Áður en ég byrja þá vill ég taka það fram að þetta sem á eftir
fer eru mín lífsviðhorf í augnablikinu. Ég hef ekki farið í skóla til
að læra um heimspeki né lesið bækur sem fjalla beint um
það sem ég er að fara tala um hér. Þetta eru mínar skoðanir
sem ég hef myndað mér af minni reynslu á minni stuttu æfi og
þær gætu alveg eins breyst fyrirvaralaust.. eða svona næstum
því fyrirvaralaust ;)

Ég sendi inn könnunina “Hver á að ráða?” um daginn. Ég var
reyndar að spyrja að öðru þó það sé sami hluturinn í sjálfu
sér. Til að sjá hver alvöru spurningin var í raun og veru þá þarf
ég að útskýra aðeins spurninguna “Hver á að ráða?”. Ég lýt á
þetta sem grundvallar spurningu um hver eigi að ráða því
sem við gerum. Og sá sem ræður því sem við gerum ætti að
hafa það að markmiði láta okkur líða sem best. Og hver er
það? Hver veit hvað er okkur fyrir bestu? Er það meirihlutinn,
minnihlutinn, trúarleiðtogar, hershöfðingjar, sá sterkasti, sá
veikasti, enginn eða einstaklingurinn (við sjálf). Nú hafa
kannski einhverjir miskilið þetta, ég veit ekki um það. En þetta
er samt sem áður það sem ég var að falast eftir.

Þetta voru niðurstöðurnar:
—————————————————————————
Það vantar valmöguleika sem hentar minni skoðun: 24%
Sá sterkasti: 5%
Sá veikasti: 1%
Meirihlutinn: 27%
Minnihlutinn: 3%
Ég skil ekki spurninguna: 5%
Enginn: 6%
Allt í bland: 6%
Trúarleiðtogar: 0%
Einstaklingurinn: 18%
Hershöfðingjar: 4%
það tóku 186 þátt í þessari könnun.
—————————————————————————

Flestir völdu “meirihlutinn”
Næst flestir völdu “Það vantar valmöguleika sem hentar minni
skoðun”
Og svo kemur “Einstaklingurinn”

OK. Tökum pásu. Hvað er ég eiginlega að skrifa og af hverju?
Ég hef verið að lesa mikið hérna á Huga undanfarið. Ég hef
lesið um Einstaklingsfrelsið, ríkisstjórnina, rasista og
þjóðernissinna og muninn á þeim, fíkniefni, áfengi og tóbak,
hnefaleika, trúmál, dauðarefsinguna og margt fleira.
Fólk hefur mjög mismunandi skoðanir á þessum málefnum
og það er allt í lagi mín vegna. Ég hef líka mína skoðun á
þessu öllu. En það má ekki gleyma því að þetta eru bara
skoðanir og allir hafa svoleiðis. Þetta fer hinsvegar að vera
hættulegt þegar það á að fara að banna einhverjar tegundir
skoðana. Stilla öðrum upp við vegg og segja hans skoðanir
ekki “eins” réttar og einhvers annars. Það er búið að sanna
margt og mikið. Er það nógu góð ástæða fyrir fólk að setja
bönn á aðra? Hver ætlar að ákveða það? Meirihlutinn
kannski? Hvað gefur meirihlutanum rétt til þess að banna
einhvað? Er það öryggi fjöldans og/eða einstaklingsins?

Ég held að það sé enginn sem hafi þá vitneskju hvað sé best
fyrir alla. En ég held samt sem áður að einstaklingar reyni
oftast að gera hluti sem þeir telja að sé gott fyrir sig og sína
nánustu. Einstaklingar eru skynsamir og vita oftar en ekki
hvað er þeim sjálfum fyrir bestu, þó þeir viti það kannski ekki
alltaf. En það er eitt sem einstaklingurinn hefur með sér og
það er greind. Hæfileikinn til að meta hlutina “rétt” og “rangt”
og það er þessi hæfileiki sem gerir hann færan um að ákveða
hvað er sér fyrir bestu. Og það sem einstaklingar verða að
gera hvort sem þeim líkar það betur eða verr er að þeir þurfa
að taka afleiðingum gjörða sinna, hvort sem þær eru slæmar
eða góðar. Einstaklingar hafa líka annan kost sér í hag og
það er siðferði. Skynsemi, ábyrgð og siðferði. Allt er þetta
mjög mikilvægt og getur í raun ekki verið án hvors annars ef
vel á að fara.

