og aðferðin þróaðist hratt:
- Það sem sannara reynist höfum við heldur
ef hvorugt er satt.”
Þórarinn Eldjárn
“Sannleikurinn er oft svo einfaldur að við
afskrifum hann sem barnalegan þvætting.”
Dag Hammarskjöld
I.
Heimspeki Platons er að miklu leyti viðbragð við afstæðishyggjum af öllu mögulegu tagi, sem áttu m.a. miklum vinsældum að fagna hjá annars sundurleitri hreyfingu fræðaranna (eða sófistanna) í Grikklandi á 5. öld f.Kr. Þeir höfðu afstæðishyggjur um réttlæti, um siðferði, um sannleikan og ég veit ekki hvað. En Platoni voru þær ekki að skapi. Og hann gerði sitt allra besta til að svara þeim. Svörin hafa síðan mörg hver orðið nokkurn veginn að því sem við (á Vesturlöndum að minnsta kosti) köllum heilbrigða skynsemi. En þar með er ekki öll sagan sögð, því á okkar tímum eru menn enn að reyna fyrir sér með alls kyns afstæðishyggjur og þeir sem sitja fyrir svörum eiga jafn fullt í fangi með það verkefni sitt og Platon forðum daga.
Þegar ég tala um afstæðishyggjumenn samtímans á ég við höfunda sem m.a. eru kenndir við póstmódernisma. Þess ber að geta að “póstmódernismi” er margrætt orð. Það er ekki ætlun mín að fjalla hér um póstmódernisma sem slíkan og með öllu sem honum fylgir. En það eru einnig fleiri hliðstæður í samtímanum við fræðarana grísku. Ein er sú kenning um sannleikann sem heitir pragmatism á frummálinu en er oft þýdd gagnhyggja eða hentistefna á íslensku.(1) Þess ber að geta að gagnhyggjan er einnig marghliðað fyrirbæri og hér er ekki pláss til að gera grein fyrir henni sem slíkri. Þess í stað verður einblínt á eina hlið póstmódernismans og gagnhyggjunnar - sem er raunar ekki nauðsynlega sameiginleg öllum póstmódernistum og gagnhyggjumönnum - nefnilega hugmyndum er snúa að sannleika og afstæði.
Eru forsendur afstæðishyggjunnar í dag aðrar en í fornöld, er eitthvað nýtt á ferðinni? Eða þrástagast menn bara á gömlum tuggum? Og hvernig er þeim svarað; eru aðrar forsendur fyrir svörum okkar í dag eða eru svörin kannski líka gamlar tuggur? Er ekki lengur stætt á því að aðhyllast hversdagslegar hugmyndir um sannleikann eins og þeir Platon og Aristóteles gerðu? Hvað er sannleikur í dag?
II.
Áður en lengra er haldið er ágætt að spyrja einnar ofureinfaldrar spurningar: Hvað er afstæðishyggja? Í stuttu máli er afstæðishyggja sú skoðun að eitthvað sé afstætt við eitthvað annað. Ef eitthvað er ekki afstætt við eitthvað annað, á orðið “afstæði” ekki við! - eins og Þorsteinn Gylfason á til að segja þegar hann kýs að vera hnyttinn.
Það eru til afstæðishyggjur um hvaðeina, t.d. siðferðið. Samkvæmt slíkri kenningu er siðferðið afstætt við eitthvað annað, oftast menningu. Það heitir menningarleg afstæðishyggja: Það er rangt að taka fanga af lífi á Íslandi. Í Bandaríkjunum leyfist það undir ákveðnum kringumstæðum. Samkvæmt afstæðishyggjunni hafa báðir jafn rétt fyrir sér, Íslendingar og Bandaríkjamenn. Róttækari útgáfa af afstæðishyggju um siðferðið gæti verið á þá leið að siðferðið væri afstætt við einstaklinginn. Þá sitjum við uppi með sjálfdæmishyggju. Það sem er rangt fyrir mig er ekki endilega rangt fyrir aðra og öfugt. Ef einhvern rauðan þráð er að finna í íslenskri umræðu um siðfræði þá er það viðleitnin til að forðast sjálfdæmishyggju.
