Allar fræðigreinar glíma við vanda. Sumar þeirra glíma við erfiðleika í rannsóknarsiðgæði -saman ber erfðafræðina og aðrar við fjársvelti -saman ber nær öll félagsvísindi. Stærsti vandi heimspekinnar er líklega sá að almenningur lítur niður á hana og á fátt háskólanám er meira litið niður en heimspekina. En hvernig má breyta almenningsálitinu? Hér að neðan eru mínar hugrenningar um þetta.
Heimspekin er vissulega áhugaverð fræðigrein. Sagan, kenningarnar og hugmyndasmiðirnir. Allt er þetta þess virði að kynna sér nánar. Heimspekin býður upp á mikilvægan þátt sem aðrar fræðigreinar eiga erfitt með að gera og það er möguleikinn til að hugsa frjálst og óháð öðrum kenningum, þú getur smíðað þína eigin kenningu án þess að skeyta um kenningar þeirra sem á undan koma. Bestu kenningar heimspekinnar eru, eðli málsins samkvæmt, þær sem láta mann staldra við og íhuga. Þær sem ögra okkur og þær sem láta okkur sjá aðrar hliðar á mannlífinu -já lífinu í heild. En það er þessi möguleiki sem er lítið nýttur í dag. Það eru fáir að koma fram með NÝJAR hugmyndir, NÝJAR kenningar. Og hvað er þá heimspekin að gera?
Jú, heimspekingar halda áfram að velta sér upp úr spurningum sem önnur vísindi hafa svarað og svarað á þann hátt að óumdeilt þykir. Við þurfum ekki lengur að velkjast í vafa um að þó enginn sé í skóginum heyrist samt hljóð þegar tré tekur upp á því að falla. Og hænan kom vissulega á undan egginu. En í stað þess að salta umræður um þessi sannindi þrjóskast heimspekin við og spólar í gömlum hjólförum spekinganna sem á undan fóru.
Heimspekingar hafa miklu og mikilvægu hlutverki að gegna í nútímaþjóðfélagi. Þeir geta verið samviska þjóðarinnar óháðir duttlungum almenningsálits. En þetta gera þeir ekki. Sigríður Þorgeirsdóttir kennari í háskólanum er dæmi um heimspeking sem mikið er leitað til í siðferðilegum álitamálum. Sigríður bregst þó oftast hlutverki sínu -hún leyfir sér um of að sveiflast með tíðarandanum. Fleiri mætti nefna en hún virðist vera tískuheimspekingur dagsins í dag rétt eins og Sigurður Líndal kemur ætíð fram með tískulögfræðiálitið.
Ég vona að heimspekingum beri gæfa til að koma sér upp úr hjólförunum. Geti þeir það býður þeirra glæst framtíð -jafnvel glæstari en fortíðin.