Hvernig vara hlutir i gegnum tímann? Hvað er endingarhyggja (endurantism) og sneiðhyggja (perdurantism) um varanleika hluta? Hvernig tengjast þær mismunandi kenningum um eðli tímans?

Sneiðhyggja er sú kenning að hlutir taki pláss í þrívíðu rúmi en auk þess taki þeir pláss í tíma; heimurinn er fjórvíður. En það gefur auga leið að hlutur getur ekki verið allur í hluta af því plássi sem hann tekur. Og það sama á við um tímann; hlutur getur ekki verið allur í hluta þess tíma sem hann tekur (það er að segja sem hann er til í).

Samkvæmt sneiðhyggju er ákveðinn hlutur eins og t.d. Aðalbygging HÍ allt húsið allan tímann sem það er til. Til þess að Aðalbyggingin geti verið til þurfa allir partar hennar að vera til, líka þeir sem eru á öðrum tímum en í núinu. Aðrir tímar en núið þurfa þá að vera til, þ.e. jafnmikið til og jafn raunverulegir og núið. Sú kenning að allir tímar, nútíð, fortíð og framtíð, séu til í einu og jafnraunverulega heitir eilífðarhyggja (eternalism) og sneiðhyggjan felur hana í sér. Samkvæmt sneiðhyggju (og eilífðarhyggju) hefur núið því enga verufræðilega sérstöðu umfram aðra tíma; ekki frekar en “hérna”. Þegar ég segi “hérna” á ég við staðinn sem ég er staddur á á því augnabliki en það er ekki þar með sagt að sá staður sé meira til en aðrir staðir. Þetta er nákvæmlega eins þegar ég segi “núna”.

Samkvæmt sneiðhyggju er ekki um bókstaflega samsemd hluta í gegnum tíma að ræða. Tölvan mín á morgun er ekki nákvæmlega sami hlutur og tölvan mín í dag eða tölvan mín í gær. Tölvan mín á morgun er annar partur af sama hlut; tölvan mín í fyrradag er enn annar parturinn. Það er hægt að skipta hlutum í sekúndur, mínútur o.s.frv. alveg eins og í rúmsentimetra, rúmmetra og þannig áfram. Einn rúmsentimetri af tölvunni minni er ekki nákvæmlega sami hlutur og annar rúmsentímetri. Og tölvan í dag er ekki nákvæmlega sami hlutur og tölvan í gær. Tölvan í heild sinni er hins vegar öll tölvan allan tímann sem hún er til. Segja mætti að sneiðhyggjan skipti hlutum í tímarúmssneiðar á sama hátt og hlutum er jafnan skipt i parta rúmfræðilega.

Athyglisverð afleiðing sneiðhyggjunnar er að hægt er að búa til hluti úr hvaða tímarúmssneiðum sem er. Það eru svokallaðir dreifðir hlutir (scattered objects). Og þeir eru jafn mikið til og það sem við köllum venjulega hluti. En venjulegir hlutir hafa samfellu í rúmi umfram hina dreifðu hluti (mynda eins konar tímarúms-orma) auk þess sem tímasneiðar þeirra líkjast og orsakarsamband er þeirra á milli. Að öðru leyti hafa venjulegir hlutir enga verufræðilega sérstöðu umfram dreifða hluti.

Endingarhyggjan kveður á um það að hlutum megi ekki skipta í tímasneiðar. Það að hlutur vari í gegnum tíma þýðir að hluturinn varir allur í gegnum tíma (þó hann geti breyst eitthvað - nema við aðhyllumst búntahyggju). Endingarhyggja byggir oftar en ekki á þeirri kenningu um tímann sem heitir nútíðarhyggja (presentism). Nútíðarhyggjan gefur núinu einmitt verufræðilega sérstöðu – núið afmarkar það sem er til. Í dag er 8. júlí 2001 og sá tími er raunverulegri en 15. mars 44 f.Kr. (þegar Sesar var ráðinn af dögum).

Þess má geta að endingarhyggjan útilokar ekki tímann sem fjórðu víddina (eðlisfræðilega). Hún segir bara að hlutirnir séu þrívíðir. Endingarhyggjan leiðir ekki nauðsynlega af sér nútíðarhyggju (þó oftast fari þær saman). En nútíðarhyggjan leiðir af sér endingarhyggju.

