Smættarefnishyggjan er einföld kenning og samrýmist vísindalegri hugsun afar vel. Smættir eru algengar innan vísindanna og eðlilega telja margir að smætta megi hugarferli í einfaldari fyrirbæri, eins og allt annað. Þróunarrökin svonefndu ganga svo út á að við höfum þróast á þann hátt að við höfum flóknari miðtaugakerfi en aðrar lífverur, en það er bara tilviljun. Það er engin ástæða til að gera ráð fyrir andanum sem verund sem ekki er hægt að smætta í efnisleg ferli.
Rök gegn smættarefnishyggju er ýmis t.d. sjálfsskoðunarrökin: þegar við skoðum vitund okkar verðum við vör við allt aðra hluti en efnisleg ferli. En á móti má segja að þegar við sjáum eitthvað með augunum verðum við ekki vör við öreindir og bylgjur en eigi að síður höfum við fyrir satt að það sé það sem hlutirnir séu. Af hverju ætti sjálfsskoðun að vera áreiðanlegri skynjun? Þá er bent á að samskonar hugarferli geta verið orsökuð af eða birst í mismunandi efnislegum ferlum. Það er ekkert eitt efnislegt ferli sem getur samsvarað því að sjá grænt; það að sjá grænt getur verið orsök margra mismunandi efnislegra ferla.
Lögmálið um óaðgreinanleika sömu hluta með tilliti til eiginleika hefur verið notað gegn smættarefnishyggjunni en það hljóðar svona: Ef a og b eru sami hluturinn þá eiga a og b alla eiginleika sameiginlega. Einn og sami hluturinn getur ekki bæði haft og ekki haft eiginleikann p. Þar sem heilaferli hafa staðsetningu (eru staðbundin við heilann) verða hugarferli líka að hafa staðsetningu ef þau eiga að vera nákvæmlega sami hluturinn. En það er merkingarlaust, segja margir, að trú mín að ég falli ekki á prófi í skóla eða tilhlökkun mín til afmælis míns séu staðsettar einhvers staðar í einhverri heilafrumu; jafn mikið rugl, segja sumir, og að talan fimm sé græn eða að ástin sem ég ber til einhverrar stúlku vegi 20 grömm. Hugsanir geta verið sannar og ósannar en geta heilaferli verið sönn eða ósönn? Þau verða að vera það ef þetta á að geta verið eitt og hið sama. Sumir myndu kalla þetta kvíavillu (mér dettur Gilbert Ryle í hug). Við eigum kannski bara eftir að venjast þessum hugmyndum um að hugsanir hafi staðsetningu og heilaferli geti verið sönn eða ósönn rétt eins og við þurftum að venjast tilhugsuninni um það að jörðin væri á hreyfingu í kringum sólina og að hljóð væri bylgjur í lofti. En nú vill svo til að hugsanlega felst rökvilla í lögmálinu um óaðgreinanleika sömu hluta með tilliti til eiginleika og erfitt er að losna undan henni nema með því að lenda í hringaferð í sönnun.
Smættarefnishyggjan er gerðaefnishyggja og ef sársauki er heilaferlið H-27 þá er hann það í öllum. Það er að segja, sársauki er ákveðin gerð af heilaferli (í þessu tilviki H-27). En það er mögulegt að annars konar verur séu ekki byggðar á kolefnissamböndum eins og við, kannski kísil, og í þeim sé sársauki S-27. Smættarefnishyggjan yrði að segja að þetta sé ekki sársauki heldur smársauki eða eitthvað svoleiðis.
Enn frekari rök gegn smættarefnishyggju eru t.d. þessi: Vísindamaður sem veit allt um heilann og heilaferli en hefur aldrei séð rautt veit ekki allt um ákveðnar skynjanir og hugarferli. Þessu má svara því til að hann geti vel vitað það hvernig það er að skynja rautt rétt, eins og maður sem hefur séð rautt; hann viti það bara ekki í sama skilningi. Það er sem sagt hægt að vita eitthvað í fleiri en einum skilningi. Ímyndum okkur til dæmis mann sem hefur oft ferðast á milli staðar A og B. Hann veit hvernig á að komast frá A til B. Svo höfum við vísindamann, eða staðháttafræðing kannski, sem veit allt um staðarhætti á tilteknu svæði – allt! Hann veit líka hvernig á að komast frá A til B, en án þess þó að hafa endilega ferðast þar á milli sjálfur.