Afar algeng er sú skoðun að allt gildismat sé öldungis huglægt og þar með afstætt. Það eru fáir reiðubúnir að játa að fegurðarmat annarra geti verið réttara en þeirra eigið. En nóg um þetta; það er ljóst hvað afstæði hefur í för með sér.
Margir rugla hins vegar saman afstæðishyggju og efahyggju. Efahyggja er líka til í mörgum afbrigðum (auk þess sem orðið kann að þýða eitthvað annað utan heimspekinnar, t.d. í bókmenntafræði eða guðfræði). Það er hægt að vera efahyggjumaður um vitundir annarra (sólipsismi, sjálfsveruhughyggja)(2) svo dæmi sé nefnt. Slíkur efahyggjumaður neitar því að það sé mögulegt að öðlast þekkingu á sjálfi eða vitundum annarra. Orðið “efahyggja” (án nánari skilyrða) er oft notað fyrir þá skoðun að ekki sé hægt að öðlast neina þekkingu.(3)
Munurinn á efahyggju og afstæðishyggju er sá að í efahyggju felst að ekki sé hægt að komast að neinum sannleika - enginn getur verið viss um að hann hafi rétt fyrir sér - á meðan afstæðishyggjan felur í sér að það sé enginn sannleikur til að komast að - enginn hefur réttar fyrir sér en aðrir, þ.e. allir hafa jafn rétt fyrir sér. Þessu slá margir saman. Og þegar ekki virðist vera hægt að skera úr um eitthvað virðast margir halda að það sé vegna þess að það sé ekkert eitt rétt svar; m.ö.o. þegar við getum ekki vitað eitthvað þá sé það vegna þess að það sé afstætt. Þannig kann það oft að vera en það fylgir ekki nauðsynlega.
III.
Það er með öllu ómögulegt að segja til um það hver það var sem gerði fyrstur manna greinarmun á afstæði og algildi. Í fyrsta lagi eru heimildir okkar ekkert alltof margar. Í öðru lagi er full ástæða til að efast þegar okkur er sagt að þessi eða hinn hafi verið fyrstur til að segja eða hugsa ákveðna hugsun, jafnvel þótt það sé ritað í fornum heimildum. Við getum í mesta lagi ályktað að höfundurinn forni hafi ekki vitað til þess að sama hugsun hafi komið fram áður.
Hvað sem því líður vitum við ekki til þess að greinarmunurinn á afstæði og algildi hafið verið gerður fyrir daga Herakleitosar frá Efesos (uppi um 500 f.Kr.). Eftir Herakleitos eru reyndar aðeins varðveitt nokkur brot en ekkert heildstætt rit. En enginn vafi leikur á því að Herakleitos geri þennan greinarmun. Hugmyndin um afstæði kemur t.d. fram í tveimur frægum brotum þar sem Herakleitos segir annars vegar að vegurinn upp og vegurinn niður sé einn og hinn sami, en hins vegar að sjávarvatn sé fiskum lífsnauðsynlegt en mönnum banvænt. Herakleitos talar einnig um lögmálið, logos, vitið í heiminum, sem er öllum sameiginlegt (algilt).
Eftir daga Herakleitosar hafa ýmsir menn afstæðishyggjur af öllu mögulegu tagi. Þrasýmakkos hét til að mynda einn fræðaranna. Hann kemur fyrir í Ríki Platons (uppi 427-387 f.Kr.) og viðrar þar afstæðishyggju um réttlætið sem Sókrates er svo að sjálfsögðu látin hrekja.