Í dag er það ekki Einstaklingurinn sem ræður hvað hann gerir
heldur meirihlutinn (eða fjöldinn). Það þarf allt að vera
samþykkt af honum. Fjöldinn trúir því nefnilega að hann viti
hvað er einstaklingnum fyrir bestu þótt hann viti ekkert um það
í raun og veru. Og þar sem fjöldinn er sterkur og getur troðið á
öðrum fær hann sitt í gegn. Hann er siðlaus. Fjöldinn ber líka
enga ábyrgð því sem hann ákveður, hver ætlar að gera
einhvað í því sem meirihlutinn gerði? Meirihlutinn er svo
sterkur að það er oft ekki hægt að gera neitt í neinu.
Er það sem fjöldinn gerir skynsamt? Það held ég ekki.
Fjöldinn er siðlaus, tekur enga ábyrgð og er ekki mjög
skynsamur. Hann er hræddur við einstaklinga því hann veit að
ef einstaklingar fá að ráða þá getur einhvað gerst og þá verður
einhver að taka ábyrgðina. Þess vegna setur fjöldinn lög og
reglur, boð og bönn til að forðast einstaklinga sem gætu gert
einhvað sem fjöldinn ekki skilur.

Ríkið
Nú myndi ég líklega kallast hægri sinnaður hér á landi þó svo
ég haldi að ég sé það ekki. Ég kýs Sjálfstæðisflokkinn því mér
líkar nokkurveginn við það sem hann á að standa fyrir, en
hann gerir svo ekkert. Ég forðast vinstri hlutann því mér líkar
illa við að gera fjöldann stærri en hann er fyrir, og ég veit að
vinstri hreyfingin lætur oftar en ekki verða af því sem það segir.
Þannig að ekki er valið gott. Hægri stefnan flott að mínu viti, en
ekkert gerist. Vinstri stefnan ekki flott en allt á fleygiferð. Mér
líkar ekki valið.. en ég vel þó hægri.
Ég er mjög ósáttur við þetta fyrirkomulag sem er hér á landi.
Ég, og við öll, kjósum yfir okkur einhvað fólk sem segjist vita
nákvæmlega hvers við þörfnumst. Vinstri segir að ég þurfi
jöfnuð, ég þarf engan jöfnuð, ég þarf frelsi til að ákveða hvað
mér er fyrir bestu. Hægri segist ætla að láta mig fá þetta frelsi
en svo gerist ekki nokkurn skapaður hlutur. Þá er miðjan eftir.
Eins og miðjan virkar hér á landi í dag finnst mér hún ekki
fýsilegur kostur því eina sem miðjan hugsar um er að komast
í stjórn því þar eru víst hærri laun. Og svo hoppar miðjan bara
til þeirra sem eru næst því að fá meirihluta og fer í
stjórnarsamstarf. Og allt þetta á að gera okkur lífið einhvað
betra, ég get bara ekki séð hvernig, því miður.

Vill ekki ríkisrekna sameignarsjóði.
Því að þótt mér finnist þetta góð hugmynd að ég þurfi bara að
borga smáhluta af mínum launum í sjóð sem allir eiga þá er
ekki öllum sem finnst þetta góð hugmynd. Og ef ég þröngva
þessu upp á fólk gegn þeirra vilja þá er ég að brjóta illilega á
þeim að mínu viti. Ég er að taka í burt rétt þeirra til að velja
hvað þeim er fyrir bestu, því í raun og veru er ég ekki í neinni
aðstöðu til að segja öðru fólki hvað því er fyrir bestu þó ég
haldi að ég viti það. Ég er ekki að segja að það eigi ekki að
vera til neinir sameignarsjóðir, þvert á móti. Ég held að það sé
mjög góð hugmynd að það séu til hinir og þessir sjóðir en ég
vill að fólk fái að ráða því sjálft hvort það taki þátt eða ekki. Mér
finnst skynsamlegt að borga í sjóð og ég held að margir eigi
eftir að sjá líka að svo sé. Það getur margt komið fyrir fólk og
að hafa “öryggisnet” er ekki slæmt. Ég myndi borga í
sameiginlegan sjóð sem virkaði þannig að ef meðlimur
sjóðsins slasist eða fái sjúkdóm þá fái hann greitt úr
sjóðnum fyrir kostnaði sem hann yrði fyrir. Ég myndi líka vilja
borga í þannig sjóð sem myndi sjá til þess að fólk sem
slasist og/eða annað verra og er ekki í neinum sjóð,
annaðhvort vegna fátæktar eða það hreinlega vildi ekki taka
þátt, fengi þá hjálp sem því vantar, því þannig er mitt siðferði.
Það er síðan mjög líklegt að þetta fólk sem fékk aðstoð myndi
hugsa sinn gang og sjá mikilvægi þess að borga í svona
sjóð, vegna þess að ég trúi því að einstaklingar séu almennt
skynsamir og hafi gott siðferði. Með því að gera svona sjóð
erum við að höfða til skynsemi og siðferðis annara
einstaklinga í samfélaginu án þess að neyða einhvern í að
vera með.
Nú verð ég að borga í lífeyrissjóð. Það er víst mér fyrir bestu.
Eða svo segja lögin í landinu allvega. Ég veit hinsvegar um
leið sem er miklu betri fyrir mig sjálfan og mína nánustu. Ég
borga mánaðarlega í mörg ár. Ég ávaxta peningana mína
mun betur og ef ég fell frá þá erfist sú upphæð til þess sem
ég tilgreini. Og allt er þetta tryggt (að vísu ekki hér á landi). Nú
hafa ekki allir mikið af peningum á milli handana. Og þessir
aðilar eru neyddir til þess að borga hluta af sínum launum í
lífeyrissjóð til framfærslu á eldri árum, sem er svo ekki neitt
neitt. Það hefur ekki efni á því að borga í einhverja aðra söfnun
sem gæti verið miklu betri í alla staði. Þetta er bara eitt dæmi
um það sem virðist vera gott mál, er sett í lög með þeim
forsendum að “þetta er þér fyrir bestu”. Er þetta besta lausin?

