafi ekki verið skapaður úr engu heldur hafi guð aðeins komið röð og reglu á efnið sem þegar var til. En það var aðeins frumstæður vottur af því efni sem heimurinn er gerður úr, sem var til áður en guð kom reglu á tilveruna. Frumefnin fjögur, sem Empedókles talaði um að væru rætur, jörð, vatn, loft og eldur, voru ekki til heldur þurfti guð að skapa þau. Heimurinn varð að vera áþreifanlegur og til þess þarf jörð. Hann þurfti einnig að vera sýnilegur og til þess þarf ljós og þar með eld. En tveir hlutir geta ekki verið vel sameinaðir án þess að sá þriðji komi til og þar sem heimurinn á ekki að vera tvívíður heldur þrívíður þarf einnig þann fjórða. Því eru frumefnin fjögur, og vatni og lofti var bætt við. Frumefnin eru ávallt í ákveðnum hlutföllum innbyrðis: Jörð er fyrir vatn eins og vatn er fyrir loft; vatn er fyrir loft eins og loft er fyrir eld. Það er ekki alveg ljóst hvers vegna tveir hlutir geta ekki verið vel sameinaðir án þess að sá þriðji komi til. Enda minnist Aristóteles á þetta og nefnir leir sem er blanda af jörðu og vatni.
Platon nefnir frumefnin fjögur en þau eru síður en svo hin endanlegu frumefni hjá honum. Hann heldur áfram og greinir þau niður í stærðfræðileg fyrirbæri og tómarúm. Tvenns konar þríhyrningar liggja til grundvallar: a) rétthyrndir þríhyrningar þar sem lengd langhliðarinnar er tvöföld lengd styttri skammhliðar (hornin eru: 90°/60°/30°) og b) rétthyrndir jafnarma þríhyrningar (hornin eru: 90°/45°/45°). Þessir þríhyrningar mynda ferninga eða jafnhliða þríhyrninga sem eru hliðarnar í fjórum tegundum fjölflötunga sem eru eins konar sameindir frumefnanna. Hver ferningur er settur saman úr fjórum rétthyrndum jafnarma þríhyrningum (lýst í b-lið). Sex ferningar mynda saman tening (alls 24 rétthyrndir úr b-lið) sem er sameind jarðar. Hver jafnhliða þríhyrningur er settur saman úr sex rétthyrndum þríhyrningum með langhlið sem er tvöföld styttri skammhliðin að lengd (lýst í a-lið). Fjórir slíkir jafnhliða þríhyrningar mynda saman fjórflötung (alls 24 þríhyrningar úr a-lið) sem er sameind elds. Átta jafnhliða þríhyrningar mynda saman áttflötung (alls 48 þríhyrningar úr a-lið) sem er sameind lofts. Tuttugu jafnhliða þríhyrningar mynda saman tvítugflötung (alls 120 þríhyrningar úr a-lið) sem er sameind vatns.
Frumefnin geta nú breyst úr einu í annað með því að sameindir þeirra leysast upp og þríhyrningarnir raða sér saman á annan hátt. Jörð getur reyndar ekki orðið að öðrum efnum því í frumefninu jörð eru grunnþríhyrningarnir öðruvísi en í hinum frumefnunum. Ein loftsameind ætti hins vegar að geta leyst upp í tvær eldsameindir og eins með hin frumefnin – þau geta breyst úr einu í annað.
Við sköpunina notaði guð allt efnið sem var til staðar og tryggði þannig að heimurinn væri einstakur. Ef nokkur afgangur hefði verið af efninu, hefði verið hægt að búa til annan heim. En þar sem fyrirmyndin er einstök verður heimurinn – eigi hann að vera góð eftirmynd – einnig að vera einstakur. Hér er Platon á öndverðum meiði við atómistana sem héldu því fram að til væru óendanlega margir heimar.
Áður en guð tók til starfa var til, auk hans, efnið sem hann vinnur með, frummyndir og að lokum einhvers konar geimur eða rými. Þessi geimur, sem Platon kallar stundum ílát eða einfaldlega rúm, hefur enga skynjanlega eiginleika, ekkert form. Rúmið mótast af því sem kemur í það. Það sem er í rúminu eru eftirlíkingar af frummyndunum, búnar til úr efninu sem guð kom reglu á, en frummyndirnar koma aldrei í rúmið sjálfar.
Þar sem heimurinn hefur verið búinn til getur hann ekki verið eilífur eins og fyrirmyndin. En með því að í heiminum er ímynd af eilífðinni er hann þeim mun líkari fyrirmyndinni. Og þessi ímynd af eilífðinni hreyfist og sú hreyfing er tíminn þ.e.a.s. tíminn er hreyfing sólarinnar, tunglsins og stjarnanna fimm sem Platon þekkti. Spurningin um það hvort guð skapaði heiminn á einhverjum tímapunkti eða ekki er strangt til tekið ekki viðeigandi. Því guð skapaði tímann um leið og hann skapaði heiminn. Heimurinn er hvorki eilífur né óendanlegur en utan hans er ekki einu sinni tími eða rúm. Það sem er utan hans, guð og frummyndirnar, er handan við tíma og rúm. En þó heimurinn sé ekki nauðsynlega eilífur mun hann vara að eilífu fyrir náð guðs því það sem er vel sett saman ætti ekki að taka í sundur aftur.