Róttækastur afstæðishyggjumanna fornaldar mun þó hafa verið fræðarinn Prótagóras frá Abderu (uppi 484/481-414/411 f.Kr.). Hann gengur miklu lengra en t.d. Þrasýmakkos sem vildi einasta benda á að sinn er siður í landi hverju. Aftur á móti hélt Prótagóras því m.a. fram að sannleikurinn væri afstæður. Hann á að hafa ritað nokkrar bækur en þær eru allar glataðar. Ein á að hafa heitið Um sannleikann. Upphaf hennar mun hafa verið á þessa leið:
Maðurinn er mælikvarði allra hluta, þeirra sem eru að þeir séu en þeirra sem eru ekki að þeir séu ekki.
Það liggur fyrir að Platon telur að Prótagóras gerir sérhvern einstakan mann að mælikvarða, enda heldur hann áfram jafnóðum og hann hefur vitnað í þessi orð Prótagórasar í Þeætetosi og túlkar þau á þá leið að sérhver hlutur sé fyrir manni eins og hann birtist manni. Vissulega er eitthvað til í þessu sjónarmiði. Einn maður skynjar goluna sem hlýja en annar skynjar hana sem kalda og hvorugur virðist hafa rangt fyrir sér. Þar með virðist skynjun manna vera orðin óskeikul.
En um hvað er skynjunin óskeikul? Skeikar henni um upplifanir okkar? Nei, bókin sem ég upplifi sem græna hef ég skynjað sem græna. Um það er ekkert meira að segja. En það er ekki þar með sagt að skynjun okkar sé óskeikul um hlutina að baki henni. Ég á einungis við það að það er öldungis óvíst hvort bókin sem ég skynja, og upplifi, sem græna sé í raun og veru græn. Annar maður kynni að segja hana vera brúna. Af þessu leiðir ekki að við höfum báðir rétt fyrir okkur, ég og vinur minn, þegar ég segi bókina vera græna en hann brúna. Af þessu leiðir aðeins það að skynreynslan ein veitir ekki örugga þekkingu. Við vinirnir erum sem sagt orðnir efahyggjumenn um liti. Um liti er ekkert hægt að vita. En eins og áður kom fram fylgir ekki afstæðishyggja í kjölfar efahyggju (í það minnsta ekki nauðsynlega).
En sleppum þessu með skynjunina. Það sem máli skipti fyrir Prótagóras var það eitt að menn hafa ólíkar skoðanir og það má færa rök fyrir flestum sjónarmiðum (jafnvel öllum). Prótagóras segir að sumar skoðanir séu betri en aðrar. Þær eru gagnlegri, en alls ekkert réttari eða sannari fyrir vikið. Skoðanir sem eru gagnlegri eru hins vegar nefndar réttari og sannari af frumstæðum og grunhyggnum mönnum. Þessi skoðun gengur aftur á okkar dögum í heimspeki Richard Rortys.
Eitt af því sem Platon fann að hjá Prótagórasi var það að hann kallaði sig kennara. Prótagóras bauðst nefnilega til að kenna mönnum hitt og þetta og þáði meira að segja morðfjár fyrir það (en hann mun fyrstur manna hafa rukkað 100 mínur fyrir kennslu sína ). En hvernig getur maður boðist til að kenna nokkurn skapaðan hlut viti maður ekkert betur en aðrir? Hafa ekki nemendurnir jafn rétt fyrir sér og hann sjálfur? Prótagórasi var það algert aukaatriði. Hann gat sannfært fólk og þeir sem sóttu námskeiðin hans lærðu að gera það líka. Það sem kom að gagni við að sannfæra aðra var satt. Mælskufræðin, rhetorik, leysti nánast allar aðrar greinar af hólmi. Svo hélt Prótagóras því líka fram að hann gerði menn betri; hann gerði þá að betri mönnum og betri borgurum. En hugmyndin um sannfæringuna er örlítið áhugaverðari. Þar átti Prótagóras líka skoðanabróður í Gorgíasi frá Leontíní (uppi 485-380 f.Kr.). Þetta er áhugaverðara fyrir þær sakir að þetta er enn annað atriði sem gengur aftur hjá Rorty. Ekki er þó svo að skilja að hann telji að mælskulistin geti eða eigi að taka við af öðrum greinum. En það eina sem skiptir máli er sannfæringarkrafturinn, að geta sannfært aðra, og hvaðeina sem er nothæft til þess. Það er enginn sannleikur óháð því hvað menn láta sannfærast um og hvað gagnast þeim. En meira um Rorty á eftir.