Þrátt fyrir ýmsa lausa enda og vandræði hefur smættarefnishyggja notið þónokkurra vinsælda, a.m.k. á meðal vísindamanna. (Margir rökfræðilegir raunhyggjumenn voru smættarefnishyggjumenn) Samt eru þær kenningar sem keppa helst við smættarefnishyggjuna e.t.v. mun betri kostir. Verkhyggja um hugarferli er er ein slík.
Verkhyggjan (functionalism) um hugarferli er nokkurs konar arftaki atferlishyggjunnar (behaviourism) (1) en verkhyggjan tekur upplifanir og finningar (qualia) með í reikninginn sem atferlishyggjan hafði ekki gert. Hugarferli eru nú skilgreind útfrá hlutverki þeirra. Talað er um hlutverk með tilliti til þriggja hluta: ytri orsaka, hegðunar sem þær orsaka og orsakarsambands við önnur hugarferli. H-27 er hugarferli ef H-27 tengist öðrum hugarferlum á ákveðinn hátt, orsakar ákveðna hegðun (eiginlega tilhneigingu til ákveðinnar hegðunnar) og er afleiðing ákveðinna ytri orsaka. Smættun ferla eins og sársauka er ekki talin möguleg. Sásauki sem gerð er ekki efnisleg gerð. Hér er því höfnun á smættarefnishyggju og gerðaefnishyggju. Verkhyggjan felur yfirleitt í sér teiknaefnishyggju. Einnig er mögulegt að aðhyllast verkhyggju og hafna efnishyggju.
Munurinn á verkhyggju og smættarefnishyggju er sá að verkhyggjan beinist að skilgreiningu á hugarferlum á meðan smættarefnishyggjan beinist að samsemd hugarferla og heilaferla.
Verkhyggjan gerir okkur kleift að gera grein fyrir hugarferlum á þeirra eigin forsendum. Það mælir með verkhyggjunni að hún getur leyst vanda sem hrjáir smættarefnishyggjuna. Smættarefnishyggjan er gerðaefnishyggja og ef sársauki er heilaferlið H-27 þá er hann það í öllum; hann er þá ákveðin gerð af heilaferlum. En það er mögulegt að annars konar verur séu ekki byggðar á kolefnissamböndum eins og við, kannski kísil, og í þeim sé sársauki S-27. Verkhyggjan getur gert grein fyrir því hvernig kísilveran okkar finnur einnig til því hún skilgreinir sársauka með tilliti til hlutverks. Verkhyggjan reynir einnig að leysa vanda atferlishyggjunnar um uppgerð (þegar menn þykjast finna til o.s.frv.) og taka finningar með í reikninginn. En hún getur lent í vanda með að gera grein fyrir finningum þar sem hugsast getur að ferli gegni nákvæmlega sama hlutverki og hugarferli án þess að nokkrar finningar tengist því. Hér eru oft tekin dæmi af öfugu litrófi (inverted spectrum). Ímyndum okkur að þegar Ásmundur sér rautt upplifi hann R en nákvæmlega sömu hlutir valda upplifun G í Þorkatli. Þeir upplifa ekki það sama en hlutverk hugarferlanna er það sama svo samkvæmt verkhyggjunni er um sama hugarferlið að ræða. Verkhyggjan lendir því í smá vandræðum með finningar. Hlutverk er ekki nægjanlegt til skilgreiningar á finningum, hvernig það er að upplifa eitthvað. Einnig mætti hugsa sér vélmenni sem greinir liti – öll hlutverk eru eins og hjá okkur en engar finningar eru til staðar, engar upplifanir í sama skilningi og að við upplifum. Það er ekki mögulegt að sama heilaferlið orsaki mismunandi finningar, en sama finningin getur verið orsökuð af mismunandi heilaferlum.
__________________________________________
(1) Atferlishyggjan átti vinsældum að fagna um miðja 20. öldina. Rudolf Carnap, Carl Hempel og Gilbert Ryle voru meðal talsmanna hennar. Hilary Putnam er einn fragasti málsvari verkhyggjunnar. Annar málsvari hennar er David Lewis.
___________________________________