Af hverju erum við þau sem við erum? Þetta er spurning sem ábyggilega alla langar til að komast að svari við! Af hverju er ég ekki Jón Jónsson í staðinn fyrir að vera Ofurkusa? Ég veit áður en ég skrifa þessa grein að við þessari spurningu er aldrei hægt að finna ákveðið svar. En mér finnst samt gaman að velta henni fyrir mér.
Ljóst er að skiptingin í heiminum er fjári ósanngjörn. Sumir fæðast heilbrigðir, aðrir sjúkir. Sumir fæðast ríkir, aðrir fátækir. Sumir fæðast heppnir, aðrir óheppnir, og svona má lengi telja. En af hverju?
Aðstæður okkar eiga stóran þátt í að gera okkur að þeim sem við erum. Barn sem fæðist til dæmis inn í eitt af velmegunarsamfélögum Vesturlanda öðlast miklu fleiri tækifæri heldur en barn í Palestínu. Við getum heldur ekki stjórnað því HVAR við fæðumst. Síðan ef við höfum möguleika á því, þá reynum við að gera það besta úr aðstæðum okkar, laða fram það besta í sjálfum okkur og vera dugandi sem manneskjur og þakklát fyrir það sem við höfum. En það fá bara ekki allir tækifæri til þess. Það finnst mér svo rosalega blóðugt. Þess vegna spyr ég af hverju erum við þau sem við erum?
Gen og litningar hljóta að stjórna einhverju. Allt þetta tal um erfðafræði, genamengi mannsins hefur verið kortlagt og bráðum verður unnt að sjá hvernig einstaklingur mun koma til með að líta út, hvernig skapgerð hann mun hafa og guð má vita hvað. Brilljant finnst mér…
En það svarar samt ekki spurningunni minni. Ég er ósátt við þessa ójöfnu skiptingu en fæ samt engu breytt. Þetta er og verður alltaf svona. Kannski er þetta vegna þess að við eigum mörg önnur líf að baki. Sálin okkar er ódauðleg og finnur sér bólstað í nýjum líkama þegar sá eldri gefur upp öndina. Aðstæður og afrek manna í fyrri lífum eru ástæðan fyrir því hver við erum í þessu lífi. Hvað finnst ykkur??