Enn eru eftir aðalrök Platons gegn Prótagórasi. Þau eru svonefnd umsnúningsrök (perítrópísk) og ganga út á það að afstæðishyggjumaður um sannleikann hljóti að vera sjálfum sér ósamkvæmur. Að því er Prótagóras segir sjálfur er það satt-fyrir-Prótagóras að sannleikurinn sé afstæður; það er hins vegar ekki satt-fyrir-Sókrates. Getur kenning hans þá verið algild? Það er að segja, getur Prótagóras haldið því fram að það sem hann segi okkur um sannleikann sé satt (fyrir okkur öll)? Ennfremur lendir Prótagóras í þeirri undarlegu stöðu að þurfa að halda því fram að enginn maður hafi nokkurn tímann rangt fyrir sér. Því allt sem maður sannfærist um er sjálfkrafa satt.
Mér er ekki kunnugt um að eftir þetta hafi önnur tilraun verið gerð í fornöld til að setja fram afstæðishyggju um sannleikann. En í stað afstæðishyggju setti Platon fram sína eigin kenningu um sannleikann. Hana er að finna í Fræðaranum þar sem þeir ræðast við, Þeætetos og aðkomumaðurinn frá Eleu. Þeir komast að því að allt sem er sagt verði að vera um eitthvað, því ekki er hægt að segja neitt um ekkert. En hvað gerist þegar orðum er raðað þannig saman í setningar að rætt er um t.d. Þeætetos (sem er til en er ekki ekkert) en sagt er um hann eitthvað sem er ekki (þ.e. sem er ekki að eiga sér stað) eins og að hann fljúgi? Þá er vissulega rætt um eitthvað en ekki um ekkert, en samt er rætt um eitthvað sem er ekki. Þeir Þeætetos og aðkomumaðurinn ónafngreindi komast að því að það að segja Þeætetos sitja sé satt, enda sitji hann, en á hinn bóginn að segja Þeætetos fljúga sé ósatt, enda fljúgi hann ekki. Þetta er fyrsta útgáfa þeirrar kenningar um sannleikann sem í dag heitir samsvörunarkenningin um sannleikann. Sannar yrðingar samsvara, að mati Platons, því sem er. Aristóteles (uppi 384-322 f.Kr.) er þó locus classicus þessarar kenningar. Hann segir í IV. bók Frumspekinnar:
Að segja að það sem er sé ekki eða að það sem er ekki sé, er ósatt; en að segja að það sem er sé og það sem er ekki sé ekki, er satt. Svo að sá segir annað hvort satt eða ósatt sem segir eitthvað vera eða vera ekki.
Hjá Aristótelesi er þetta gefið og ekki stutt neinum sérstökum rökum. Og einnig það að sumar skynjanir séu ekki réttar því þá væri allt afstætt, sem er gjörsamlega fráleitt.
En áður en við segjum skilið við fornöldina skulum við taka eftir einu samkenni hjá Platoni og Aristótelesi. Þeir vísa báðir til ytri veruleika. Sannleikur hjá þeim felst í því að einhver yrðing (eða skoðun) samsvari veruleikanum. Þeir bjóða því báðir uppá sama vandamálið: Ef við höfum ekki beinan aðgang að veruleikanum fæst aldrei skorið úr um hvað er satt og hvað ekki. Af því leiðir ekki að allt sé jafn satt og rétt heldur einungis það að við vitum ekki hvað sé satt eða rétt - en við erum nánast engu betur stödd.
IV.
