Segja má að Robert Nozick hafi tvenn rök fyrir tilkallskenningu sinni. Þau ég ætla að ræða í stuttu máli hér á eftir.

Fyrri rökin er saga sem er sambærileg við þá sem Þorsteinn Gylfason hefur kallað Ólandssöguna í ritgerðinni “Hvað er réttlæti?”. Saga Nozicks fjallar reyndar um Wilt heitinn Chaimberlain, körfuknattleikskappann sem sem lést ekki alls fyrir löngu, en ekki um óperusöngvara en kjarni hennar er sá hinn sami. Nozick (og Þorsteinn) biður lesandann um að ímynda sér þjóðfélag sem er réttlátt og á það engu að skipta hver kredda lesandans er um réttlæti. Hún má vera sú að hver og einn vinni eftir getu en uppskeri eftir þörfum; eða sú að hæstu launin megi ekki vera hærri en þau lægstu fjórföld. Þetta á ekki að breyta neinu. Nú kemur til sögunnar skemmtikraftur sem sest að í draumalandinu. Hann skemmtir fjöldanum sem glaður í bragði borgar aðgangseyrinn sem þó er ekki svo mikill. En margt smátt gerir eitt stórt hefur verið sagt og fyrr en varir er skemmtikrafturinn orðinn moldríkur. Nú hefur eitthvað breyst í hinu réttláta þjóðfélagi. En skiptasagan er alveg réttlát að mati Nozicks. Hvernig getur þá á því staðið að þjóðfélagið eftir breytinguna er ef til vill orðið ranglátt nú þegar einn þegnanna er orðinn margfallt ríkari en allir hinir? Allt var í upphafi réttlátt og skiptasgan er réttlát – hvað fór úrskeiðis? Nozick þarf ekki að hafa áhyggjur af því að útskýra það því að hans mati er þjóðfélagið enn réttlátt.

Seinni rökin er lögmál sem Nozick gefur sér: að hver maður eigi sjálfan sig – sjálfseignarlögmál. Þar með á maður hæfileika sína líka og á tilkall til alls þess sem af manni og hæfileikum sínum flýtur.

Fyrri rökin notar Nozick gegn hvers kyns lyktakenningum (lyktalögmálum) um skiptingu gæða. En til þess að Ólandssagan gangi upp þarf Nozick að hafa í kenningu sinni óskoraðan og algerlega friðhelgan eignarrétt. Hann gefur Nozick sér án allra raka. En slíkt þyrfti hann eiginlega að rökstyðja því slíkur eignarréttur kemur manni spánskt fyrir sjónir – slíkur eignarréttur þekkist ekki; hann er til að mynda hvergi til í lögum. Ólandssagan gengur ekki upp nema í upphafsaðstæðunum gildi regla Nozicks (þ.e. um eignarrétt). Svo má einnig benda á það að saga Nozicks bítur alls ekkert á hvaða kreddu sem er. Ef skemmtikraftur kemur í þjóðfélag þar sem allir vinna eftir getu en uppskera eftir þörfum hvers vegna á þá annað að gilda um hann? Til að Nozick nái að leiða í ljós það sem hann vill með sögunni þarf hann að hafa “double standard” þarna. Því þegar skemmtikrafturinn kemur til fyrrnefnds lands ætti það sama að gilda um hann og alla aðra auðvitað – og hann þar af leiðandi að skemmta eftir getu en uppskera eftir þörfum, þ.e. ef það er kreddan sem við veljum.

Um seinni rökin má geta benda á það að enginn maður er alfarið skapari verka sinna (ekki einu sinni hugverka sinna). Gerum t.d. ráð fyrir því að allir séu jafnir að hæfileikum. Sumir leggja rækt við hæfileika sína en aðrir ekki. Það er ekki bara manni sjálfum að þakka að maður lagði rækt við hæfileika sína, þeir eru ekki alfarið manns eigið verk. Maður hefur alist upp í samfélagi við aðra og þessir aðrir eiga mikinn þátt í því að maður hefur haft tækifæri á því að leggja rækt við hæfileika sína og til vaxa úr grasi og þroskast. Á sama hátt er það ekki sjálfgefið að það sé manni sjálfum að kenna ef maður hefur ekki lagt rækt við hæfileika sína.
___________________________________