Fíkniefni (tóbak, áfengi, kaffi, cannabisefni, heróín og allt
þarna á milli)
Nú eru örugglega margir sammála um að ofneysla þessara
efna er óholl. Fólk getur dáið eða orðið veikt við mikla neyslu
(þó það þurfi mismunandi mikið af hverju efni fyrir sig). Það er
búið að sanna skaðsemi sumra þessa efna ef neytt í
óhæfilegu magni, hvað sem óhæfilegt magn er.
Gefur það meirihlutanum rétt til að banna þau? Hvort sem það
er til þess að bjarga okkur eða sjálfum sér frá einhverju sem
gæti gerst.
Langt frá því segi ég. Meirihlutinn hefur engann rétt að að
banna mér að mynda mér mína eigin skoðanir um þessi efni
og ég má nota þá leið til að mynda mér skoðun sem mér
finnst skynsamlegust. Ég gæti komist að þeirri niðurstöðu að
þetta væri bara fínt mál. Ef ég held (guð forði mér frá því samt)
að ég verði betri maður ef ég nota heróín þá vill ég fá að nota
heróín. En nei, það er einhvað fólk þarna úti sem ég þekki ekki
neitt sem er búið að ákveða fyrir mig að ég megi ekki gera
svona útaf því sem hugsanlega gæti komið fyrir einhvern. Nú
ætla ég ekki að tala um ágæti heróíns því ég held að það hafi
enginn maður gott af því að nota það. En það er mín skoðun
ekki allra. Bara af því að ég haldi einhvað eða finnist einhvað
þá þýðir það ekki að ég megi banna það. Það hugsa ekki allir
eins.
Ég reyki sjálfur og ég fæ mér oft að reykja þegar ég er á
matsölustöðum eftir matinn. Ef einhver er ósáttur við að ég
reyki í návist þeirra má sá hinn sami koma til mín og biðja mig
um að drepa í eða fara einhvert annað og reykja. Þessi aðili
getur líka yfirgefið svæðið ef hann vill ekki að tala við mig. Þar
sem ég veit um skaðsemi óbeinna reykinga þá myndi ég
drepa í ef ég væri beðinn um það, það er minnsta mál í heimi.
En hver og einn verður að gera það upp við sig hvað er
skynsamlegasta leiðin í þessu. Til dæmis ef það er einn sem
ekki reykir og tíu manns í kringum hann sem eru að reykja þá
myndi ég halda að það væri skynsamlegra að yfirgefa svæðið.
Ég myndi til dæmis ekki kveikja mér í ef aðstæðurnar væru
þannig að mér myndi líða illa með að reykja.
Nú á ég ekki þessa matsölustaði sem ég borða oft á og ég
verð að fara eftir reglum eigenda þeirra. Það er réttur eigenda
staðanna að setja regur um eignir sínar og umgengi við þær,
alveg eins og ég ræð hvort einhver reyki á mínu heimili eða
ekki.

