Flestir sem hafa djúptækan áhuga á heimspeki hafa einhvern tímann heyrt minnst á þverstæðuna um rakarann, rakarann frá Sevilla. Þverstæðan er einhvern veginn svona: Í þorpi nokkru býr rakari (karlmaður) sem rakar alla mennina í þorpinu sem raka sig ekki sjálfir. En hver rakar rakarann? Ef hann gerir það sjálfur þá rakar hann sig ekki (því hann rakar ekki mennina sem raka sig sjálfir). En ef hann rakar sig ekki sjálfur þá rakar hann sig samt (því hann rakar einmitt þá sem raka sig ekki sjálfir). Ég vil fá að bera undir áhugamenn um heimspeki lausn á þessu og halda því fram að rakari sem rakar alla í þorpinu sem ekki raka sig sjálfir geti hæglega verið til. Ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé lausn á þverstæðu Russells, þ.e. að það sé ekki hægt að búa til mengi þeirra mengja sem eru ekki stök í sjálfum sér. Heldur vil ég meina að þetta sé ekki alveg 100% hliðstætt dæmi.(1)

Lausnin sem ég vil stinga upp á byggir á hugmynd sem Christine M. Korsgaard hefur nýlega beitt til þess að beturumbæta kantíska siðfræði. Hana fann ég í bók Korsgaard The Sources of Normativity, sem ég mæli eindregið með. Þó ég sé sannfærður um að bætur Korsgaard gangi ekki upp verð ég að segja að bók hennar er lang besta bók í heimspeki sem ég hef lesið lengi. Svona á að stunda siðfræði!

En hvað um það. Það sem Korsgaard gerir er að kynna til sögunnar hugmyndina um hlutverk. Hjá henni er það aðalatriðið að mismunandi hlutverkum fylgja mismunandi skyldur. Sum hlutverk hafa innbyggðar skyldur. Sum hlutverk eru siðferðileg hlutverk og hafa innbyggðar siðferðilegar skyldur. Ég vil gera mér mat úr öðru, þ.e. þeirri staðreynd að það eru til mörg hlutverk. Eitt hlutverk sem ég leik er t.d. hlutverk nemanda. Því hlutverki fylgja ákveðnar skyldur; ekki þó þær sömu og hlutverki kærastans, sem ég leik einnig. En aðalatriðið er það að sjálfsmynd mín er ekki einþætt heldur fjölþætt. Hún er samansett úr mörgum hlutverkum.

Og hér kem ég að lausn minni á þverstæðunni. Rakarinn er ekki bara rakari. Hann er líka maður og kannski eiginmaður eða faðir. Hver veit. Ímyndum okkur um stundarsakir að hann sé til. Hann rakar alla sem raka sig ekki sjálfir. Ef hann rakar sig sjálfur (t.d. á morgnana áður en hann fer í vinnuna) þá rakar hann sig ekki (sem rakari), því rakarinn rakar ekki þá sem raka sig sjálfir. Ef hann rakar sig ekki sjálfur (sem venjulegur maður, utan vinnutíma) þá rakar hann sig samt (sem rakari, á vinnutímanum). Þannig getur þessi rakari hæglega verið til.

Ég vil ítreka að ég held því ekki fram að þetta leysi raunverulegu þverstæðuna um mengin. Alls ekki. En ég held að það sé hægt að sýna fram á að - með því að setja dæmið um rakarann nægilega skýrt fram - að í því felst ekki endilega þverstæða af sama tagi (reyndar engin þverstæða).

Ég vona að ég hafi gert mig skiljanlegan. Ef þetta er illskiljanlegt, bið ég lesendur um að sýna mér velvild, kenna framsetningu minni um í fyrstu og lesa aftur, en síðan dæma hugmyndina fáránlega ef þeir kjósa. Mér þætti gaman að fá athugasemdir um þetta.

___________________________________________
(1) Um þverstæðuna má lesa á Vísindavefnum í svari Eyju Margrétar Brynjarsdóttur við spurningunni “Rakarinn í Þorlákshöfn rakar alla sem raka sig ekki sjálfir. Rakar hann sjálfan sig?” þ. 29. maí sl.
___________________________________