Það eru til margar útgáfur af samskiptum. Ég ætla ekki að fjalla um þessar fjölmörgu útgáfur í heild. Ég ætla raunar aðeins að fjalla um mjög afmarkað form samskipta. Það form er stundum er kallað rökræða. Þar á ég við rökræður milli tveggja eða fleiri einstaklinga.
Samkvæmt orðanna hljóðan eru rök lykilatriði í rökræðum. Til þess að hafa umfjöllunarefnið á tæru og til að auka nákvæmni umfjöllunarinn, skal ég útbúa lauslega skilgreiningu á rökræðu. Þá vitum við í það minnsta um hvað ég er að tala, og í hvað ég er að vísa með hugtakinu rökræða.
[i]Rökræða[/i]: i) Samræður tveggja eða fleiri. ii) Engum ógildum rökum er beitt í samræðunni.
Takið eftir að í ii) nálgast ég málið frá öfugri átt, en ef ég hefði sagt - ‘Aðeins gildum rökum er beitt í samræðunni.’ Hér er ég að undirstrika að sumt getur vel fallið svona mitt á milli þess að vera röklegs eðlis eða annars eðlis. Mér þykir óþarfi að útiloka slíkt. Þá á ég við að rökræður séu ekki nauðsynlega svo formlegar að það væri hægt að skiptast á formúlum eða skömtuðum rökyrðingum. Þó hún geti vel farið þannig fram, ef það er það sem menn vilja. Rökræður eru með öðrum orðum, samræður milli tveggja eða fleiri, þar sem er ekki farið með vitleysu.
Okey þá er það komið. Ég æta hinsvegar auka við þessa skilgreiningu, og skilgreina nýja þrengri útgáfu samræðna. Ég tel hana vera þá tegund samræðna sem heimspekingar ættu að stunda, þó þeir geri það eflaust sumir, í það minnsta stundum.
Því sem ég vil bæta inn í þessa sterkari skilgreiningu á rökræðu, er fyrirbæri sem ég vil einfaldlega kalla ‘góður vilji’. Þetta kann að hljóma kunnuglega fyrir þá sem kannast við siðferðispælingar Kants. (Nema mig sé að misminna um kenningar hans.) En það er alger óþarfi að tenja þetta hugtak við kenningar hans. Þar sem ég skilgreini það eftir mínu nefi. (Þó kann vel að vera að um sama hugtakið sé að ræða eftir sem áður. Ég er bara ekki viss sjálfur.)
Það fer væntanlega best á því að ég skilgreini hvað ég á við, áður en ég fer að ræða um ‘góðan vilja’ og hvað ‘sterk rökræða’ hefur í för með sér.
[i]Sterk Rökræða[/i]: i) Samræður tveggja eða fleiri. ii) Engum ógildum rökum er beitt í samræðunni. iii) Allir þáttakendur hafa, á þeim tíma er samræðan fer fram, 'góðan vilja'.
Hvað er þessi ‘góði vilji’ og hvað þýðir hann í þessu samhengi?
Í einföldustu mynd þýðir hann aðeins að allir hafi einlægan vilja til þess að samræðan skili einhverju ‘gagnlegu’. (Ég ætla ekk að skilgreina ‘gagnlegt’ en meki það til að benda á að þar sé laus endi.)
Það mætti líka orða þennan ‘góða vilja’ sem svo að allir þáttakendur hefðu ‘sannleikann’ að markmiði. (Aftur skilgreini ég ekki ‘sannleikann’.) Þáttakendum er því sama hvort þeir sjálfir hafi rétt fyrir sér, eða hvort einhver annar hefur rétt fyrir sér. Það eina sem þeir vilja er að ‘sannleikurinn’ skýrist með ástundun samræðunnar.
Þegar ég segi að þeir sem samræðuna stunda vilji aðeins að ‘sannleikurinn’ skýrist með samræðunni þá meina ég það sem ég segi. En það er einmitt þessi punktur sem er erfiður við Sterka Rökræðu. Því þessi nálgun krefst í raun, við ítarlega skoðun, ákveðins sjálfleysis. Slíkt ástand næst ekki auðveldlega (og er mögulega ómögulegt í fullkominni mynd). Þó með ákveðinni sjálfsskoðun og tamningu ætti mönnum að vera unnt að temja sér sjálflausa nálgun í þáttöku sinni í Sterkum Rökræðum, þann tíma sem hún varir.
Afhverju sjálflaus?
Jú, það kemur af því að markmið samræðunnar er sameiginlegt. Ef þú kafar ofan í hugtakið, muntu sjá að í því er ekkert rúm fyrir hið staka. ‘Sannleikurinn’ er sameiginlegt markmið þeirra sem þátt taka, og hann einn er það sem skiptir máli.
Samkvæmt því sem ég hef nú sagt, ætti að vera óhætt að skilgreina ‘góðan vilja’ í þessu ákveðna tilviki og setja þá skilgreiningu inn í skilgreiningu á Sterkri Rökræðu í stað fyrra hugtaks.
'[i]Góður vilji[/i]': Hugarástand sjálfleysis.