Rasistar og Anti-Rasistar
Nú hefur rasista umræða verið í gangi hér á Huga í nokkurn
tíma og eru þeir til sem vilja banna þá umræðu hér. Ég vill
ekki banna þessa umræðu þó ég sé ekki sammála henni. Ef
fólk telur sig lifa betra lífi “vitandi” það að það sé æðri en
einhver annar þá má það lifa þannig mín vegna. Þessir aðilar
færa ýmis rök fyrir máli sýnu og það er bara mjög gott mál.
Hinsvegar hef ég ekki enn heyrt nógu góð rök frá þessum
aðilum sem fá mig til að sjá þetta sömu augum og það sér
hlutina og mun ég frekar reyna að tala við þetta fólk þannig að
það sjái mína hlið og skipti um skoðun, en þeir ráða því sjálfir
hvort þeir hlusta á það sem ég tel mig vita og hvað mér finnst,
alveg eins og ég ræð hvort ég hlusti á þá eða ekki. Nú ætla ég
ekki að segja að þeir hafi rangt fyrir sér og allir hinir rétt fyrir því
það er ekki það sem ég er að tala um í þessari grein.
Hinsvegar vill ég ekki að það sé troðið á þeirra rétti til að hafa
sína skoðun þó ég sé ekki sammála henni, því það er ekki
gott mál.

Boxið
Það er bannað að boxa á íslandi. Af hverju er það bannað?
Það er bannað vegna þess að það er fólk hér á landi sem trúir
því að enginn hafi gott af því að boxa. Það heldur því fram að
þetta sé slæmt fyrir fólk og leiði einstaklinga út í ofbeldi. Þetta
sama fólk er að taka fram fyrir hendurnar á fólki sem vill gera
einhvern ákveðin hlut vegna þess að það heldur að það hafi
ekki gott af því. Hvaðan fær þetta fólk það vald að ákveða
svona hluti? Það fær það frá þessum ósýnilega meirihluta
sem svo enginn vill vera hluti af. Það eru allir að kvarta undan
einhverju og það er alltaf einhver meirihluti sem er að ákveða
allt fyrir alla.

Trú
Trú er af hinu góða að mínu viti þótt ég sjálfur trúi ekki á æðri
mátt sem ég ekki get útskýrt (guð eða sambærilegt). Ég trúi á
einhvað annað þó ég viti ekki alveg hvað það er ennþá. En
vandamálin byrja þegar fólk byrjar að segja sína trú betri en
aðrar. Að rífast um hvaða trú sé betri finnst mér hreint út sagt
heimskulegt. Það er verið að rífast um einhvað sem er ekki
hægt að sanna eða færa með rökum á nokkurn hátt að mínu
viti. Eina sem ég get sagt um trú að fólk trúir á það sem því
finnst rétt og það kemur mér ekkert við og ég hef engan rétt á
því að þröngva minni trú upp á aðra, þó ég megi að sjálfsögðu
segja fólki frá hverju ég trúi. Umburðalyndi í trúmálum er
mikilvægt og mér finnst að kirkjur af hvaða trú sem þær eru
eigi að reka sjálfstætt.
Það er margt gott sem fylgir trú og trúmálum. Mörgu fólki líður
betur vegna trúar sinnar og er það hið besta mál. Það má lifa
samkvæmt reglum trúar sinnar mín vegna ef það telur að það
sé það besta fyrir það sjálft, svo framarlega sem það brýtur
ekki rétt annara til að velja.

Glæpir, dauðarefsing, siðferði, skynsemi og virðing fyrir öru
fólki
Glæpir eru ekki að ástæðulausu. Fólk sem fremur glæpi er
ekki endilega vont fólk. Ég held að þetta sé fólk sem er í
miklum minnihluta. Meirihlutinn er búinn að ýta því út í horn.
Þrýsta og pressa á það svo mikið að það gefur einhvað eftir,
eða að það er búið að loka þannig á foreldra barna að börnin
fái ekki það uppeldi sem þau þurfa heldur lifa í einhverri
ringulreið og skilja ekki hvað er í gangi.
Stundum er það þannig að fólk drepur annað fólk. Og
stundum drepur meirihlutinn fólk sem hefur drepið fólk… og
ekki veit ég hvort er verra, en það er nokkuð ljóst að bæði er
mjög slæmt.
Fólk stelur mat af því að það á ekki mat og fólk stelur
peningum af því að það á ekki pening. Fólk notar ofbeldi ef
ofbeldi er það eina sem það kann. Það er ofbeldi allstaðar.
Samfélagið notar ofbeldi oft og mikið af því. Samfélagið setur
oft illa hugsaðar reglur í fljótfærni því þær eru “okkur fyrir
bestu”. Það setur bönn sem sumir skilja bara ekki. Bönn sem
eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, bönn sem stundum
er ekki einu sinni hægt að framfylgja. Og hver er niðurstaðan?
Sum þessi boð og bönn valda meiri skaða en þau áttu að
koma í veg fyrir. Og allt þetta í því nafni að “þetta er þér fyrir
bestu”. Það er ekkert skrýtið að það séu margir ringlaðir og
reiðir einstaklingar í samfélaginu í dag. Og þetta er
nákvæmlega það sem fjöldinn er að reyna að koma í veg fyrir
en getur það ekki vegna þess að hann skilur ekki vandamálið
í heild.