Nú er tímabært að líta til samtímans. Prótagóras gengur nefnilega aftur í ýmsum kenningum nú á dögum þótt ef til vill sé ekki um bein áhrif að ræða. Annars vegar birtast þessar skoðanir að einhverju leyti í þeirri kenningu um sannleikann sem heitir á frummálinu pragmatism, en hefur verið nefnd gagnhyggja eða hentistefna um sannleikann á íslensku. Hins vegar fylgir afstæðishyggja um sannleikann oftar en ekki (þó ekki nauðsynlega) þeirri hugmyndafræði sem nefnd er póstmódernismi, a.m.k. í heimspeki.(4) Hér gefst ekki rými til að kafa ofan í allan póstmódernismann eða alla gagnhyggjuna en bæði gagnhyggjan og póstmódernisminn eiga sér málsvara þar sem er Richard Rorty. Því verður gefinn nokkur gaumur að því sem Rorty hefur til málanna að leggja um sannleika og afstæði.
Gagnhyggjan er í stuttu máli sú skoðun að sannleikurinn sé það sem kemur að gagni. Það er auðséð hvers vegna slík kenning freistar þeirra sem fást við vísindaheimspeki. Þær kenningar sem gagnast okkur eru álitnar vera sannar; þær sem gagnast okkur ekki eru það ekki. Aflfræði Aristótelesar kemur okkur til að mynda ekki lengur að notum og við teljum heldur ekki að hún sé sönn. En það er erfitt að koma auga á hvort það gagnist frekar að segja orrustuna við Maraþon hafa verið 490 f.Kr. eða 491 f.Kr. Kenningunni var ekki ætlað að svara spurningum af þessu tagi. Hún varð til í greinargerð C.S. Peirce (1839-1914) fyrir vísindalegum tilraunum. Ein viðbrögðin við gagnhyggjunni var að endurlífga samsvörunar-kenninguna um sannleikann. Það gerðu George Edward Moore (1873-1958) og Bertrand Russell (1872-1970).
Rorty telur sig fyrst og fremst vera gagnhyggjumann en er einnig farinn að nefna sig póstmódernista. Þó er hann ef til vill hrifnastur af því að kalla sig “anti-representationalist” eða “anti-foundationalist”. Rorty hefur gengið lengra með gagnhyggjuna en hinir sígildu gagnhyggjumenn (eins og William James (1842-1910) og John Dewy (1859-1952)). Í höndunum á Rorty er gagnhyggjan farin að verða að afstæðishyggju um sannleikann og það eina sem skiptir máli er að geta sannfært náungann. Vandinn er sá að gömlu samsvörunarkenningarnar þeirra Platons og Aristótelesar duga ekki til vinna bug á Rorty því allan greinarmun sem Platon og Aristóteles gera, í nafni heilbrigðrar skynsemi, vill Rorty hafna. Hann vill til að mynda losna við greinarmuninn á sýnd og reynd og uppgötvun og uppfinningu svo eitthvað sé nefnt. Með því að þurrka út greinarmuninn á sýnd og reynd gerir Rorty ómögulegt að vísa til ytri veruleika. Þennan leik hefði Prótagóras örugglega sjálfur leikið hefði hann lifað til að andmæla Platoni. Hann hefði neitað að fallast á greinarmuninn á sýnd og reynd.
