Tvíhyggja (dualism) um líkama og sál, hug og heila kveður annað hvort á um það að það séu til tvenns konar verundir, andlegar og efnislegar (veruleikatvíhyggja, substance dualism), eða aðeins ein tegund verunda en með tvenns konar eiginleika eða tvenns konar birtingarform (eiginleikatvíhyggja, property dualism).
Samkvæmt veruleikatvíhyggju eru efnislegir hlutir og huglægir hlutir ólíkar tegundir verunda. Hugurinn er sjálfstæð verund sem býr í líkama, hugsanlega bara tímabundið (sbr. pýþagóringa, Platon, Descartes ofl.) Descartes er frægasti tvíhyggjusinni nýaldar. Hann sagði að hið andlega hefði ekki rúmtak eins og hið efnislega heldur væri eðli þess að hugsa (kartesísk tvíhyggja; efni er reyndar ekki lengur skilgreint út frá rúmtaki heldur miklu frekar hleðslu en ekki meira um það).
Tvær útgáfur eru til af veruleikatvíhyggju, svokölluð víxlverkunarútgáfa (interactionism) og hins vegar hliðstæðuútgáfa (parallelism). Descartes félli undir fyrri útgáfuna. Samkvæmt henni eru gagnkvæm orsakartengsl milli hins efnislega og hins andlega. Samkvæmt hliðstæðuútgáfunni eru aftur á móti ekki gagnkvæm orsakartengsl. Hið andlega og hið efnislega gerist þá samhliða, eins og tvær samstilltar klukkur (sbr. Leibniz). Samstillingarkenningar byggja yfirleitt allt á guði.
Eiginleikatvíhyggja heldur ekki fram tveimur mismunandi tegundum verunda, andanum og efninu, heldur andlegum eiginleikum og efnislegum eiginleikum (eða andlegu og efnislegu birtingarformi). Algengasta útgáfan af eiginleikatvíhyggju er aukagetuhyggja (epiphenomenalism). Samkvæmt henni eru ekki gagnkvæm orsakartengsl heldur er um einstefnu að ræða – efnislegir eiginleikar hafa orsakaráhrif á andlega eiginleika, en ekki öfugt. Andlegu eiginleikarnir hafa ekki orsakaráhrif, þeir eru aukageta eða hliðarverkun. Þetta þýðir að hversdagslegar skýringar á athöfnum okkar sem taka mið af löngunum, ákvörðunum okkar o.s.frv. eru rangar. Athafnir manna eru einungis orsakaðar af heilaferlum. Einnig er til grunneiginleikakenning (interactionist property dualism, sbr David Chalmers). Hún er líka eiginleikatvíhyggja nema hvað um er að ræða gagnkvæm orsakaráhrif á milli efnislegra og andlegra eiginleika.
Rök fyrir tvíhyggju eru eru auðvitað margvísleg, til dæmis þau sem kallast á ensku argument from religion og felast í því að ef maður hafnar tvíhyggju hljóti maður að hafna trúarbrögðum heimsins líka sem byggja flest á tvíhyggju. Þetta er reyndar ástæða til að vilja trúa á tvíhyggju frekar en rök fyrir henni. Sjálfsskoðunarrökin felast í því að þegar maður leiðir hugann að vitund sinni verði maður var við allt aðra hluti en eðlisfræðileg fyrirbæri. En þetta eru gölluð rök þar sem gert er ráð fyrir að sjálfsskoðun geti veitt okkur örugga vitneskju, að hún sýni okkur hlutina eins og þeir eru; en hvers vegna ætti hún að gera það frekar en önnur skynjun okkar? Íbyggni (intentionality) er stundum notuð sem rök fyrir tvíhyggju; flest andleg fyrirbæri hafa íbyggni þ.e. þau beinast að einhverju og þau fjalla um eitthvað. Þetta gildir almennt ekki um aðra hluti en þá sem við köllum andleg fyrirbæri. Finningum (qualia) er erfitt að gera grein fyrir efnislega. En finningar eru hráar upplifanir eins og t.d. það að sjá rautt, upplifun af rauðu. Rökin um ósmættanleika huglægra fyrirbæra ganga út á það að það sé ekki hægt að smætta öll huglæg fyrirbæri í efnisleg ferli, jafnvel þótt þau séu ef til vill orsökuð af efnislegum ferlum (þetta kveður t.d. kenning Donalds Davidsons á um, sem hann nefnir anomolous monism). Og að lokum vilja sumir meina að tvíhyggjan eigi að geta útskýrt fyrirbæri eins og fjarhrif, skyggnigáfu og hvað þetta heitir allt saman í dulspekinni. Íbyggnin, finningarnar og rökin um ósmættanleika huglægra fyrirbæra eru langtum sterkustu rökin fyrir tvíhyggjunni, í það minnsta af þeim sem ég hef nefnt.
Gegn víxlverkunarútgáfu veruleikatvíhyggjunnar má nefna samskiptavandann þ.e. vandann um það hvernig skýra eigi tengsl tveggja gjörólíkra verunda. Hvernig getur andinn haft áhrif á efnið og öfugt? Á hliðstæðuútgáfunni er sá galli að ekki er hægt að fá úr því skorið hvort guð sé til eða ekki (hefur að minnsta kosti ekki fengist svar við því ennþá) og þar með er ekki hægt að skýra hver stillir hið andlega og hið efnislega þannig að það sé samstíga? Gegn aukagetuhyggjunni hafa menn t.d. það að hún geti ekki skýrt hvernig andlegir eiginleikar hafi orsakarmátt, en okkur virðist augljóst að svo sé.
Rök efnishyggjumanna gegn tvíhyggju almennt eru m.a. þau að efnishyggjan sé einfaldari kenning (sbr Rakhníf Ockhams) en hafi jafn mikinn ef ekki hreinlega meiri skýringarmátt. Reikningsgetu, minni, suma hegðun og margt fleira má útskýra lífeðlisfræðilega; einnig minnistap, breytingar á hegðun o.fl. sem orðið getur við heilaskemmdir eða eru orsakaðar af lyfjum. Þróunarrökin ganga út á það að við erum verur sem hafa þróast á þann hátt að við höfum flóknari taugakerfi en aðrar lífverur. Þess vegna erum við fær um ýmislegt eins og að nota tungumál, reikna flókin dæmi o.fl. Það bendir allt til þess að það sé tilviljun ein. Þá er að lokum mögulegt að efnishyggjan geti skýrt fyrirbæri eins og fjarhrif og skyggnigáfu og það allt saman, ef það er þá til á annað borð, betur en tvíhyggjukenningar.
Hér á Heimspeki á Huga.is hefur mikið verið rætt um efni eins og tilgang lífsins og líf eftir dauðann. Oftar en ekki minnist einhver á sálina. En hver sem vill komast áfram í umræðu sem fer að snúast um sálina verður fyrr eða síðar að taka þessi rök sem nefnd eru að ofan til greina og gera það upp við sig hver þeirra hann vill játa og hverjum hann vill hafna; hvort hann vill halda fram efnishyggju eða tvíhyggju.
___________________________________