Heimurinn er gerður eftir frummynd lífverurnnar og er því sjálfur lífvera. Það var reyndar nokkuð algengt á meðal frumherja grískrar heimspeki að álíta heiminn í einhverjum skilningi vera lifandi. Heimurinn hefur eins og aðrar lífverur sál og hann hefur vitsmuni, því það sem hefur vitsmuni er betra en það sem er án þeirra. Heimssálin er búin til úr þremur hlutum, samsemd, breytileika og einhverju sem verður til við sameiningu þessara fyrirbæra. Þar sem ekkert rúm er til fyrir utan heiminn hefur heimurinn ekkert að fara og því þarf hann ekki útlimi eins og önnur dýr. Þar er heldur ekkert skynjanlegt og því hefur hann engin skynfæri. Þess vegna gerði guð heiminn hnattlaga, nánar tiltekið að tólfflötungi, en yfirborð hans er úr fimmhyrningum.
Mannssálir eru búnar til úr afgangi þess efnis sem fór í heimssálina. Guð skapaði ódauðlega hluta sálarinnar, skynsemishlutann, en hinir guðirnir (Ólympsguðir og aðrir í grískum trúarbrögðum), sem eru sjálfir skapaðir af sama guði, sköpuðu aðra hluti sálarinnar, þ.e. þá hluta sem hafa skap og langanir. Allt sem hefur orðið til getur farist og þar með sálin líka. Hún er ekki ódauðleg í orðsins fyllstu merkingu, eins og Platon hafði reynt að sína fram á í Fædoni. En aðeins skaparinn getur tekið í sundur það sem hann hefur sett saman. Hann er góður og fyrir hans náð mun sálin vara að eilífu. Í þeim skilningi er hún ódauðleg. Sálin ferst ekki við það að líkaminn deyji. Aftur á móti er það einungis skynsemishluti sálarinnar sem hefur þennan annars stig ódauðleika.(3) Aðrir hlutar sálarinnar farast við dauða líkamans. Þeir eru hvorki ódauðlegir eins og guðinn og frummyndirnar sem geta ekki farist, né eins og skynsemishluti sálarinnar og aðrir guðir sem gætu farist en munu aldrei gera það fyrir náð skaparans. Eftir dauða virðast sálirnar búa á meðal stjarnanna, sem eru eins konar guðir og hafa sjálfar sálir. Þegar sálirnar eru á meðal stjarnanna og eru í fullkomlega skynsömu ástandi segir skaparinn þeim frá örlögunum. Þær fara síðan til jarðar og taka sér bólstað í mönnum. Þá fyrst fá þær aðra og óæðri parta tengda við sig. Óréttlátar sálir endurtaka þetta ferli endurholdgunar á meðan réttlátar sálir komast á endanum út úr því.
Að lokum inniheldur heimurinn allar þær tegundir lífvera sem geta mögulega verið til. Án þeirra væri hann frábrugðnari fyrirmynd sinni, frummynd lífverunnar. Lífverurnar flokkar hann saman í fjóra flokka sem samsvara frumefnunum fjórum. Guðlegar verur samsvara eldinum,(4) vængjaðar verur samsvara loftinu, vatnaverur samsvara vatninu og landdýr samsvara jörðinni.
Lokaorð
Hér hefur verið gerð grein fyrir meginatriðum í heimsfræði Platons. En það er tímabært að slá nokkra varnagla. Það getur verið að Platon hafi alls ekki haft þessar skoðanir. Sumir fræðimenn hafa haldið því fram að í Tímajosi sé einungis að finna einhvers konar greinargerð Platons fyrir pýþagórískum kenningum 5. aldar f.Kr í bland við líffræði Empedóklesar. Vissulega ber samræðan vott um áhrif frá bæði pýþagóringum og Empedóklesi. Áhrifa frá Empedóklesi gætir einkum í líffræði og lífeðlisfræði sem koma fyrir í samræðunni. Hér gefst ekki rými til að fjalla um þau efni enda koma þau heimsfræðinni sem slíkri ekkert við.
