Enn er ónefndar ríkiseignir og þjóðareignir. Atli Harðarson, heimspekingur, efast um að þjóðareign geti merkt nokkuð annað en ríkiseign. Það má þó minna á það að Búnaðarbankinn er ríkiseign en ríkið seldi hann (að hluta til) svo ríkiseignir má ríkið selja. Það er ekki eins víst að ríkið (eða nokkur annar) gæti selt Þingvelli því þeir eru þjóðareign.
Hér er ákveðinn munur. Þjóðareignir tilheyra þjóðinni og komandi kynslóðum hennar líka. Ef þjóðareign er ríkiseign þá er hún óseljanleg ríkiseign. Fleiri dæmi eru til. Styttan af Leifi Eiríkssyni fyrir framan Hallgrímskirkjuna var gjöf frá Bandaríkjum Norður Ameríku til íslensku þjóðarinnar - ekki ríkisins. Handritin voru sömuleiðis afhent þjóðinni en ekki ríkinu. Ásmundur Jónsson arfleiddi þjóðina að Hnitbjörg (safni hans) en ekki ríkinu. Þjóðareignir eru því óumdeilanlega til, þótt ekki sé kveðið á um þær í lögum.
Atli bendir á að ef eitthvað á að heita eign þá verði einhver að geta komið fram í nafni eiganda til að ráðstafa eigninni, þ.e. eftir þeim réttindum sem varða þá tegund af eignum sem viðkomandi eign tilheyrir. Það má ekki láta það rugla sig í ríminu að það er ríkisvaldið sem kemur fram í nafni eiganda bæði hjá ríkiseignum og þjóðareignum. En ríkisvaldið hefur mismunandi skyldum að gegna eftir því hvort um er að ræða ríkiseignir eða þjóðareignir. Íslendingar eiga sameiginlega tungu, íslensku, en hver er handhafi hennar? Ef tungan okkar er eign, hvers konar eign er hún þá? Þjóðareign eða menningareign? Hvort tveggja ef til vill?
Orðin “að eiga” og samsvarandi nafnorð “eign” eru auk þess margræð því þau eru oft notuð án þess að nokkrum réttindum sé til að dreifa. Talað er um að börn eigi foreldra, hjón eigi hvort annað og að einhver eigi sér draum.
Hvernig er einarréttur yfirleitt réttlættur og hvernig á að réttlæta hann? Í fyrri grein sinni segir Atli að hlutir verði eign ef maður hefur unnið við þá eða notað þá. Í seinni grein sinni segir Atli um eignarrétt í lögfræðilegum skilningi vera yfirleitt rökstuddan og varinn með þrenns konar rökum:
1 hagkvæmnisrökum (t.d. að einkaeign á framleiðslutækjum stuðli að hagvexti og góðæri)
2 rökum sem vísa til réttlætis (skipting er sögð réttari en önnur því hún stuðli fremur að efnahagslegum jöfnuði)
3 rökum sem vísa til verðskuldunar (hver fái það sem hann á skilið)
En hvernig á að réttlæta eignarrétt? Er eignarréttur settur réttur, mannasetningar?
Það er þess virði að huga að þessu því ef hann er það þá er hægt að ákveða hvaða réttindi eigi að fylgja hverju afbrigði eða einfaldlega finna upp ný afbrigði, eftir því sem nauðsyn krefur. Það er vel hægt að ímynda sér tilurð mannlegs samfélags með samfélagssáttmála. Hvort sem það hefur átt sér stað í bókstaflegri merkingu eða ekki þá er sú hugsun vel skiljanleg. Í leiðinni fundu menn þá upp eignarrétt (hvort sem það gerðist bókstaflega svo eða ekki). Eignarréttur gæti líka hafa verið til frá upphafi alheimsins eins og náttúrulögmál en hver eru þá rökin fyrir því? Á meðan þau finnast hvergi höfum við aðeins hugmyndina um tilbúinn eignarrétt, uppfundinn af mönnum. Svo að ef við viljum búa til nýtt afbrigði af eignarrétti þá ákveðum við bara hvernig hann á að vera og réttlætum hann svo bara með einhverjum skynsamlegum rökum.
Hvaða máli skiptir þetta fyrir stjórn fiskveiða eða líftækni? Jú það er nefnilega málið, hver á fiskinn? Hann er þjóðareign eftir því sem stendur í lögum. Þá þarf bara að gera skynsamlega grein fyrir þjóðareign, hvers konar eign viljum við að það sé. Eða upplýsingaeign (þ.e. eign á upplýsingum)? Ef við viljum búa til eignarrétt varðandi upplýsingar og uppgötvanir t.d. í líftækni hvernig viljum við þá hafa hann?
Aðalatriðið er það að fyrst eignarréttur er settur réttur þá er hægt að búa til afbrigði af honum eins og við viljum. Hægt væri að ákveða að einungis sæmdarréttur eigi við um uppgötvanir (eins og sumir háskólar hafa fyrir reglu).
___________________________________