[i]Sterk Rökræða[/i]: i) Samræður tveggja eða fleiri. ii) Engum ógildum rökum er beitt í samræðunni. iii) Allir þáttakendur búa yfir, á þeim tíma er samræðan far fram, hugarástandi sjálfleysis.
Hvers vegna Sterk Rökræða?
Samræður eru mjög mannleg ástundun. Það er manneskjunni mjög eðlislægt að ota sínum tota. (Að reyna að bæta sína stöðu og sýnast betri fyrir öðrum.) Slík hegðun getur verið mjög lúmsk. Þá á ég við að hún er lúmsk í því að læðast inn í okkur og taka af okkur ráðin. Það getur kostað þónokkra einbeitingu að hugsa ekki um sjálfan sig og sinn hag. Í röræðum getur þessari tilhneygingu skotið mjög auðveldlega upp. Það er þá þegar rökræður verða einskonar keppni, eins konar skylmingarlist jafnvel. Slíkt hjálpar leitinni að ‘sannleikanum’ síður, þar sem hver vinnur keppnina fer að draga athyglina frá ‘sannleikanum’. Við þekkjum öll þann skrípaleik sem fer fram á milli stjórnmálamanna í fjölmiðlum, og sumir kalla jafnvel ranglega rökræðu. Þar er sjálf þátttakenda í forgrunni. Enda kemst fátt annað að en útbelgd sjálf stjórnmálamannana. Enda hefur það sýnt sig að sumt fólk (jafnvel margt fólk) tekur afstöðu út frá því hve mjög menn og konur ná að tútna út í samræðunum. Á þetta meira skylt við mökunaratafnir sumra skrautlegra fuglategunda, eða helgun óðals almennt í heimi dýranna. Það skal engan undra það, við erum ekki ein stök, við getum ekkert svarið þessa hegðun af okkur. Hliðstæður við dýraríkið eru mun fleiri, og að flestu leyti nokkurnvegin algjör.
Því legg ég til Sterka Rökræðu. Tilraun til að fjarlægjast fumstæðari (hagsmunahegðun) þætti í fari okkar. Tilraun til nálgast ‘sannleikann’ betur, án þess að láta frumstæðari þætti í eðli okkar halda aftur af okkur.
Viðmælendur geta vel verið ósammála um ‘sannleikann’ en í Sterkri Rökræðu mun sá er þér ósammála, benda þér á hvernig þú gætir fært betri rök fyrir þinni skoðun, ef hann sæi leið til þess. Ímyndið ykkur að þið væruð að spila á spil, og mynduð hafa þau á borðinu þannig að allir gætu séð þau. Og mótherji gæti bent þér á góðan leik í stöðunni, sem þú gætir svo leikið ef þér þykir hann góður. Einnig má líkja þessu við skák þegar þú bendir mótherja á góða leiki, að auki gætir þú rætt við hann um þá leiki sem þú ætlar að leika gegn honum. Leikir sem leiknir eru væri svo í raun einskonar sameiginleg niðurstaða. Þetta hjómar jafnvel fáránlega í okkar sjálfmiðuðu eyru. Tilhvers að spila ef þú ert ekki að spila til að vinna?! En þá ertu auðvitað að spila til að sigra, ekki til að spila skák. Hinsvegar gæti svo farið að þú viljir læra skák, kanna skákina, vaxa sem leikmaður. Þegar þú ferð að hugsa þannig um skák, fer Sterk Rökræða að meika meira sens. Því þá fer skáklistin að vera aðalatriðið, en ekki útkoma úr stökum leik. Setjum svo að þú hefðir tækifæri að læra skák af skákmeistara. Þú býst ekki við að hann myndi bara mæta á staðinn og rústa þér dag eftir dag. Nei, þú býst við því að hann leiðrétti þig og bendi þér á betri leiki í stöðunni. Þarna eru þið ekki að spila til að vinna, þið eruð að kanna skáklistina. En hvað er við hefðum tvo bestu leikmenn í heimi? Hvort myndu þeir geta bætt þekkingu sína á skáklistinni meira á því að keppa til að vinna hvern leik fyrir sig, eða með því að koma saman til að kynnast skáklistinni eins tveir jafningjar sem eru að reyna að efla sameiginlega þekkingu sína (og þar með mannkyns alls). Tökum stærðfræðinga sem dæmi. Hvernig færi ef þeir væru í sífelldum feluleik, og eða væru allir að pukrast hver í sínu horni? Það eru vissulega mörg dæmi um slíkt. Enda eru stærðfræðingar menn eins og annað fólk, í það minnsta seinast þegar gáð var á því. Flestir stærðfræðingar skilja hinsvegar mikilvægi þess að deila hugmyndum. Hvers vegna það? Jú til þess að efla möguleika mannkyns á því að bæta við þekkingu sína í stærðfræði. Það sama má segja um vísindin. Eða ætti ég kannski að segja vísindi sem eru ekki stunduð af eiknafyrirtækjum.
Ég læt þessu nú lokið. Rök mín fyrir Sterkum Rökræðum eru fyrst og fremst sameiginlegir hagsmunir. (Það er svo skrítið hve erfitt er að losna við þetta orð “hagsmunir”. ;) )