Hvernig væri hægt að svara Rorty að því gefnu að við féllumst á að þurrka út greinarmuninn á sýnd og reynd? Ein leið væri að taka upp samkvæmniskenningu um sannleikann eins og Spinoza (1632-1677) og Leibniz (1646-1716) gerðu.(5) En það eru fleiri möguleikar. Pólski rökfræðingurinn Alfred Tarski (1902-1983) smíðaði samsvörunarkenningu um sannleikann fyrr á öldinni. Honum tókst að sneiða hjá því að vísa til ytri veruleika eða nokkurrar frumspeki með því að leggja merkingarfræði henni til grundvallar. Hann er því ekki berskjaldaður fyrir sömu gagnrýni og aðrir sem halda fram samsvörunarkenningu um sannleikann, eins og Platon og Aristóteles í fornöld eða Bertrand Russell og John L. Austin (1911-1960) á tuttugustu öld.(6) Hins vegar er eftir að gera grein fyrir merkingu og það gæti reynst mun erfiðara en að gera grein fyrir sannleikanum. Þetta er reyndar enginn galli á kenningu Tarskis, í mesta lagi laus endi. Vandinn er sá að kenning Tarskis var smíðuð fyrir formleg mál (eins og mál rökfræðinnar) og það kann að reynast vandasamt að heimfæra hana upp á náttúruleg tungumál. Heimspekingurinn Donald Davidson (1917-) hefur reynt það. Hann hefur gert sannleikshugtak Tarskis að undirstöðu allrar merkingarfræði sinnar. Skilningur Davidsons á sannleikanum er þó loðinn og færir Rorty fyrir því rök að hann sé gagnhyggjumaður. Því hefur Davidson andmælt.(7) Svo er líka annar vandi við kenningu Tarskis. Hún gengur fullkomlega upp. Það er ein ástæða þess að heimspekingar eru ekkert sérlega áhugasamir um hana. Kenning Tarskis hefur eigi að síður haft mikil áhrif, er vel þekkt og mikils metin. Mörgum þykir samt sem hún hafi ekki mikið að segja. Líklega yrði þó uppi fótur og fit ef einhverjum tækist að finna í henni villu. Á sama hátt hafði enginn áhuga á skrifum Freges (1848-1925) fyrr en Russell fann villu í rökfræði hans.
Annars er alger óþarfi fyrir okkur að fallast á það með Rorty að þurrka út greinarmuninn á sýnd og reynd. Eða hvernig vill Rorty annars gera grein fyrir því að ekkert sé satt og einungis sé um ólík sjónarmið að ræða ef ekki væri gefið að þau væru ólík sjónarmið á einn og sama hlutinn?
Ég veit ekki hvað Rorty hefði við þessu að segja. En hann vill samt sem áður losna við greinarmuninn á sýnd og reynd enda gagnist hann okkur ekki lengur. Hann telur gagnlegra að aðhyllast gagnhyggju um sannleikann og þess vegna er gagnhyggjan rétt. En bíðum við, er hann ekki að gefa sér það sem átti að sanna? Gagnhyggjan er rétt vegna þess að hún er gagnlegri, en af hverju er það endilega rétt sem er gagnlegra? Jú, samkvæmt gagnhyggju er það einmitt rétt sem kemur að mestu gagni. Þannig gefur gagnhyggjan okkur mælikvarða á rétt og rangt, satt og ósatt, en sá mælikvarði er síðan notaður til að sýna okkur að gagnhyggjan sé rétt. Þetta er hringferð í sönnun.
Rorty hefur fleiri rök. Á einum stað hefur hann eftir Wilfrid Sellars “All awareness is a linguistic affair”, og eftir ónefndum Evrópumanni “Everything is a social construction”. Af þessu vill hann álykta:
Both are ways of saying that we shall never be able to step outside of language, never be able to grasp reality unmediated by a linguistic description. So both are ways of saying that we should be suspicious of the Greek distinction between appearance and reality. … if the two slogans I have cited are right, there is no physis to be known.
Í stuttu máli brennir Rorty af. Þó svo að við höfum engan beinan aðgang að veruleikanum er ekki þar með sagt hann sé ekki til eða að hann sé afstæður eða eitthvað því um líkt. Þó svo að við séum fangar tungumálsins og höfum ekki beinan aðgang að neinum veruleika er ekki þar með sagt að það sé enginn veruleiki; það getur samt verið til eitthvert physis. Þetta gefur okkur frekar tilefni til efahyggju en afstæðishyggju. Svo eru til, eins og áður sagði, kenningar um sannleikann sem komast hjá því að vísa í ytri veruleika.
V.