Lögmálið um óaðgreinanleika sömu hluta með tilliti til eiginleika er svona: Ef A og B eru sami hluturinn þá eiga A og B alla eiginleika sameiginlega. Einn og sami hluturinn getur ekki bæði haft og ekki haft eiginleikann p.

Segjum að Ásmundur sé brúnn um sumarið en fölur um haustið. Hvernig má það vera að Ásmundur um sumarið og Ásmundur um haustið sé einn og sami hluturinn. Brúnn og fölur virðast vera ósamrýmanlegir eiginleikar. Eitt svarið við þessu gæti verið sneiðhyggja. Ásmundur um sumar og Ásmundur um haust eru því strangt til tekið ekki sami hluturinn heldur mismunandi tímasneiðar af sama hlutnum. Og það sem meira er, þær líkjast, það eru orsakartengsl á milli þeirra og samfella í tíma og rúmi. Þessu svara endingarhyggjusinnar sem svo að í raun sé um eiginleikana brúnn-um-sumar og brúnn-um-haust að ræða. Ásmundur hefur fyrri eiginleikann en ekki síðari. Þeir leggja m.ö.o. til að við tölum um tímaháða eiginleika (time-indexed properties). Þeir verða þá að halda fram að allir eiginleikar séu tímaháðir. Því ef til eru einhverjir eiginleikar sem ekki eru tímaháðir geta þeir lent í þessu sama aftur.

Lögmálið um óaðgreinanleika sömu hluta með tilliti til parta er svona: Ef A og B eru einn og sami hluturinn þá eiga A og B alla parta sína sameiginlega. Einn og sami hluturinn getur ekki bæði haft og ekki haft einhvern af pörtum sínum.

Ímyndum okkur að vinstri hönd Descartes sé tekin af á tíma t. Endingarsinnar segja að Descartes fyrir t og Descartes eftir t séu sami maðurinn. En fyrir tíma t er einnig til Descartes-mínus, sem er ekki sama fyrirbærið og Descartes. Sá hefur enga vinstri hönd en er að öðru leyti nákvæmlega eins. Descartes-mínus fyrir t er sama fyrirbærið og Descartes-mínus eftir t. Descartes-mínus eftir t og Descartes eftir t eru sama fyrirbærið skv. lögmálinu um samsemd óaðgreinanlegra hluta. Og á endanum fáum við að Descartes fyrir t og Descartes-mínus fyrir t séu sama fyrirbærið. Þetta leysir sneiðahyggjan með því að skv. henni er Descartes fyrir t og Descartes eftir t alls ekki sami hluturinn, heldur mismunandi tímasneiðar sama fyrirbærisins. Descartes og Descartes-mínus eru því tveir tímarúms-ormar sem renna saman á tíma t.

Roderick Chisholm setti fram hugmyndir um mismunandi samsemd. Hlutir í frumspekilegum skilningi eru frumhlutir (primary entities). Þeir vara ekki í gegnum breytingar á pörtum. Hversdagslegir hlutir eru keðjur af frumhlutum sem haldast saman vegna ýmissa tengsla (orsakartengsla ofl.). Persónuhugtakið er að mati Chisholm frumhlutur. Persónur eru því varanlegar í gegnum breytingar en líkaminn ekki. Persónan er ekki það sama og líkaminn. (Chisholm er samt ekki endilega með tvíhyggju um sál og líkama; taldi kenningar sínar samrýmast efnishyggju). Descartes eftir t og Descartes-mínus eftir t eru ekki sama fyrirbærið (sjálfið greinir þá að). En ef við erum bara að tala um skrokkana eru þeir það - en þá er Descartes fyrir t og Descartes eftir t ekki sami hluturinn (strangt til tekið). Þar með hefur Chisholm rústað þrautinni sem sneiðahyggjusinnar lögðu fyrir endingarhyggjusinna. Peter Geach hefur einnig sett fram kenningu um mismunandi samsemd sem geriri útaf við Descartes dæmið en hér er ekki rými fyrir umræðu um hana. Annars gætu endingarhyggjusinnar einnig hafað hafnað því að til sé nokkur hlutur eins og Descartes-mínus eða geti nokkurn tímann verið til.
___________________________________