Pýþagóringar töluðu um andstæður eins og: takmarkað og ótakmarkað, jafnt og ójafnt, einingu og fjölda, hægri og vinstri, hvíld og hreyfingu, beint og bogið, ljós og myrkur, gott og illt, ferningslaga og ílangt, karlkyn og kvenkyn. Hið seinna í hverju pari var verra og óæðra. Í Tímajosi segir: “…og þar sem mannkyn er tvískipt skal það kyn, sem er æðra, hér eftir vera auðkennt “maður”…” Stuttu seinna heldur hann áfram: “…en hver sá, sem hefur mistekist þetta [að lifa lífi sínu vel og réttlátlega], skal endurfæðast sem kona…” Samkvæmt þessu eru þær sálir sem nú lifa í líki kvenna að taka út refsingu fyrir fyrri misgerðir. En þetta fer illa saman við margt sem Platon skrifaði áður (t.d. í Ríkinu) og átti eftir að skrifa seinna (t.d. í Lögunum). Þar er hann málsvari jafnréttis kynjanna. Í Ríkinu þykir Platoni sjálfsagt að konur taki þátt í stjórnmalum; í Lögunum þykir honum sjálfsagt að þær gegni herþjónustu. En höfum í huga að það er ekki Platon sjálfur sem hefur orðið heldur Tímajos nokkur frá Lokrí á S-Ítalíu. Um hann er ekkert vitað nema það sem fram kemur í samræðunni. Það kemur hvergi fram að hann sé pýþagóringur en hann er persóna sem Platon skapar (eða byggir á einhverri fyrirmynd) og það þarf ekki að koma á óvart að Platon ljái ræðu hans ýmis einkenni til að gera hann trúverðugri sem voru ekki skoðanir Platons sjálfs. Hafi Platon viljað gefa í skyn að Tímajos þessi hafi verið tengdur pýþagóringum gæti hann einmitt hafa gert það með þessum hætti. En þó Platon gefi persónu Tímajosar nokkur einkenni með þessum hætti er ekki þar með sagt að öll frásögnin sé endursögn á kenningum pýþagóringa. Þess má geta að ræða Tímajosar í samræðunni er sennilega lengsti kafli samfellds máls í öllum samræðum Platons. Myndi hann eyða öllu því púðri í aðrar skoðanir en sínar eigin?
Ennfremur hefur samræðan verið afgreidd sem goðsaga sem Platon segir. Það er erfitt að líta svo á þegar samtímamaður Platons og samstarfsmaður við Akademíuna, Aristóteles, fer með hana eins og hún geymi skoðanir Platons sjálfs. Aristóteles vitnar reyndar oftar í Tímajos en nokkra aðra af samræðum Platons. Og margt í samræðunni þolir það alveg að vera tekið bókstaflega. Þar að auki setur Platon sinn eigin fyrirvara á það sem fram kemur. Hann segir að hér sé einungis um líklega greinargerð að ræða, en um þessi mál verði ef til vill aldrei neitt vitað með vissu. Og ef eitthvert ósamræmi er í frásögninni, þá sé einungis við því að búast þegar haft er í huga hvert viðfangsefnið er. Um síbreytilegan efnisheiminn, sem er aldrei neitt en er sífellt verðandi, verður hvort eð er ekkert vitað með vissu.
Heimsfræðin sem Platon setti fram í Tímajosi er á vissan hátt fágaðri en heimsfræði nokkurs heimspekings fram að þeim tíma. Einungis heimsfræði Aristótelesar átti eftir að standast samanburð við hana alla fornöldina. Menn hafa tilhneigingu til að hefja Demókrítos til skýjanna fyrir frumeindakenningu sína enda tölum við enn um frumeindir (atóm) í dag. En hafa ber í huga að þær hugmyndir sem við höfum um frumeindir eru töluvert frábrugðnar hugmyndum Demókrítosar og ef til vill nær hugmyndum Platons. Platon var á vissan hátt atómisti; hann aðhylltist stærðfræðilegan atómisma. Demókrítos er nútímalegri að því leyti einu að kenning hans er ekki markhyggjukenning.
__________________________________________________________
(1) Þær samræður eru yfirleitt taldar vera Stjórnmálamaðurinn, Fræðarinn (Sófistinn), Tímajos, Krítías, Fílebos og Lögin. Stundum eru Parmenídes og Þeætetos taldar með í þessum hópi.
(2) Herakleitos var reyndar líklega ekki svona róttækur. Hann hélt að öllum líkindum fram að stöðugleiki byggi að baki ringulreiðinni allri og þann stöðugleika gætu menn skilið. Enda segir hann í einu broti að augu og eyru séu slæm vitni fyrir menn með barbara-sálir. Platon og flestir fornmenn túlkuðu hann hins vegar á róttækari hátt, enda var Platon undir áhrifum frá Kratylosi, nemanda Herakleitosar, sem var öllu róttækari. Sá hélt því m.a. fram að tilgangslaust væri að segja nokkuð því um leið og maður hefur sleppt orðinu hafa hlutirnir, sem maður var að enda við að vísa til, breyst og hætt að vera þeir sömu og þeir voru áður. Þess vegna hætti hann, er okkur sagt, alfarið að tala en tók að hreyfa puttann í staðinn og benda á hlutina.
(3) Aðrir guðir eins og Ólympsguðir virðast vera í sömu stöðu og skynsemishluti mannssálarinnar.
(4) Hér á Platon líklegast bara við himneska guði, þ.e. stjörnurnar.
___________________________________