Oftar en ekki er það þannig að ef ég ber virðingu fyrir fólki þá
ber það virðingu fyrir mér. Og fólki sem einu sinni hefur verið
sýnd virðing er mjög líklegt til að gera hluti til að halda virðingu
sinni. Ef ég sýni fólki lítisvirðingu þá sýnir það mér (og í
sumum tilfellum örðum) lítisvirðingu. Alveg eins og stjórnvöld
(hvaða stjórnvöld sem er) sýnir þegnum sýnum þá
lítilsvirðingu að treysta því ekki til að taka sýnar eigin
ákvarðanir minnkar virðing þegnana á stjórnvöldunum.
Hinsvegar ef ég sýni virðingu fyrir fólki með skoðanir sem ekki
eru eins og mínar þá sýnir það mér líklega sömu virðingu á
móti. Og oftar en ekki hlustar fólk á fólk sem það ber virðingu
fyrir. Fólk verður einhvern veginn að fá virðingu sína í hvaða
formi sem hún er og við fáum hana með því að vera skynsöm
og ekki skemmir að vera með gott siðferði einnig.
Það er einmitt lítisvirðing annara sem getur rekið fólk út í að
gera stórfurðulega hluti og það er ekki fyrr en það hefur verið
lagað að við förum að leysa úr málunum.

Menntun
Menntun er eitt það mikilvægasta í samfélaginu í dag. Það að
kenna fólki hvernig á að hugsa sjálfstætt og upplýsa það um
ýmsar staðreyndir og fleira er mjög gott mál að mínu viti. Samt
vill ég ekki að Ríkið sjái um þessa menntun. Ég tel
skynsamlegt að þeir sem sjái hag sinn og annara í því að
fólkið í landinu sé menntað muni sjá til þess að þetta fólk fái
góða menntun og borgi fyrir það. Fyrirtækin í landinu vilja vel
menntað fólk og ég vill að börnin mín, ef ég eignast einhver
einhverntíman, fái eins góða menntun og völ er á. Því myndi
ég ætla að ég, og feiri sem eru sammála mér, ásamt
mörgum fyrirtækjum í landinu myndi borga fyrir menntunina í
landinu. Því það finnst mér skynsemi og siðferðislega rétt.
Það getur verið að einhvað fólk sé ekki sammála og það er
allt í lagi. Kannski er þetta fólk með enn betri lausn, hver veit?
Svo framarlega sem sú lausn neyðir ekki neinu upp á mig
eða aðra þá er það hið besta mál.

Að lokum.
Ég ber mikla virðingu fyrir einstaklingum en mjög litla eða
enga fyrir fjöldanum. Einstaklingar eru skynsamir og með gott
siðferði að mínu mati, fjöldinn hræddur og siðlaus. Mín utopia
er samfélag þar sem einstaklingar eru virtir fyrir það að hafa
skoðun. Skiptir engu hvort einhverjum finnist hún ekki
skynsöm. Aðstæður og skilyrðin hér á landi og í öllum
heiminum eru bara þannig að það geta verið margar “réttar”
skoðanir. Það er ekki alltaf bara ein leið fær. Um leið og fólk er
virt sem einstaklingar þá hlustar það og rökræðir. Það hættir
að rífast um málefnin og fer að tala um þau. Ég hlusta á fólk
sem ég ber virðingu fyrir og fólk sem ber virðingu fyrir mér
hlustar á mig, þó svo að ég sé ekki alltaf sammála þessu fólki
og það mér. Hinsvegar með því að nota leiðir eins og
meirihlutinn gerir, eins og segja “þú mátt hafa þína skoðun,
en þú verður að lifa eftir okkar reglum og okkar skoðunum því
við erum fleiri en þú, við erum sterkari en þú og við vitum betur
en þú hvað er þér fyrir bestu.”, er verið að valda miklu meiri
skaða en meirihlutinn gerir sér nokkurn tíman grein fyrir.

Þetta er mín skoðun

Friður
potent

p.s afsakið lengdina á þessu. Endilega kommentið einhvað á
þetta.