Altök eru altæk hugtök; þau eru almennir eiginleikar sem geta átt við marga hluti. Vensl (eða tengsl) eru líka altök. Þegar ég segi að Sókrates sé hugrakkur vísa ég til altaksins “hugrekki”; þegar ég segi að eplið sé rautt vísa ég til altaksins “hið rauða”. Bæði altökin geta auðvitað átt við um fleiri einstaklinga eða hluti. En eru þessi altök í einhverjum skilningi til? Segja má, í grófum dráttum, að menn hafi svarað þessu með tvennum hætti, hluthyggju og nafnhyggju.

Hluthyggja um altök (metaphysical realism, stundum einnig nefnt platonism) kveður á um það að altökin eigi sér tilvist óháð hugmyndum okkar um þau. Til eru ýmis afbrigði af hluthyggju um hugtök t.d. ante-res hluthyggja (eins og frummyndakenning Platons). Samkvæmt henni eiga altökin sér sjálfstæða tilvist; þau koma á undan hlutunum í ákveðnum skilningi. Það er mögulegt að til sé altak sem enginn hlutur tjáir eða á hlutdeild í. (Reyndar eru vensl á milli hluta og frummynda eða altaka í kenningu Platons óljós, því frummyndirnar koma ekki aðeins á undan frummyndunum heldur tjá hlutirnir altökin án þess að altökin séu nokkurn tímann í hlutunum – sjá nánar um þetta í Tímajosi 52A)(1)

Einnig er til in-rebus hluthyggja en samkvæmt henni eiga altökin sér ekki sjálfstæða tilvist gagnvart hlutunum, heldur eru þau í hlutunum og því verður sérhvert altak að vera tjáð af einhverjum hlut. Altakið “hið rauða” er því ekki til nema að til séu rauðir hlutir eða í það minnsta einn slíkur. Altakið mannkyn getur ekki verið til nema til séu menn. Algengt er að túlka Aristóteles sem svo að hann hafi haldið fram in-rebus hluthyggju.

Andstæð hluthyggju um hugtök er nafnhyggjan (nominalism). Samkvæmt henni eru altökin ekki til í sama skilningi – þau eru bara nöfn sem við notum til hagræðingar. Nafnhyggjumenn halda fram að ekkert sé til nema einstakir hlutir eða söfn einstakra hluta. Einnig eru til mörg afbrigði af nafnhyggju en of langt mál yrði að útlista þau öll hér. Frægir nafnhyggjumenn úr heimspekisögunni eru t.d. William of Ockham, og úr samtímanum W.V.O. Quine.

Hluthyggja hefur verið margvíslega gagnrýnd. Þekktustu mótrök gegn ante-res hluthyggju eru þau sem Platon setur sjálfur fram í Parmenidesi og Aristóteles setur fram í örlítið annarri mynd og hafa þá verið nefnd þriðjamanns-rökin. Þau eru þannig:
Það sem allir rauðir hlutir eiga sameiginlegt er rautt sjálft (annað er fráleitt). Þá á frummyndin (eða altakið) sem sjálft er rautt, eitthvað sameiginlegt með rauðum hlutum og því verður til önnur frummynd og þannig áfram endalaust.

Önnur útgáfa: Eplið er rautt – þá – Eplið felur í sér hið rauða/tjáir hið rauða – þá – Eplið felur í sér að fela í sér hið rauða/tjáir það að tjá hið rauða – þá - ……… M.ö.o. vítarunurök. Svar við þessari gagnrýni gæti verið á þá leið að “Eplið er rautt” og “Eplið felur í sér / tjáir hið rauða” þýði það sama; munurinn á setningunum sé einasta málfræðilegur, en “Eplið er rautt” og “Eplið felur í sér að fela í sér hið rauða / tjáir það að tjá hið rauða” þýði aftur á móti ekki það sama. Aðrir verjast á annan hátt og segja að vítarunan skipti ekki máli.

