Ég er tiltölulega ný í þessum netheimi, en hef mjög gaman af heimspeki og ákvað þess vegna að senda inn þessa grein sem ég skrifaði fyrir sjálfa mig fyrir löngu bara svona til að fá einhver viðbrögð… vonandi.
“Lygi er dulargervi sannleikanns”. Ég tók ástfóstri við þessum orðum um leið og ég heyrði þau í fyrsta skipti og pæli mikið í þeim. Allir hafa logið! Við ljúgum til að fólki finnist við vera meira spennandi, við ljúgum að ástvinum okkar til að særa þá ekki, fjandinn hafi það, við ljúgum að fólki sem við þekkjum ekki til að særa það ekki!
Ég hugsa oft “það sem ég veit ekki særir mig ekki” en ég er samt ekki viss um að ég vilji að fólk ljúgi að mér til þess að særa mig ekki því þá sárnar mér bara enn meira þegar og ef ég kemst að því.
Við ljúgum öll að fólki til þess að særa það ekki og verðum svo bálreið þegar einhver gerir það ekki og erum þá í raun að lítilsvirða frasann: “þú átt að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig”. Það tyggja allir þann frasa, en það fer í rauninni enginn eftir honum. Við ljúgum í alvöru bara til að leyna sannleikanum, hvort sem það er til að hlífa öðrum eða til að vernda sjálf okkur frá opinberun um hver við erum í raun og veru.
Ég lýg eins og allir aðrir þó að ég viti að ég eigi ekki að gera það. Það er það skrýtna við fólk, við þolum ekki þegar fólk blekkir okkur eða lýgur að okkur, en ef við fylgjumst með hegðun í okkur sjálfum, sjáum við að við gerum þetta líka. Ég velti fyrir mér hvort heimurinn væri betri staður ef enginn myndi ljúga að neinum, en í rauninni myndum við særa hvert annað svo óendanlega endalaust að við myndum öll verða undirförul og hætta að treysta á manngæsku. Lygi er oft bara umhyggjusemi, en það fer eftir lyginni. Engin lygi er eins og þess vegna er kannski ekki ægt að lýsa lygi á einhvern ákveðin hátt, án þess að skilgreina hvernig lygi er átt við.
Ég ætla ekki að skilgreina lygi hér, þið finnið út úr því sjálf!