Það er komið að því að svara spurningunni sem var sett fram hér strax í byrjun um það hvort nokkuð nýtt sé á ferðinni um sannleikann og afstæði nú á dögum eða hvort við séum enn að tyggja upp sömu gömlu tuggurnar. Svar mitt er á báðum áttum. Í einum skilningi er hér ekkert nýtt á ferð; í meginatriðum eru kenningarnar þær sömu og mörg rökin líka. Hins vegar er þetta allt í nýjum búningi, tungumálið hefur stolið senunni af reynslunni. Það munar þó um útgáfu Tarskis á samsvörunarkenningunni um sannleikann sem er afar sterk og mikið afrek. Hún er ólík öllum fyrri samsvörunarkenningum að því leyti að hún vísar ekki til neins ytri veruleika.
Hins vegar má ekki gleyma því, eins og Þorsteinn Gylfason bendir réttilega á, að - hvort sem er í fornöld eða í samtímanum - er sannleikurinn fyrst og fremst hversdagslegt hugtak. “Sannleikurinn”, segir Þorsteinn, “er sá sem við kennum barni að segja…”. Og hvað er það sem við kennum börnunum að segja? Kennum við þeim að segja það sem virkar, það sem sannfærir aðra og gagnast þeim sjálfum? Segjum við við þau: “Tókst þú kökuna úr krúsinni í gær? Sannfræðu mig!”? Eða kennum við þeim, í anda Platons, að segja “eins og er”? Og Þorsteinn heldur áfram áfram, “sannleikurinn er sá sem við viljum að standi í fréttablöðum og skólabókum.” Þessari hversdagslegu hugmynd um sannleikann geta engar kenningar hnekkt. Ef heimspekin er á öðru máli, þá er það verst fyrir heimspekina.
_____________________________________________________________
(1) Stundnum er einnig talað um verkhyggju um sannleikann.
(2) Í þekkingarfræðilegum skilningi er sólipsisti sá sem telur að ekkert verði þekkt annað en manns eigið sjálf og vitund. Hins vegar er sólipsisti í verufræðilegum skilningi sá sem telur að ekkert sé til annað en manns eigið sjálf og vitund.
(3) Strangt tiltekið gerist efahyggjumaður sekur um ósamkvæmni haldi hann öðru eins fram, því hvernig veit hann að ekki sé hægt að vita neitt? Sumir efahyggjumenn hafa forðast að staðhæfa jafnvel það að ekki sé kostur á neinni þekkingu. Sjá nánar um þetta greinina “Pyrrhonsk og akademísk efahyggja” á Heimspeki á Hugi.is, birt þann 31. maí 2001.
(4) Það verður að fara varlega þegar alhæft er um póstmódernisma enda er hann “ekkert eitt”, eins og Þorsteini Gylfasyni, heimspekingi, er tamt að segja um margræð orð og hugtök. Póstmódernismi í byggingalist þarf t.d. ekki að eiga neitt sameiginlegt með póstmódernisma í heimspeki. Ennfremur er ekki endilega neitt eitt sem sameinar póstmódernisma í heimspeki, enda er allt eins oft talað um hið póstmóderníska ástand fremur en um póstmódernisma, líkt og væri hann ein kenning eða stefna.
(5) Á ensku heitir hún coherence theory of truth. Sumir vilja einnig lesa samkvæmniskenningu um sannleikan út úr skrifum Johns Lockes.
(6) Samkvæmt Russell er setning sönn ef hún er sú skoðun að um x,y og venslin V gildi Vxy, og x venslist við y. Austin telur að setning sé sönn ef og aðeins ef setningin í heild tjáir stöðu (state of affairs) og sú staða sé staðreynd. Hvorugur kemst hjá því að vísa til ytri veruleika.
(7) Davidson hafnar samsvörunarkenningum um sannleikann en er ekki þar með gagnhyggjumaður. Sannleikur er að hans mati ósmættanlegt og ógreinanlegt hugtak sem hann leggur til grundvallar kenningu sinni um merkingu. Ef til vill mætti kalla Davidson minimalista um sannleikann.
___________________________________