Nafnhyggjumenn segjast líka ekki skilja hvernig eitt og sama altakið geti verið á mörgum stöðum samtímis. Þetta bítur ekki á Platon því altökin eru ekki í hlutunum alls í hans kenningu þótt þau standi í einhvers konar venslum eða tengslum við hlutina

Að lokum verjast hluthyggjumenn með því að sýna fram á að nafnhyggjan eigi við sams konar vanda að stríða (nema að í stað altaks komi mengi) og því sé hún í það minnsta jafn góð skýring og hver önnur.

Það hefur sem sagt reynst hluthyggjumönnum erfitt að útskýra hvernig margir einstakir hlutir geta haft sama eiginleikann. Eiginleikar eru almennir og allir rauðir hlutir hafa sama rauða eiginleikann. Nú ætla ég að kynna til sögunnar nýtt hugtak, eiginlíki.

Eiginlíki eru ekki almenn. Engir tveir rauðir hlutir hafa sama rauða eiginlíkið, þeir hafa hver sinn rauðleikann. Eins og Quine komst að orði: “No entity without identity”. Samkvæmt nafnhyggju eru bara til einstakir hlutir; samkvæmt eiginlíkjakenningum eru bara til einstakir eiginleikar – ekki almennir eiginleikar. Samkvæmt kenningu heimspekingsins D.C. Williams er altak mengi eiginlíkja. Altakið á sér samt ekki sjálfstæða tilvist. Eitt og sama eiginlíkið getur ekki verið í mörgum hlutum, en einn og sami hluturinn getur haft mörg eiginlíki – reyndar eru hlutirnir safn ákveðinna eiginlíkja.

En hvað gerir það að verkum að sum eiginlíki lenda saman í mengi en ekki önnur?

Að líkjast (vensl) eru annars stigs eiginlíki. Kenning Williams er nafnhyggja frekar en hluthyggja. (Eins og nafnhyggja er gagnvart altökum er eiginlíkjakenning gagnvart eiginleikum.) Williams getur gert grein fyrir hvernig það má vera að hlutir hafi svipaða “eiginleika” t.d. að margir hlutir séu rauðir: Þeir hafa hver sinn rauðleikann. Þetta er einn kostur á kenningunni. En hann á eftir að skýra hvers vegna sum eiginlíki líkjast en ekki önnur. Af hverju er mengi rauðra eiginlíkja ekki altak? Hlutir eru safn eiginlíkja og ekkert annað (Williams hafnar því að það sé einhver kjarni í hlutunum) en vandi er að gera grein fyrir samsemd hluta þrátt fyrir breytingu.

Vandi Williams er því: a) varðandi samsemd og breytingu, b) að flokka saman í mengi (hugsanlega gæti hann bullað eitthvað um skynjunarsálfræði hvað þetta varðar. Þannig raða hlutir sér ekki saman í mengi; við röðum þeim í mengi eftir því hvernig við skynjum heiminn.), og c) vandi varðandi tilvísun. Þegar við segjum eitthvað um einhyrninga vísum við í tómamengið og líka þegar við tölum um jólasveina en þetta tvennt er auðvitað ekki það sama. Williams gæti sagt að við vísum ekki í tómamengið heldur í mengi jólasveina og í mengi einhyrninga – og það vill svo til að þau eru bæði tóm, nánar tiltekið hlutmengi í tómamenginu. Og við vísum í þessi hlutmengi, en við vísum ekki í allt tómamengið.

Nú er spurning hvort hugar hneigist frekar að nafnhyggju eins Ockham og Quine eða hluthyggju eins og Platon, Aristóteles og David Armstrong á 20. öld. Og hverjar eru afleiðingar kenninganna t.d. fyrir siðfræði?
_____________________________________________________
(1) Það má annars vel efast um að Platon haldi fram einhverri einni frummyndakenningu. Hann heldur öllu heldur fram frummyndakenningum (í nokkrum útgáfum). Þekktasta útgáfan er sú sem finna má í Ríkinu. Önnur útgáfa er í Parmenídesi og enn önnur í Tímajosi.
___________________________________