Herakleitos var fæddur í Efesos í Jóníu, Litlu Asíu (540 – 475 f.Kr.) Vitað er af heimildum að hann er yngri en Pýþagoras en eldri en Parmenídes. Herakleitos er sagður hafa verið hrokafullur og fékk hann viðurnefnið skoteimos (hinn myrki) Hann talar stundum eins og spámaður sem fengið hefur einhverja opinberun, þó ekki trúarlega, en engu að síður eins og hann hafi “séð ljósið”. Sumar heimildir segja hann hafa verið af konungsætt sem hafði verið steypt af stóli. Aristóteles nefnir að hann hafi ritað a.m. k. eina bók, en segir ekkert um innihald hennar (heldur setur aðeins út á stafsetningarvillurnar.) Brotin, þau sem eru varðveitt eru eftir hann, eru þó eflaust flest úr þessari bók.

Herakleitos var höfundur nýrra hugmynda í stórum stíl, sem virðist ekki eiga sér hliðstæðu hjá eldri höfundum, en skjóta svo upp kollinum hvað eftir annað æ síðan. Sem dæmi má nefna hugmyndina um alheimslögmál - logos - sem lifir góðu lífi enn þann dag í dag.
Herakleitos gerði einnig greinarmun á sýnd og reynd. Þetta er mikið aðalatriði hjá honum – undirstaða heimsmyndar hans. Einnig gerði hann greinarmun á skynjun og synsemi, svo og á afstæði og algildi (hinu einstaklingsbundna og hinu almenna).

Heraleitos gerir greinarmun á afstæðum sjónarmiðum - vegurinn upp og vegurinn niður er einn og hinn sami. Þetta er þekkingarfræðileg pæling. Hann gerir einnig greinarmun á afstæðum þörfum, og tekur sem dæmi vatn sem er fiskum lísnauðsyn en getur verið mönnum lífshættulegt. En þetta hefur ekkert með þekkingu að gera heldur veruleikann. Hérna er því frumspekileg pæling um afstæði, algildi o.þ.h. Hann segir að logos (lögmálið) sameini andstæðurnar í “harmonia” (samhljómi, orð Pýþagorasar.)) Herakleitos hefur mörg orð um logos en útskýrir aldrei nákvæmlega hvað felst í því, hvað það er.

Herakleitos segir eldinn vera frumaflið. Þó ekki í eiginlegum skilningi heldur segir hann eldinn vera táknmynd sem hann noti. Hann átti ekki við að frumaflið væri “bál”. Á einum stað segir hann eldinn vera gjaldmiðil, eins og gull. Eldurinn er það sama og logos (lögmálið, vitið), en hann virðist vera fyrstur til að nota
þetta gríska orð á heimspekilegan hátt en það átti eftir að gegna mikilvægu hlutverki hjá stóumönnum síðar.

Samkvæmt Herakleitosi er allt á hverfanda hveli. “Panta hrei” (allt er á hreyfingu, allt flæðir) er haft eftir honum (þó líklegra sé að Kratylos, fylgjandi hans, hafi látið þau orð falla). Allt er breytingum undirorpið og ekkert stendur í stað. “Þú stígur ekki fætinum tvisvar í sömu ána” er einnig haft eftir honum (eftir Kratylosier raunar haft að maður gæti ekki einu sinni stigið einu sinni í sama fljótið). Samkvæmt honum ber að treysta á skynfæri okkar - en þó ekki eingöngu.

Andstæðurnar gegna mikilvægu hlutverki í kenningum Herakleitosar. Þær takast á í eilífu stríði, en eru þó jafnframt eitt. Þetta er kenningin um sameiningu andstæðna; hún er ein frægari kenning Herakleitosar. “Dagur og nótt eru eitt.” “Einn og sami hlutur getur verið tvennt í senn, leiðin upp og leiðin niður.” (sem einnig má túlka sem undirstrikun á greinarmuninum á afstæði og algildi). Andstæðurnar tengjast innbyrðis - annars væru þær ekki andstæður. Að skilja andstæðurnar er að skilja þessi tengsl - og öfugt. Andstæðurnar koma fram í skynjun en sameinast í skilningnum (hugsuninni). Það ber að hafa það í huga að tal Herakleitosar um andstæður er ekkert eitt; hann veltir upp þekkingarfræðilegum hliðum jafnt sem frumspekilegum.

Kenningu Herakleitosar um sameiningu andstæðna má skilja á ýmsa vegu:
a) Hlutir hafa andstæða eiginleika (fyrir alla hluti x og alla eiginleika F gildir: ef x er F þá er x einnig ekki-F; einnig til í veikara formi: fyrir alla hluti x og suma eiginleika F gildir: ef x er F þá er x einnig ekki-F).
b) Andstæður tengjast (en hlutir þurfa ekki að búa yfir báðum í senn).
c) Andstæður eru háðar hver annarri. En í hvaða skilningi eru þær háðar? Verufræðilega háðar: Eiginleikinn C getur ekki verið til nema andstæði eiginleikinn C' sé einnig til. Þekkingarfræðilega háðar: Eiginleikann C er ekki hægt að þekkja (eða skynja) nema andstæði eiginleikinn C' sé einnig þekktur (eða skynjaður). Sumir segja að verufræðilega túlkunin feli þá þekkingarfræðilegu í sér.

Hvernig tengist sameining andstæðna lögmálinu eða logos? Logos er vitið í heiminum, það sem gerir okkur kleift að skilja tengsl andstæðna og síbreytileika heimsins. Skynjanir einar saman geta ekkert sagt okkur af viti um heiminn, hann er óskiljanlegur þeim sem treystir bara á skynfæri sín. Andstæður koma fram í skynjun en sameinast í hugsun. Þetta tengist líka flæðinu því heimurinn er eitt flæði; allt er á hverfanda hveli!
___________________________________